22.7.2012 | 20:17
Sannur meistari.
Þegar reynt er að meta afrek mestu meistara er ekki nóg að líta á tölurnar. Líta verður á frammistöðu meistaranna í heild, ekki aðeins hverju þeir áorkuðu þegar þeir voru á sigurbraut og allt gekk i haginn, heldur ekki síður hvernig þeir brugðust við áföllum og mótbyr, hvort þeir brotnuðu þá niður og lögðu á flótta undan erfiðleikunum, eða hvort þeir efldust við mótlætið og stefndu til nýrra sigra.
Ég hef verið að glugga í feril tveggja söngvara og lög þeirra í dag.
Á árunum 1962 til 1967 hvarf Elvis Presley alveg af vettvangi stórstjarna dægurtónlistar og allir héldu að hann hefði aðeins verið einn af ótal stjörnum, sem skutust leifturhratt upp á stjörnuhimininn og slokknuðu og hurfu jafnhratt.
Saman fór á þessum árum ný bylting, Bítla- og hippabyltingin með breyttri tónlist, og brotthvarf Presleys úr gefandi tónlistarsköpun á eigin forsendum til misheppnaðs ferils í kvikmyndaiðnaðinum.
En 1968 birtist hinn "gamli" Presley aftur, hreint að springa af krafti og topp ástandi til líkama og sálar, þroskaðri og reyndari af mótlætinu, vissi hvað hann vildi og átti einhverja mögnuðustu endurkomu sem tónlistarsagan kann frá að greina.
Þótt þetta ástand varaði að vísu i aðeins í fjögur ár og að þá syrti aftur að í einkalífi hans, skipti þetta glæsi-"come-back" tímabil sköpum í því að skipa Presley einstakan sess sem "Kóngurinn" um alla framtíð á sínu sviði.
Þolgæði er mikilvægur eiginleiki meistaranna. Stórsöngvarinn Frankie Laine, sem allt of fáir þekkja, hafði einstakan söngstíl, rödd og ekki síst túlkun og ruddi braut nýjum túlkunartökum, sem varð fyrirmynd fyrir komandi söngstjörnur.
Í sautján mögur ár varð hann að berjast þangað til sól hans reis og hans tími kom. Það tekur ekki langan tíma að hlusta á eitt af lögum hans, "Jezebel" og taka vel eftir textanum og túlkuninn á honum á YouTube til að átta sig á sérstöðu "söngvarans með stálraddböndin". (Má gjarna bæta laginu "I believe" við ef tímir er til.)
Þegar verst gekk 1947-8 átti hann ekki sent og svaf á bekk í Central Park í New York. Skömmu síðar var hann kominn á stall með þeim þekktustu.
Hnefaleikasagan greinir frá ýmsu hliðstæðu. Muhammad Ali er af flestum talinn besti þungavigtarhnefaleikari allra tíma en tapaði fyrir fjórum hnefaleikurum, var tvívegis afskrifaður sem útbrunnnin, 1971 og 1978, en vann úr veikleikum sínum og endurheimti heimsmeistaratitilinn tvisvar.
Hann, Joe Louis og Lennox Lewis, hugsanlega þeir þrír bestu, áttu það sameiginlegt að hafa allir barist að nýju við þá sem höfðu skákað þeim, og unnið þá sannfærandi í bardaga númer tvö. Raunar lét Ali það ekki nægja að berjast einu sinni við Frazier og Norton, heldur tvisvar svo að staðan yrði 2-1 gagnvart þeim báðum.
Allir áttu þeir Ali, Joe og Lennox það sameiginlegt að hafa unnið alla þá bestu á meistaraferli þeirra.
Salka Heimisdóttir er kornung en gæti búið yfir þeim neista sem skilur afburða afreksfólk frá góðu afreksfólki. Henni og öðrum sem glíma við að vinna úr erfiðleikum sendi ég hvatningarorð og óska alls hins besta.
Stórsigur eftir alvarlegt slys | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tónlistariðkun, söngur eða spil, tala nú ekki um tónlistarsköpun, er ekki sambærileg við íþróttir. Það tapar enginn í listinni og listamenn á að dæma eftir því besta sem þeir gerðu, jafnvel þó það sé bara eitt verk. En góður var Frankiel Laine! T. d í Cool Water.
Sigurður Þór Guðjónsson, 22.7.2012 kl. 23:23
Sigurður Þór...
Ef samkeppnin meðal "listamannanna" hefur eitthvað farið framhjá þér... Þá vil ég bara segja þér að leggja stund á einhverja list, hvað þá að ná frama í einhverju svoleiðis, er mikið meira "brútal" heldur en atvinnumennska í nokkurri íþróttagrein... Trúðu mér...!
Það fólk sem það stundar verður allt saman sérviturt (snargeðveikt) á endanum...
P.s... Íþrótt er ekki alltaf keppni...
Sævar Óli Helgason, 23.7.2012 kl. 09:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.