6.7.2012 | 12:21
Spurning um túlkun á orðalagi.
Framkvæmdin á atkvæðagreiðslunni hjá fötluðu fólki fram að þess ber að mínum dómi vitni um einstreingingslega túlkun á ákvæðum kosningalaganna þess efnis að kjörstjóri skuli veita fötluðum aðstoð við atkvæðagreiðsluna.
Þetta hefur verið túlkað svo að ef kjörstjóri geri þetta ekki sjálfur þurfi hann að velja sem fulltrúa sinn einhvern annan úr kjörstjórninni.
Er þetta einn eitt dæmi um miklu einstrengingslegri og þrengri túlkun á kosningalögunum hér á landi en í öðrum löndum.
Hvergi stendur í lagagreininni að þegar kjörstjóri fær annan en sjálfan sig til að veita aðstoð, þurfi það endilega að vera annar úr kjörstjórninni. Eðlilegra er að líta svo á að kjörstjóri hafi um það val hvern hann velur og geti þar af leiðandi valið þann einstakling sem hinn fatlaði treystir og telur hvað sig snertir uppfylla skilyrðið um leynilega kosningu.
Sá réttur hins fatlaða á stoð í stjórnarskránni varðandi það að kosningin sé leynileg og í mannréttindaákvæðum eins og greint er í kæru Öryrkjabandalagsins.
Þessi réttur yrði enn sterkari ef frumvarp stjórnlagaráðs yrði að lögum, því að þar er þess sérstaklega getið að hver manneskja eigi rétt á að lifa við reisn eftir því sem unnt er.
Í núverandi ákvæði um að fatlaður sé í raun skyldaður til að vitna um skoðanir sínar og val á framboði eða frambjóðendum fyrir fulltrúa stjórnvalds, jafnvel þótt höfð séu orð um trúnað, felst óþarfa niðurlæging fyrir hinn fatlaða og myndi verða klárt stjórnarskrárbrot í nýrri stjórnarskrá, auk þess sem það fer í bága við núverandi stjórnarskrá og lög sem segja fyrir um að engan sé hægt að skylda til sambærilegs athæfis, til dæmis fyrir dómi eða rannsóknarlögreglumönnum.
Nú verður fróðlegt að sjá hvaða úrskurð Hæstiréttur fellir í þessu máli.
Í dómi stjórnlagadómstóls Þýskalands um framkvæmd kosninga þar í áraraðir, var skorið úr um að hún hefði í einstökum atriðum verið ólögleg. Í stað þess að ógilda allar kosningar og kosningaúrslit þar í landi gerði stjórnlagadómstóllinn það skilyrði að úr yrði bætt í kosningum í landinu innan ákveðins frests.
Fleiri hliðstæða úrskurði mætti vafalaust í öðrum löndum án þess að kosningar hefðu verið dæmdar ólöglegar og er eina dæmið um að slíkt hafi verið gert, úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings.
Í því áliti, sem var ekki dómur, voru ekki bornar brigður á úrslit kosninganna, heldur einungis framkvæmdaratriði, sem voru reyndar þess eðlis, að í flestum löndum í kringum okkur hefðu þau ekki verið talin ámælisverð, hvað þá að ógilda bæri kosningarnar vegna þeirra.
Nú verður fróðlegt, í ljósi þessa, hvort Hæstiréttur fellir hliðstæðan úrskurð í máli Öryrkjabandalagsins, en ég tel að ekki eigi að ógilda forsetakosningarnar frekar en stjórnlagaþingkosningarnar, vegna þess að í báðum tilfellum höfðu misfellurnar á framkvæmdinni ekki áhrif á úrslit kosninganna og slík ógilding yrði annað einsdæmið í réttarframkvæmd hjá vestrænum ríkjum.
Telja framkvæmdina mannréttindabrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.