Þarf stórar áletranir á skiltum.

Hversu mjög sem menn óska sér þess að allir viti um helstu aðgæsluatriðin þegar ekið skal yfir óbrúaðar ár, verður það seint á almannavitorði.

Eina vonin til þess að fólk sé eins vel upplýst um þetta er að það standi stórum og skýrum stöfum á upplýsingaskiltum við vöðin.

Eitt þessara atriða er það hve hratt getur vaxið í ám vegna sólbráðar eða leysingar ofar í ánni þegar líður á daginn.

Þetta á einkum við um ár sem koma frá jöklum, en fyrri part sumars einnig við um bergvatnsár sem leysing vetrarsnævar berst í þegar hitnar eftir að sólin er komin hátt á loft.

Sem dæmi má nefna að þessa dagana eru þrjú svæði á hálendinum með óvenju miklum snjó. Það eru suðurhlíðar Kerlingarfjalla, Torfajökulshálendið sunnan og austan við Landmannalaugar og hálendið á Miðnorðurlandi.

Að minnsta kosti tvö stórfelld banaslys urðu fyrr á árum vegna vaxtar í ám, í Bergvatnskvísl norðaustan við Hofsjökul 1989 og tæpum áratug fyrr í Rjúpnabrekkukvísl nálægt Gæsavötnum.

Sjálfur hef ég horft á það úr flugvél hvernig jökulbráðarflóð geysist niður þá á eftir að sól er komin upp og breytir henni úr ósköp venjulegri og tiltölulega lítilli á í skaðræðisfljót.

Við svona ár ættu að vera stórar aðvaranir vegna þessarar hættu.

Þar að auki eru margar ár viðkvæmar fyrir mikilli úrkomu og hvað Gilsá snertir, kynntist ég því vel í frönsku jepparalli 1983 hve gríðarlegan vöx úrhellisrigning getur skapað í henni.

Æskilegt væri að við aðkeyrslu inn á helstu hálendisleiðir væru sérstök, stór og vönduð upplýsingaskilti með upphrópunarmerkjum af stærstu gerð, þar sem svona upplýsingum yrði bætt við almennar upplýsingar leiðirnar og árnar.  


mbl.is Sat föst í ánni með tvö börn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við Þórólfsá sem er við upphaf Emstruleiðar er ágætt upplýsingaskilti sem varar við því sem framundan er. Þarna er því ekki merkingaleysi um að kenna hvernig fór.

Þekki nokkra prakkara hér úr bæ sem fóru inn að Gilsá þegar Rallið var forðum, fundu soldinn pitt og fóru svo nokkrar ferðir yfir til að gera "vaðið" greinilegt. Skemmtu þeir sér svo konunglega við að horfa á menn fara yfir pittinn með misjöfnum árangri.

Smári Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 24.6.2012 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband