ÆSKAN VEKUR VONIR

Fór í morgun að beiðni nemendafélagsins í MH til að sýna á svonefndum Lagningadögum myndir af Brennisteinsfjöllum og útskýra möguleika Íslands með tvo frægustu og bestu eldfjallaþjóðgarða heims, - þann stærsta suður af Húsavík og þann næst stærsta í hlaðvarpa höfuðborgarsvæðisins.

Fyrir fullum sal var dásamlegt að rökræða við þetta efnilega unga fólk um framtíð landsins og finna fyrir auknum áhuga þess á umhverfismálum og nýjum viðhorfum um stefnubreytingu, nýsköpun og betra þjóðfélag.

Unga fólkið skilur vel þá hugsun sem felst í því að stöðva stóriðju- og virkjanaframkvæmdirnar og nota næstu ár til að byggja upp breytt og betra þjóðfélag sem byggir á nýtingu einstæðrar náttúru landsins. Þetta æskufólk ætlar sjálft að leggja á sig minni tekjur næstu árin meðan það er að leggja grunn að betri framtíð sem tryggir þeim að lokum betri kjörum og nýtingu á hæfileikum þess.

 Auðvelt var að útskýra fyrir æskufólkinu samsvörunina í námi þeirra við breytingu á stefnunni í umhverfismálunum en erfiðast varð útskýra fyrir þá tregðu sem lýsir sér í því hvernig hin gamla stefna liðinnar aldar er trúaratriði fyrir ráðamönnum þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað meinar þú með "nýtingu einstæðrar náttúru landsins"  Helst vildi ég að þú létir hana í friði. Og hættu alveg að tala um milljónir ferðamanna og einstæða náttúra þolir það engan veginn.  Ekki finnst mér Gullfoss vera jafn ósnortinn og hann var.  Þessar framkvæmdir sem þar eru  til að þjónusta ferðamenn hafa tekið mestan sjarmann af því vatnsfalli, Það er mín skoðun. Ég held að við ættum alls ekki að stefna að fleiri en 500 þús ferðamönnum. Annað myndi kalla á gríðalegt óafturkræft álag.

Sigurður (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 14:56

2 Smámynd: Snorri Bergz

Ótengd spurning: hvernig var vísan sem þú samdir í Á líðandi stundu, þegar Karvel og Helgi Seljan komu: Botninn var: "Ekki hægt að kaupann, ekki að kveljann/ hvað á að gera við Helga, seljann?"

Snorri Bergz, 16.2.2007 kl. 15:06

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvernig finndist þér Ómar ef þeir sem eru á öndverðri skoðun og þú um nýtingu/vernd náttúrunnar færu í grunnskóla landsins til að "ala" upp kjósendur framtíðarinnar?. Ertu alveg að tapa þér maður?

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.2.2007 kl. 15:18

4 Smámynd: Berglind Nanna Ólínudóttir

Ja hérna hér, það virðist sem helstu kverúlantar landsins hafi fundið sér útrás fyrir gremju og pirring hér á annars ágætri síðu! Gaman að heyra Ómar, að MH-ingar hafi tekið svona vel í málflutning þinn. Enda er landið þeirra, ekki satt? Og sagði ekki Villi heitinn Vill, að við ættum kannski frekar að hlusta aðeins betur á hugrenningar þeirra, sem erfa skulu land?

Óskaplega þykir mér leitt, Sigurður, að þér þyki minna koma til Gullfoss, en áður. Langar nú samt að benda þér á það að sú mæta kona og frænka mín Sigríður Tómasdóttir í Brattholti, var farin að fara með ferðamenn að Gullfossi, LÖNGU fyrir þína daga, og þá, eins og í dag, var fossinn sá eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna. Þá var þjónustan við þessa ferðalanga heima á bæ í Brattholti, kannski þú viljir að heimilisfólkið þar færi þjónustuna aftur heim í eldhús? Ef mig misminnir ekki, þá var nú Brattholt torfbær þá, kannski við ættum að fara fram á það við heimilisfólkið í Brattholti að rífa núverandi húsakost, og byggja torfbæ í staðinn?

Mér er spurn! 

Berglind Nanna Ólínudóttir, 16.2.2007 kl. 15:54

5 Smámynd: Dofri Hermannsson

Sæll Ómar. Það var gott hjá þér að skreppa í MH að ræða við krakkana þar (og MH er vel að merkja ekki grunnskóli heldur menntaskóli).

Eitt er hins vegar að veljast fyrir fyrir mér og það er hvort eldfjallaþjóðgarðurinn sunnan Húsavíkur (sem mér finnst fín hugmynd) er sama svæði og þú lagðir til í sumar að yrði virkjað til að forða landinu undir Hálslóni. Ertu þá að hugsa um að virkjanir yrðu hluti af þjóðgarðinum eða ertu fallinn frá því að virkja þessi svæði sem þú mæltir með í sumar?

Kv. Dofri.

Dofri Hermannsson, 16.2.2007 kl. 16:17

6 identicon

Virkilega ánægjulegt að lesa um þetta spjall þitt við æsku landsins.

Þeirra er framtíðin. Ég minnist þess frá barnaskólaárunum hvaða áhrif  afburða kennarar höfðu til lífstíðar á okkur krakkana ,okkur til heilla.

Þeir sem voru í Laugarnesskólar þegar kennarar á borð við Skeggja Ásbjarnarson og Ingólf Guðbrandsson voru leiðandi vita hvað verið er að fjalla um.

Er það ekki sem okkar æsku vatnar sárlega nú...vakningu um hver við erum og hvaða gildi gefa okkur mesta lífshamingju... Áfram með þetta 'Omar 

Reykvíkingur af gamla skólanum (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 16:50

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já 'Omar þetta er gott framtak hjá þer að fræða ungliðana,Eg var nú svo náttursinnaður 1946 þagar Hekla gaus að það var gefið fri i Austurbæjarskola eg var eina barnið sem for til Mömum og bað um aur til að fara með Rutubil austur að sjá hraunið vella fram um nóttina/Bragð erað þá barnið finnnur!!!!/Kveðjur Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 16.2.2007 kl. 17:31

8 Smámynd: Stefán Stefánsson

Fræðsla er góð, þá er gott að öll sjónarmið komi fram, bæði með og á móti. 

En Ómar, nú vilt þú gera eldfjallaþjóðgarð sunnan Húsavíkur. Í haust vildirðu virkja og flytja orkuna austur og nota hana í staðinn fyrir orkuna ftá Kárahnjúkavirkjun.
Ég trúði því nú reyndar aldrei hjá þér, enda kemur það á daginn að þú varst ekki að meina það, fyrir utan það að þú varst með óraunhæfar hugmyndir.

En það er engin gremja hjá mér á þessari síðu og ég er fylgjandi því að fólk fái upplýsingar og þegar andstæðir hópar mætast er miokilvægt að öll sjónarmið heyrist. 

Stefán Stefánsson, 16.2.2007 kl. 19:55

9 identicon

Ja ég veit að krakkarnir sem vilja koma austur eftir nám eru himinlifandi yfir því að komast í fullt af störfum sem þau geta notað menntun sína í hér fyrir austan sem ekki var hægt áður.

Það er nefnilega gott að komast úr menguninni í RVK og í sæluna í sveitinni sem nóta bene öfga umhverfissinnar virðast ekki getað þrifist hér því lítið gætu þeir unnið við hér fyrir austan ef þeir vilja ekkert sem tengist álverinu okkar og auk þess eru ekki hér svo mörg kaffihús sem þeir geta hangið á:)

Óskar Þór Hallgrímsson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 20:21

10 identicon

Þegar Kárahjnúkavirkjun var í umhverfismati árið 2001 og 2002 var ég fylgjandi virkjuninni og fannst það vera gott fyrir efnhag landsins að fjárfesta í stóriðju. Í dag hef ég tekið þveröfuga afstöðu þar sem ég tel að við ættum miklu frekar að fjárfesta í vistvænni orku til útflutnings eins vetni í stað þess að vera að selja ódýrt rafmagn til mengandi málmbræðslufyrirtækja.

Auk þess virðist Ísland líklegast öðlast sess sem griðarstaður eftirsóknanverður því við erum langt frá stríðum, hörmungum og hryðjuverkaógnum sem því miður eiga líklegast eftir að aukast eftir því sem ástandið versnar fyrir botni miðjarðarhafs.

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 20:59

11 identicon

Já það er eflaust mjög spennandi að fara úr menguninni í Rvk yfir í enn meiri mengun sem brátt verður í Reyðarfirði en álverið þar mun losa mengun á við allan bílaflota landsmanna.  Þessi virkjun hefur hingað til ekki snúið þessari þróun við, þ.e. menntað fólk hefur ekki snúið aftur austur.

Gunnar, heldurðu að Ómar hafi labbað óboðinn inn í "grunnskólann" MH? Menntastofnanir óska vanalega eftir fyrirlesurum, kannski ekki mönnum eins og þér sem halda að Menntaskólinn við Hamrahlíð sé grunnskóli. Í dag eru t.d. starfsmenn bankanna og tryggingafélaga farnir að heimsækja framhaldsskóla í svokallaða Lífsleiknitíma. Þeir gera það þó ekki óspurðir.

Þórdís (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 21:05

12 identicon

Þórdís mín ég vinn við að taka á móti búslóðum frá fólki sem er að koma úr námi erlendis og er í hringamiðjunni á þessu öllu saman svo þú ættir að koma í heimsókn úr borg óttans til okkar hér út á landi og kynna þér málið.

Óskar Þór (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 21:40

13 identicon

Mér finnst alveg ástæða til þess minnast þess og klára erindið hans Vilhjálms heitins sem Berglind Nanna var byrjuð á.. „Því kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur komið fram með svörin þar sem sigldum við í strand.“

Er þá ekki nauðsynlegt að skilja eitthvað eftir af landinu handa þeim? 

Dagný Reykjalín (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 21:41

14 identicon

Dagný ég get fullvissað þig um það að ég get stoltur látið mín börn eftir þessa uppbyggingu sem hefur orðið hér.

Fjölnota íþróttahús

Sundlaug

Nýir skólar

Nýjir leikskólar

Fullt af atvinnumöguleikum

Fullt af nýrri þjónustu

Mun hærra fasteignaverð

Ekkert var af þessu hér áður svo svei ykkur sem eruð endalaust að rífa niður möguleikanna okkar á að fá að búa við aðstæður sem þið borgarrottur þykja eðlilegar.

Óskar Þór Hallgrímsson (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 21:50

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Að sjálfsögðu veit ég að MH er menntaskóli, ég var aðeins að benda á að Ómar sem er að gæla við pólitískt framboð sé að fara í skólana til að messa yfir ungmennum með ómótaðar skoðanir. Margur unglingurinn er áhrifagjarn á þessum árum. Væntanlega hefur engin verið þarna til að benda á rangfærslurnar og ýkjurnar eins og ég hef orðið svo oft vitni að í málflutningi ofurverndunarsinna.. Hvar eru mörkin í pólitískri áróðursherferð. Geta stjórnmálafflokkarnir farið í  grunnskólana, til þess að afla fylgis meðal þjóðarinnar um tiltekin mál eða eiga þeir að láta menntaskólana nægja. Gott og vel ef honum hefur verið boðið að koma en þá væntanlega verður andmælendum boðið næst. Eðlilegast hefði verið að einhver "virkjunarsinni" eins vitlaust og það orð nú er hefði verið á staðnum til að gæta jafnræðis.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.2.2007 kl. 22:20

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svör við nokkrum atriðum:

1. Nemendurnir í MH báðu mig um að koma í skólann og kynna sjónarmið mín varðandi náttúru landsins. Lagningadagarnir eru á vegum nemendanna, ekki skólans sjálfs. Nemendur hljóta að hafa frelsi til þess að velja sér fyrirlesara og þau efni sem þau hafa áhuga á. Fyrirlesturinn var ekki hluti af námi þeirra heldur frjálst framtak og frumkvæði þeirra. Ef þau bjóða næst stjórnarformanni Landsvirkjunar þá sé ég ekkert athugavert við það.

2. Í bæklingnum um þjóðarsáttina tilgreindi ég að færa þyrfti til bókar að mögulegt væri að sætta sjónarmið þeirra sem vildu álver og þeirra sem vildu fá að halda Hjalladal. Ég sagði að sátt fælist ekki yfirleitt í því að annar aðilinn valtaði yfir hinn. Skilyrði fyrir sáttinni væri að beðið yrði eftir útkomu úr djúpborunum en þá þyrfti aðeins tólf slíkar holur til að anna orkuþörf Kárahnjúkavirkjunar. Ég gældi líka við þá von að á þessum 6plús árum sem beðið væri eftir útkomu úr borununum yrði útkoman sú að hægt yrði að breyta álverinu eða selja það til annarra nota en álframleiðslu. En nú eru álvinir búnir að fá sitt álver og virkjun og þá hljóta umhverfisvinir að biðja um að fá að hafa sínar náttúruperlur í hugsanlegum eldfjallaþjóðgarði ósnortnar. Ef það er ekki gert heldur annar aðili þess máls áfram að valta yfir hinn eins og verið hefur, - rétt eins og refurinn sem skipti ostbitanum aftur og aftur til helminga og hirti sinn part í hvert skipti þangað til ekkert var eftir.

3. Tvær milljónir manna koma í Yellowstone-þjóðgarðinn á hverju ári. Þar hefur reynst vel framkvæmanlegt að stýra þessari miklu umferð og koma í veg fyrir spjöll. Það er alveg á valdi Íslendinga (Þingeyinga) sjálfra að stýra því hvort það koma 25 þúsund, 250 þúsund eða 2,5 milljónir í þjóðgarða hér. Þetta er spurningin um að stýra umferðinni með magni auglýsinga og kynningar á þjóðgarðinum.  

Ómar Ragnarsson, 16.2.2007 kl. 22:57

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þetta andsvar Ómar. Það er ekki óraunhæft sjónarmið að sjá hvað kemur út úr djúpborunarverkefnum og bíða með frekari stórvirkjanir þangað til. Ef sérfræðingar segja að þetta sé handan við hornið, gott mál. En að breyta álverinu í Reyðarfirði eða selja til annara nota er EKKI raunhæft. Óþarfi að eyða fleiri orðum í það að mínu mati.

Að bera saman Yellowstone-þjóðgarðinn við einhver svæði á Íslandi er EKKI raunhæft. Viljum við fá 2 miljónir ferðamenn á einhver viðkvæm svæði hérna. Ég held að í risjóttri veðráttu hér með sínum viðkvæma gróðri, lélegu samgöngukerfi þar sem ekki má einu sinni beina umferð af þjóðvegi 1 samanber umræðuna um Kjalveg, þá hyrfi sjarminn fljótt af því sem þið haldið hæst á lofti, þ.e. hreinleikanum og víðerninu. Markaðsetjum frekar ferðamennskuna út á næturlífið í Reykjavík og Bláa lónið. Gullfoss og Geysir mega líka fylgja með. Helst ekki Þingvellir. Seljum frekar póstkort af því sem við viljum halda fyrir okkur. Mætti jafnvel nota myndirnar á umbúðir af fiskblokkum og dilkakjöti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2007 kl. 00:00

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir athugasemdina, Gunnar Theodór.

Fjölförnustu svæðin í Yellowstone eru alveg sambærileg við viðkvæmustu hverasvæðin, svo sem við Námaskarð í Mývatnssveit. Bendi þér samt á að ég ræddi um það hér fyrir ofan að við gætum mjög vel stjórnað því hvort það kæmu 2,5 þúsund, 25 þúsund eða 250 þúsund ferðamenn á svona svæði, allt eftir því hvað við auglýstum þetta mikið.

Ég er sammála því að hafa umferðina í lágmarki en alltaf þegar maður leyfir sér að halda því fram er maður skammaður fyrir að vera öfgamaður um náttúruvernd.

Það er dapurlegt að þurfa að vera í slíkri nauðvörn vegna þess að erlendis er það viðurkennt að sé náttúrufyrirbærið nógu merkilegt eigi ekki að spyrja hvort það séu einn eða eitt hundrað þúsund á ári sem sjá það ári, - rétt sé að varðveita það án tillits til þess hvort það sé aðgengilegt, - nóg að vita af því að það sé til.

Í umræðunni hér á landi neyðist maður til þess að beita efnahagslegum rökum af því að menn virðast ekki skilja neitt annað. Um það neyðist maður til að nota bandaríska orðtakið: "Let´s beat them at their own game."

Ég nefni sem dæmi um ljósár á milli náttúruverndarsjónarmiða vestra og hér heima nokkur hundruð kílómetra langan kafla Coloradoárinnar í Bandaríkjunum. Niður hann sigla 11 þúsund ferðamenn á ári hverju og verða að sæta ítölu, - það er 14 ára biðlisti. Ekki kemur til greina að snerta þennan hluta árinnar þótt hann sé utan þjóðgarðs.

Ekki kemur til greina að virkja 65 kílómetra af 365 kílómetra kafla árinnar. 11 þúsund ferðamenn á ári í Bandaríkjunum samsvarar hlutfallslega því að niður Jökulsárnar í Skagafirði sigldu 11 manns á ári. Ef maður tæki upp á að verja rétt þessara ellefu "sérvitringa" og andmælti virkjun yrði sagt að maður væri öfgamaður.

Í Bandaríkjunum þykir friðunin sjálfsögð. Raunar sigla víst 3-4000 manns niður Jökulsárnar í Skagafirði og samt ætla menn að virkja þær. Ólíkt hugsa og hafast að, þessar tvær þjóðir, Bandaríkjamenn og Íslendingar.

Ómar Ragnarsson, 17.2.2007 kl. 00:28

19 Smámynd: Adda bloggar

vildi bara segja þér að ég var að setja inn nýjar myndir góður pistill hjá þér.kv

Adda bloggar, 17.2.2007 kl. 00:31

20 identicon

þér hefur tekist ætlunaverk þitt, að kljúfa þjóðina, finnst þú vera mesti óvinur þjóðarinnar númer 1, villt að allir vinni við að þjóna erlendum gestum á lágmarkslaunum að sýna þeim gras og hraunmola, kannski ættir þú að  kynna þér aðbúnað okkar álversstarfsmanna og segja þitt álit eftir það, held að almenningur þurfi á góðri vinnu að halda, en þú ferð bara á þín eftirlaun sem við vinnandi fólk þarf að borga, en þú vilt lýsa íslandi sem þjóðgarð??? þá væri gott að lifa hér eða þannig

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 01:00

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég verð bara að bæta við að það gætir svo mikils misræmis í röksemdafærslum ykkar sem eruð á móti hverskyns raski. Það er eins og maður sé að slást við vindmillur. Fullyrt er að jafnmikil ef ekki betri afkoma sé fyrir þjóðina að halda náttúrunni óskertri og hala inn tekjur af ferðamönnum. Borin voru saman Kárahnjúkasvæðið og Jökulsá á Dal niður Dimmugljúfur og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Nýja-Sjálandi. Þar var óþekkt svæði með miklum gljúfrum og náttúrufegurð sem komið var í veg fyrir að yrði virkjað. Röksemdirnar voru m.a. að svæðið væri arðbærara sem ferðamannastaður, fyrir rafting o.fl. Í dag eru menn þar (að sögn) á einu máli um að svo sé reyndin, þangað streyma ferðamenn og allir eru hamingjusamir. En er íslenskt hálendi, eða bara Ísland yfir höfuð sambærilegt við önnur lönd þegar við skoðum veðráttuna. Á Nýja-Sjálandi er gert út á þetta 365 daga á ári. Dagarnir yfir árið á Kárahnjúkasvæðinu teljum við í örfáum tugum til sambærilegs brúks og hjá andfætlingum okkar. Auk þess er hjá miklu stærri þjóðum ekki síst gert út á innlendan ferðamannaiðnað. Hér horfum við til útlanda vegna fámennisins en ég er hræddur um að orðspor íslenska hálendisins biði fljótt hnekki ef útlendingar sem skipulagt hafa ferðir sínar hingað með löngum fyrirvara,  þurfa ítrekað frá að hverfa vegna óhagstæðra veðurskilyrða. Og þegar minnst er á að íslensk náttúra þoli ekki þennan átroðning þá á bara að skammta fjöldan í heppilegar stærðir. Hvar er þá þessi mikla arðsemi? 

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2007 kl. 13:15

22 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Haukur minn Kristinsson. Ég hef spurt sérfræðing launasamtaka minna um eftirlaun mín og mér skilst að þau muni rétt leka yfir 100 þúsund krónur á mánuði. Ég stóð í þeirri meiningu að ég hefði sjálfur unnið fyrir þeim með því að hluti af launum mínum var lagður til hliðar til ellinnar.

En þetta er víst misskilningur hjá mér að þínu mati. Segðu mér hvort ég eigi þá yfirleitt rétt á nokkrum eftirlaunum ef þú lítur á þau með þeim hætti sem ummæli þín bera vott um.

Ómar Ragnarsson, 17.2.2007 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband