Fyrirsjáanlegt.

Eftir að hafa kynnt mér stærð, rekstur og áætlanir þriggja tónlistarhúsa í nágrannalöndunum, í Kaupmannahöfn, Osló og Þrándheimi, var mér ljóst fyrir mörgum árum, að það þyrfti kraftaverk til þess að láta rekstur Hörpu standa undir sér eins og lofað var. 

Forsendan fyrir því var að húsið yrði fullbókað í tónleikahaldi og ráðstefnum mestallt árið. Þegar ákveðið var að ráðast í gerð allt of stórs húss virðist sem þeir, sem því réðu, hefðu ekki tekið með í reikninginn stóraukna samkeppni frá nýjum, stórum og jafnfullkomnum eða jafnvel betri húsum í Osló og Kaupmannahöfn.

Að vísu hefur Ísland ákveðið aðdráttarafl fyrir þá, sem skoða það að nýta sér Hörpu, en á móti kemur, að mun styttra er fyrir erlendan markhóp að fara til Kaupmannahafnar eða Oslóar og að Norðmenn og Danir eru fimmtán sinnum stærri þjóðir en Íslendingar.

Ég hef áður bent á það  og byrjaði raunar á því fyrir mörgum árum, að við hefðum frekar átt að taka okkur Ólafshöllina í Þrándheimi til fyrirmyndar heldur en risahallirnar í Höfn og Osló.

Ólafshöllin í Þrándheimi hefur allt það sem Harpa hefur upp á að bjóða og býður þar að auki upp á aðstöðu til óperuflutnings, sambyggt hótel og verslun í margfalt ódýrara húsi með miklu minni rekstrarkostnað.

Harpa er stórfenglegt hús og lyftistöng fyrir íslenskst tónlistarlíf, - ekki vantar það. Tónlistarhús hefði átt að vera risið hér löngu fyrr.

En ef menn endilega vildu reisa þessa miklu höll hefðu þeir ekki átt að neita því sem var fyrirsjáanlegt; að þjóðin þyrfti að borga með rekstri hennar í stað þess að sætta sig við hæfilegri stærð húss, sem stæði undir sér.

Eins og er, er húsið nýbyggt og því er ekki komið að því sem líka er fyrirsjáanlegt; að standa að rándýru viðhaldi á því. Enginn minnist á þann hluta málsins, heldur er, eins og alsiða er hér á landi, því dæmi varpað yfir á komandi kynslóðir.

Enginn talar heldur um það, að það kæmi sér vel fyrir íslenska menningu, ef þeim peningum, sem veita þarf til hússins, hallareksturs þess og fyrirsjáanlegt viðhalds, væri veitt beint í menningarsköpunina og menningarstarfseminaa sjálfa.  

 


mbl.is Hrakspár vegna Hörpu að rætast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið svakalega er þetta rétt hjá þér Ómar.

En þetta er öðru líkt er varðar fjárfestinga-rugli hérlendis, og gleymum ekki óbrúkhæfu sand-höfninni Landeyjar, eða hvað það nú var. Jha; hvar endar þetta ??

Kristinn J (IP-tala skráð) 27.6.2012 kl. 16:40

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Harpa er í eigu Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins.

Og hver haldið þið nú að eigi að fá fasteignagjöldin af Hörpu?

Eða þá útsvar og tekjuskatt þeirra sem starfa við húsið, bæði fastra starfsmanna og annarra?

Svo og virðisaukaskatt vegna starfsemi í húsinu, veitinga, ráðstefnu- og tónleikahalds?

Rekstur Hörpu ber sig að sjálfsögðu.

Þorsteinn Briem, 27.6.2012 kl. 17:13

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn árið 2002 og Tómas Ingi Olrich var menntamálaráðherra 11. apríl 2002:

"11. apríl 2002 náðist sá stóri áfangi að samningur um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar var undirritaður af fulltrúum ríkis og borgar.

Stefnt var að einkaframkvæmdarútboði í árslok og að framkvæmdir gætu hafist árið 2004.

Áætlaður heildarkostnaður var sagður tæpir 6 milljarðar króna. Ríkið greiddi 54% og borgin 46%."

Starfsfólk Hörpu greiðir að sjálfsögðu útsvar og tekjuskatt og greiddur er mikill virðisaukaskattur vegna starfseminnar.

Sama gildir að sjálfsögðu um hótel, sem reist verður á næsta ári við hlið Hörpu, svo og önnur hótel og ferðaþjónustu hérlendis.

Og fjölmargir þeirra sem unnu við að reisa Hörpu hefðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur, ef ekki hefði verið lokið við bygginguna, en hún var að sjálfsögðu þáttur í allri ofþenslunni hér.

22.3.2011:


"Starfsmenn á verkstað [við Hörpu] eru nú 490 til 510, breytilegt frá degi til dags. Þar af eru erlendir starfsmenn 75."

Þorsteinn Briem, 27.6.2012 kl. 17:18

4 identicon

Á meðan Harpa var byggð af einkaaðilum sem ekki kunnu að fara með peninga og var sama up tap (eins og sýndi sig) skipti rekstrargrundvöllur minna máli en í dag því nú lendir tapið á skattgreiðendum. Peningarnir sem fara í rekstur eru ekki búnir til úr engu. Þeir eru teknir úr menntageiranum (m.a. tónlistarskólum), heilbrigðisgeiranum (og ekki er nú gott ástandið þar), gamla fólkinu og svo auðvitað skattgreiðendum öllum. Þetta var galið frá upphafi. Að sjálfsögðu átti að rífa húsið og byggja t.d. 5-6.000 fermetra hús í staðinn fyrir þetta rugl, hús sem hefði klárlega borgað sig og verið þjóð til sóma og listafólki frábær framtíðarvettvangur. Að ekki skuli hafa verið búið að reikna út fasteignagjöld fyrirfram, að þau skuli koma á óvart, sýnir hversu "fagleg" öll vinnubrögð í kringum þessa skýjaborg eru. Harpa mun sliga íslenska skattgreiðendur í 40 ár, aöl kostar það 2-3 milljarða árlega að tryggja reksturinn. Börnin mín og barnabörn koma til með að súpa seyðið af þessari heimsku.

Ragnar (IP-tala skráð) 27.6.2012 kl. 22:08

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég kom í Hörpuna í fyrsta sinn í síðustu viku þegar Ian Anderson flutti "Thick as a Brick" með hljómsveit sinni. Fékk meira að segja að taka þátt í smá sprelli með karlinum á sviðinu bæði kvöldin. Það var mikil upplifun að standa á stóra sviðinu með átrúnaðargoðinu fyrir fullum sal af fólki og láta hlæja að sér.

Þó salurinn sé gríðarlega flottur, kom mér þó meira á óvart hve umgjörð hússins er stór og íburðarmikil. Þar liggja einhverjir miljarðar. Það er ekki laust við að það sé dálítill 2007 bragur á þessu.

Annað vakti athygli mína en olli jafnframt vonbrigðum var hljómburður salarins, sérstaklega á fyrri tónleikunum. Það er afleitt ef starfsmenn hússins kunna ekki að stilla salinn af fyrir mismunandi gerðir tónlistar. Flytjendur klassískrar tónlistar hafa hrósað hljómburðinum en öðru máli virðist gegna með rokkið.

Ég ræddi við hljómsveitarmeðlimina eftir fyrri tónleika og þeir töluðu um að alltof mikið bergmál væri í salnum en mér skilst að það sé tækniatriði sem hægt sé að laga og stilla, eftir því hverrar gerðar tónlistin er hverju sinni. Tæknimennirnir í húsinu virðast ekki kunna sitt fag, ennþá a.m.k. Vonandi stendur það til bóta.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.6.2012 kl. 22:14

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jafnvel þótt rekstur Hörpu stæði undir sér er ljóst að með meira en helmingi ódýrara fjárfestingu sem þar að auki gæfi meiri notkunarmöguleika (eins og Ólafshöllin gerir) yrði meira fé aflögu til að styrkja beint hreina listsköpun.

Ómar Ragnarsson, 27.6.2012 kl. 23:19

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hagfræðistofnun telur að tekjur tilkomnar vegna Hörpu séu á bilinu 1,0 til 1,4 milljarðar króna á ári og geti orðið allt að 3 milljarðar króna á ári."

Fasteignagjöld
renna til sveitarfélaga sem ákveða álagningu þeirra og annast innheimtu og Harpa er að stórum hluta í eigu Reykjavíkurborgar.

"Eignarhaldsfélagið Portus og dótturfélög eru í eigu Austurhafnar-TR, sem er í eigu íslenska ríkisins og Reykjavikurborgar.

Íslenska ríkið á 54% í fyrirtækinu en Reykjavíkurborg 46%."

Þar að auki fá ríkið og Reykjavíkurborg miklar tekjur frá stóru lúxushóteli, sem reist verður við hlið Hörpu á næsta ári, fasteignagjöld, virðisaukaskatt, útsvar og tekjuskatt.

Þorsteinn Briem, 28.6.2012 kl. 00:15

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnarsson,

Mér þykir þú vera bjartsýnn að telja að mismunurinn hefði farið í að styrkja beint hreina listsköpun.

Bygging Hörpu var það langt komin haustið 2008 að ekki var aftur snúið með það hvernig hún liti út fullsmíðuð.

Og enginn akkur í því fyrir einn eða neinn að hætta við smíðina.

Þorsteinn Briem, 28.6.2012 kl. 00:23

9 identicon

Hljómburður er langt í frá góður í svölunum, jafnvel vondur. Hluti af ástæðunni tel ég vera sparnaður við frágang af loftinu. Það er ekki líklegt að það eigi að vera berstrípað, nánast útilokað. Hugsanlega hefur átt að vera meiri ljósabúnaður þar til að brjóta upp hljóðið, en það eitt er varla nóg.

Fremst við gólfið þyrfti að vera halli til að laga hljómburð í fremstu sætum, eða að finna leið til að brjóta hljóðið betur niður á við, ef það er þá hægt.

Ragnar (IP-tala skráð) 28.6.2012 kl. 02:09

10 identicon

Vökull  Ómar Ragnarsson hittir glöggt naglann á höfuðið eins og svo oft áður.Þar á meðal um viðhaldið.  Frá  vordögum 2010 hefur undirritaður (með kollegum) fylgst vel með Hörpu“smíði“ og myndað (nú  eru til um 300 myndir um efnið). Þar kennir margra „grasa“ t.d. um ryðsöguna (Dormandi "ryðdrauginn") og  málmsmíðar –og suðu (Sjá tímarit Málmtæknimanna VM-Okt 2011: Hrákasmíði Hörpu-Útekt og myndir).  Eins skal bent á  „HARPA EINS ÁRS“- Umfjöllun á Eyjan.is :  Arkitektúr, skipulag og staðarprýði (Blog- vefur Hilmars Þórs Björnssonar –kollega).  PS:  Nú má líka sjá sprungur  í svartflekkóttu  Hörpusteypunni. 

Örnólfur Hall (IP-tala skráð) 28.6.2012 kl. 11:23

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég held því ekki fram að hætta hefði átt við smíði Hörpunnar eftir að hún var komin of langt, heldur því að það hefði átt í upphafi að reisa minna og miklu ódýrara hús og hagkvæmara hús.

Ómar Ragnarsson, 28.6.2012 kl. 17:54

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Unnt væri með einfaldri lagabreytingu að lagfæra þetta:

Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga um fasteignagjöld eru undanþegnar fasteignaskatti eftirtaldar fasteignir ásamt lóðarréttindum:
a. kirkjur og bænahús íslensku þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga sem hlotið hafa skráningu [þess ráðuneytis er fer með málefni þjóðkirkjunnar];
b. safnahús, að því leyti sem þau eru ekki rekin í ágóðaskyni;
c. hús erlendra ríkja, að svo miklu leyti sem þau eru notuð af sendimönnum þeirra í milliríkjaerindum, og hús alþjóðastofnana, eftir því sem kveðið er á um í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og öðlast hafa stjórnskipulegt gildi hér á landi

Framangreind tilvísun er í 5. gr.laga nr.4 frá 1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Við þessa grein mætti bæta við: Tónlistahús.

Spurning er hvort reikna eigi fasteignagjöld að þeim hluta Hörpu sem nýttur er undir veitingarekstur og verslunar. Það væri eðlilegt að sá hluti væri skattlagður til að gæta samræmis við samkeppnisaðila.

Þessu er hér með komið á framfæri.

Bestu kveðjur.

GJ

Guðjón Sigþór Jensson, 29.6.2012 kl. 23:03

13 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Örlítil leiðrétting: Í stað: Spurning er hvort reikna eigi fasteignagjöld að þeim hluta Hörpu ...

á eðlilega að standa: Spurning er hvort reikna eigi fasteignagjöld af þeim hluta Hörpu ....

Oft er ruglað saman að og af, sjálfur hefi eg kappkostað að forðast að ruglast á þessu en í þetta skiptið tókst það. Leiðréttist hér með.

Kv. GJ

Guðjón Sigþór Jensson, 29.6.2012 kl. 23:06

14 identicon

ENN AF HÖRPUSNILLD :    Illskárri kosturinn með Hörpu varð ofan á þó enginn vissi (eða viti enn) hvaða ósköp mundu bíða  saklausra eftirkomenda í meðhjálp og viðhaldi. --- Byrjunin með viðhaldið lofaði ekki góðu með tvíreista suðurvegginn, ryðslegna.  Fjórir framkvæmda- og eftirlitsaðilar með veggnum,  hér og erlendis,  klikkuðu og reisa varð nýjan. --- NB:  Samt var haldið áfram að byggja hann frá vordögum fram í ágúst 2010.---  Fróðlegt væri að vita hver kostnaður okkar skattgreiðenda er nú vegna þeirra veggóskapa  (Sjá loðin svör á Alþingi í fyrra (Fyrirspurn M.A.))---     Af  loforðum  um Hörpu“rekstur“:   Snemma árs 2010 sagði Hörpuforkólfur (sá fremsti í stafni) á RÚV að Hrapan yrði sjálfbær 2014. Annar (forkólfur ) lofaði um betur á RÚV 2011 að hún yrði sjálfbær 2013. - Trúir nokkur  Hörpuskuldari með „ fulde fem“ að það verði. --- Ekkert varð úr stórkarlalegum risaráðstefnuáformum sem áttu að bæta fjárhaginn.  H.Í. hýsti þá fjölmennustu hingað til. Sem betur fer fyrir H.Í. sem varð fyrir 260 milljóna niðurskurði menntamálaráðherra  sem lét 130 milljóna glerþaksbruðlið óátalið (Sjá frétt J.B. á RÚV 2011). Síðla árs 2011 báðu forkólfar um 750 milljóna meðlag og fengu. PS:  Nú er búið að skifta út vesturkanti  Hörpuþaks  sem liggur líka að enda glerþaksins . Hvers vegna skyldi það nú vera  ??

Örnólfur Hall arkitekt (IP-tala skráð) 1.7.2012 kl. 21:27

15 identicon

Ég var að lóðsa 33 Þjóðverja um svæðið í fyrra. Það sem þeom fannst flottast að sjá var seglskip nokkuð sem lá þá í höfn, og svo einhver milljarðasnekkja sem lónaði aðeins utar.

Þeir spurðu ítrekað út í það HVAÐ "ÞETTA" væri og bentu á hörpuna. 

Sorry....svona er þetta bara....

Jón Logi (IP-tala skráð) 3.7.2012 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband