Átökin hljóta að berast hingað.

Eitt af einkennum hlýnandi loftslags á jörðinni eru vaxandi öfgar og átök í veðrinu. Á þessu hefur fólk um víða veröld fengið að kenna, ekki hvað síst í norðanverðri Evrópu og í Norður-Ameríku.

Hins vegar hefur Ísland sloppið við þetta að sumarlagi undanfarin ár og það svo mjög að áður óþekktar stillur, hitar og þurrkar hafa ríkt hér sumar eftir sumar.

Þegar menn voru að reyna að átta sig á því á tölvulíkönum fyrir meira en tíu árum hvernig veðurfar myndi breytast í einstökum heimshlutum og var búist við því að í norðanverðri Evrópu, á Bretlandseyjum og á Norðurlöndum yrði veður rysjóttara, rigningasamara og jafnvel svalara en áður.

Hér á Íslandi gæti veðurfar þá orðið svipað og hefur verið í Skotlandi, þ. e. hlýrra, vindasamara og úrkomusamara.

Þetta hefur ekki gengið eftir hvað Ísland varðar enn sem komið er nema kannski helst frá desember fram í mars þegar hér hafa gengið yfir eindæma sviptingar í veðrinu.

Hins vegar hlýtur að vera óraunhæft að vonast eftir því að hægviðri undanfarinna sumra verði að reglu hér á landi.

Átökin í veðrinu sem myndast vegna mikils hitamunar á þeim íshvelum, sem enn eru á Grænlandi og mestallt árið allt í kringum Íshafið, hljóta að geta borist til Íslands eins og annarra landa og því jafnvel hætta á snörpum lægðum um hásumar í stað þess að þær byrji ekki að hasla sér völl sem "haustlægðir" síðsumars.   


mbl.is Með dýpstu lægðum í júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru tvenn reginöfl að verki, sem ráða því hvort "íslands-sker" sé byggilegt eður ei.

Annað er Golfstraumurinn, sem lekur hér framhjá, endar svo bæði á Noregi og Bretlandi. Spræna af honum fer vestan við land og svo norður um, og mætir þar íshaffstraumi sem fer til suðurs. Þetta er á svæði sem við myndum nefna Grænlanssund, en gengur undir heitinu "Denmark straits", og liggur þar einmitt á straumskilum og hafsbotni  hlunkur nokkur er nefnist HMS HOOD.

Þarna eru virkileg straumaskil, og þótt að veður sé gott, þá er alltaf alda þarna, því þar mætast jú straumar sem fara gegnt hvorum öðrum. Eitthvað "nudd" er óhjákvæmilegt.

Eins er með vindaskilin, og þar er spámennskan erfiðari.  Breyturnar eru margar, því þarna spila saman sjávarhiti, hæð, lægð, landslag, hitabil og sólarfar.

Bóndinn í mér verður hissa ef þetta nær nokkurri stormhæð á Suðurlandi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.7.2012 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband