Slæm og hættuleg bílatíska.

Upp úr 1990 tóku tveir nýir Renault bílar við hlutverkinu sem Renault 5 og Renault 4 höfðu gegnt í tvo áratugi.

Þetta voru Renault Twingo og Renault Clio, og var Clio nokkuð stærri en Renault 5 hafði verið.

Clio var vel heppnaður bíll að flestu leyti, þægileg stærð og rými, lipur og útsýni gott í borgarþrengslunum.

Nú er fjórða kynslóð Clio komin fram og með hverri kynslóð hefur bíllinn stækkað og þyngst líkt og Twingo og mér sýnist sú líka vera raunin núna.

En annað verra hefur gerst. Í gangi er skaðleg bílatíska sem felst í því að gera gluggana sífellt minni og útsýni verra. Það þykir "in" að hafa vélarhúsin sem allra hæst algerlega að óþörfu og framglugga sem flatasta þannig að útsýnið fram úr bílnum verði sem allra verst.

Enn verr er farið með afturenda nútíma bíla, þannig að á sumum þeirra er búið að eyðileggja útsýnið algerlega með því að hafa gluggana eins og rifur og gluggastólpana breiða.

Þetta er svipað og gerðist í bílatískunni á örfáum árum um miðbik fjórða áratugar síðustu aldar.

Þá snarminnkuðu gluggar bílanna og urðu að litlum gluggaborum. Tuttugu árum síðar kom síðan ný bílatíska þar sem það þótti flottast að hafa gluggana sem allra stærsta.

Framleiðendur auglýstu þetta sérstaklega, svo sem að 93% útsýni væri úr viðkomandi bíl og gluggapóstar skyggðu aðeins á 7% í útsýnishringnum.

Þessi tíska hélst að mestu í 40 ár þar til að gluggarnir fóru að minnka að nýju og gluggakisturnar að hækka, einkum að aftanverðu.

Ég hef lesið um þá niðurstöðu rannsóknar að þessi hættulega bílatíska kosti orðið milljarða króna í tjóni, limlestingum og mannslífum vegna aukinnar slysatíðni af völdum lélegs útsýnis.

Það sem blekkir þegar heildartölurnar eru skoðaðar, er að stórbætt öryggisatriði varðandi varnir fyrir farþega í árekstrum gera miklu meira en að vega upp aukna slysatíðni vegna lélegs útsýnis.

En það er engin afsökun fyrir þessari vitleysu.  

En tíska er harður húsbóndi og gagnstætt því, sem margir halda, er karlmannatískan miklu harðari húsbóndi en kventískan.


mbl.is Fjórða Clio-kynslóðin kynnt til sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svona gluggapóstadæmi var vel þekkt í herflugi fyrir löngu, - t.d. í seinna stríði. Ekki var það þó tíska, heldur oftast málamiðlun í hönnun, og hönnun er oft stjórnað af stöðlum.

Sterkari bíll í ákeyrslum og veltum hefur t.d. betri líkur með sterkari grind utan um "húsið".

Svo kemur tískan líka inn, en hún er oft keyrð upp sem húsbóndi heldur en að hún komi sem eitthvað sem beðið er um.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband