"Tante Ju" var Þristur Þjóðverja.

Þótt Þjóðverjar framleiddu ekki eins margar vélar af gerðinni Junkers Ju 52 og Bandaríkjamenn af DC-3 skipaði "Tante" Ju" jafnvel enn hærri sess í stríðsrekstri Þjóðverja en þristurinn hjá Bandaríkjamönnum, ef litið er til hinna fjölbreyttu nota Ju 52.

Þau not voru hins vegar að afar litlu leyti sem sprengjuflugvél. Sem slík var hún aðeins notuð í borgarastyrjöldinni á Spáni og árásinni á Varsjá 1939.

DC-3 og Ju 52 voru álíka stórar, þungar og aflmiklar, en Ju 52 var miklu hægfleygari, af því að hún tók ekki hjólin upp og var með mun stærri vængi en þristurinn.

Þrír BMW-hreyflar Ju 52 voru 850 hestöfl hver og samtals 2550 hestöfl, en hreyflar DC-3 voru tveir og 1200 hestöfl hvor, eða samtals 2400 hestöfl.

"Tante Ju" var lykillinn að hernámi Noregs þegar hernema þurfti helstu flugvelli og hernaðarlega mikilvæga staði með fallhlífarliði.

Komið hefur fram að Bretar voru undir það búnir að floti Junkers-vélanna yrði notaður til að henda út fallhlífarliði við hugsanlegt hernám Íslands og myndu síðan lenda á völdum stöðum, af því að þær höfðu ekki flugþol fram og til baka.

Junkers Ju 52 var eitt af trompunum í innrásinni í Niðurlönd í maí 1940, en enda þótt vélin þyrfti mjög stuttar brautir, var hún með mjóslegin hjól og margar brotlentu því þegar hjólin sukku í deiga jörð.

Junkers Ju 52 var burðarásinn í því þegar Þjóðverjar tóku Krít af Bretum og Grikkjum vorið 1941, í loftbrúnni til Demyansk á útmánuðum 1942 og við flutninga á birgðum og hergögnum handa hinum innikróaða Þriðja her í Stalingrad.

Hitler notaði Ju 52 mikið, einkum framan af, en "einkavél" hans síðustu árin var hins vegar hin fallega fjögurra hreyfla flugvél Focke-Wulf Fw 200, sem var miklu stærri, hraðfleygari og langfleygari.

Ju 52 gagnaðist eins og áður sagði ekki sem sprengjuflugvél nema þar sem hún var í friði fyrir orrustuvélum andstæðinganna. Hún var svo hægfleyg að hún var auðveld bráð fyrir miklu hraðfleygari vélar andstæðinganna.

Einn af flugdraumum mínum er að komast yfir Junkers Ju 52 og setja á hana stóra og belgmikla hjólbarða.  


mbl.is Samskonar vél og Hitler notaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Skemmtilegt takk fyrir, en draumar eru draumar sem sumir rætast ekki því miður, en hver veit.

Líklega voru þessir þrír BMV mótorar þyngri en tveir Pratt og Whitney mótorar.  En veist þú hver líkindi voru á milli þessarar Junkersvélar og þriggja hreyfla Amerískrar vélar sem mig minnir að Ford hafi smíðað?

Hrólfur Þ Hraundal, 21.6.2012 kl. 06:31

2 identicon

Ég hef komið inn í 2 svona vélar, - önnur var á SAFNINU í Munchen, hin í Sinsheim. Sú í Munchen ku hafa haft Hitler sem farþega einhvern tímann.

Helv. eru þær hráar miðað við Þristinn, - og N.B., - Þristurinn er kominn í loftið upp úr 1930 (ja....DC-2 ef ég man rétt, - en sama prinsippið)

En....það er ansi margt sniðugt við JU52. Einn mótor má bila, þurfti stutta braut, og svona smá-fídusar til viðbótar.

Vélin var bara svo hægfleyg að það var til vandræða. Þjóðverjar sendu helling af þeim frá Stalingrad til þess að aðstoða við brottfluttning herliðs Öxulveldanna frá Túnis undir vor 1943, og þar voru þær skotnar í spað í stórum stíl. Það var allt of erfitt fyrir fylgdarvélar að verja þær vegna þess að ganghraði þeirra var nálægt ofrishraða fylgdarvélanna, - sama vandamál og Stúkurnar áttu við í orrustunni um Bretland.

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.6.2012 kl. 10:49

3 identicon

Hræddur um að draumurinn breytist í martröð, þegar stóru belgmiklu hjólbarðarnir birtast í draumnum. Þú mannst kanski eftir nefhjólinu og kerfiskörlunum forðum.

þór (IP-tala skráð) 21.6.2012 kl. 13:46

4 identicon

Hérna kemur stundum Supercup á svaka túttum, og sú var ekki föst í kerfiskörlum. Kannski fer það eftir því hver á í hlut en ekki hvað.

Nefhjólið er enn á sínum stað, og TF-FRÚ væntanlega á Akureyri í dag....

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.6.2012 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband