12.7.2012 | 16:53
Veðrið er mikið "erlendis."
Björgvin Halldórsson væri vís til að segja að veðrið á Fróni í sumar sé "voðalega mikið erlendis", þ. e. líkt því sem fólk ímyndar sér um veður við Miðjarðarhafið. Kannski ekki eins heitt en undarlega þurrt og bjart.
Á ferð um Norðausturhálendið í dag og í gær vekur undrun hve mikið kyrrviðri er.
Hér á Sauðárflugvelli þar sem þessi pistill er skrifaður, eru þetta 12 til 14 stig og vindur afar hægur, - heiðríkja mestallan daginn.
Ekki hefur sést til neins leirfoks héðan sem er mjög óvenjulegt í svona hlýju og þurru veðri. Þá má búast við leirstormum af svonefndum Jökulsáraurum sem eru milli Dyngjujökuls og Öskju.
Eini staðurinn þar sem sjá hefur mátt sandstorm, bæði í gærmorgun og í dag, er á innri hluta hins þurra lónbotni Hálslóns, sem ekki verður vatni hulinn fyrr en í ágúst.
Jón Grétar Sigurðsson flugmaður tók mynd af miklum leirstormi úr þurrum botni Hágöngulóns í fyrradag og þar er komin önnur viðbótin af mannavöldum við sand- og leirstorma á hálendinu.
Veit ekki nema við hjónin höldum nú héðan um Gæsavatnaleið til Reykjavíkur og vegna tímaskorts læt ég fljóta hér með í tengslum við frétt á mbl.is vegna atviks við Skeiðavegamót s.l. laugardag, að það var fyrst og fremst vélhjólamaðurinn sem var hætt kominn þar þegar hann flaug í loftköstum eftir Suðurlandsvegi þar sem ég beið við gatnamótin og horfði skelfdur á hann.
Mikil Guðs mildi þar og þakkarefni að ekki fór verr fyrir honum.
Þegar menn voru að reyna að spá fyrir um hlýnun fyrir 15 árum bjuggust menn við vaxandi úrkomu í norðanveðri Evrópu. Svo er að sjá að sú spá nái ekki norður til okkar ef miða má við hið afbrigðilega veður í sumar.
Það vantar vætu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.