Ógleymanlegt augnablik.

Mér þykir vænt um Náttfarabikarinn vegna þeirra minninga sem ég á um þennan stórkostlega gæðing, sem "átti" landsmótið á Vindheimamelum 1972.

Ég átti þeirrar ánægju að fagna að fara fyrir Sjónvarpið á mótið til þess að taka þar myndir. Það voru hæg heimatökin, því að ég gat farið á FRÚnni og lent á túni rétt norðaustan við mótsstaðinn.

Þurfti að vísu á öllum brögðum að halda til að komast þar á loft að nýju í "beygju-flugtaki" en það var bara til að lita ferðina ennþá meira.

Vegna myndatökunnar fékk ég leyfi frá mótstjórninni til þess að standa á afar heppilegum stað við brautina að vild.

Þarna liðu gæðingarnir framhjá í tign sinni og fegurð og skein við sólu Skagafjörður, skrauti búinn, fagurgjörður.

En þegar þessi afburða fagurskapaða skepna, Náttfari, fór framhjá í hröðum og ægifögrum hreyfingum mýktar, krafts og snerpu, svo nálægt að lyktin af honum fyllti vitin og maður heyrði blásturinn í nösunum, hófaskellina og þytinn í faxi og tagli, var það óviðjafnanlegt augnablik sem aldrei gleymist.

Allir hinir gæðingarnir féllu í skuggann. Þarna skynjaði ég fyrst til fulls þá fegurð, yndi og unað, sem hestamennskan getur gefið.

Einhvern tíma á þessum árum var innbrjótsþjófur á ferli í Reykjavík að næturlagi, sem aldrei náðist.

Fékk hann heitið Náttfari í fjölmiðlum.

Þegar ég, löngu síðar, gerði upp þessi ár í laginu "Í þá gömlu góðu daga" var sérstaklega gaman að því að leika sér með tvíræðni orðanna í þessum hendingum:

"Í þá gömlu góðu daga þegar Ómar hafði hár

og Hannibal var ráðherra og Náttfari var klár..."


mbl.is Nói hlaut Náttfarabikarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband