2.8.2012 | 10:44
Los Angeles 1968
Þegar ég var í Los Angeles um miðsumar 1968 lá þykkt mengunarský yfir borginni. Þeir sem voru veikir fyrir í lungum fundu fyrir þessu fyrirbæri sem var kallað smog, sem voru orðin smoke og fog sett saman í eitt.
Manni súrnaði í augum og skyggnið var lítið þar sem að öllu eðlilegu hefði átt að vera bjart og heiðríkt.
Í gangi hafði verið umræða árum saman þar sem "öfgamenn" í umhverfismálum börðust fyrir því að minnka mengun. Lengst af var ekki hlustað á slíkt "öfgatal". Bent var á að það myndi kosta óheyrilegar fjárhæðir að draga úr útblæstrinum og það myndi auk þess draga úr afköstum hreyflanna, sem skópu hana.
Það myndi einfaldlega þýða það að hreyflarnir yrðu gerðir stærri til að vinna upp orkutapið og útblásturinn yrði þar með svipaður áfram en með miklu meiri eyðslu og kostnaði.
Þeir sem héldu fram nauðsyn mengunarvarna voru taldir "úrtölumenn" og "afturhaldsmenn" sem væru á móti hagvexti og framförum.
Ástæða vaxandi mengunar var meðal annars hestaflakapphlaup bílaframleiðenda sem höfðu þrefaldað afl meðal fólksbíls á fáum árum til þess að auka neyslu, velmegun og ánægju, sem meðal annars byggðist á því að eldneyti naut ívilnana til þess að auka hagvöxt og kostaði nánast ekki neitt, miðað við það sem síðar varð.
En 1968 var loks svo komið að ekki var lengur hægt að halda áfram á þessari braut og stjórnvöld neyddust til að grípa til aðgerða. Harðastar voru þær í Kaliforníuríki og eru það enn.
Afleiðingar þeirra urðu að hluta til svipaðar og menn raunsæis, frelsis og framfara höfðu spáð.
Afl hreyflanna hrundi þegar bílaframleiðendur reyndu að fara ódýrustu og einföldustu leiðina fyrir sig sjálfa við að minnka mengunina. Þeir tímdu ekki að fara inn á braut beinnar rafeindastýrðrar innspýtingar, yfirliggjandi kambása og annarra tækniatriða sem best hefðu dugað, og seinkuðu þar með óhjákvæmlegum aðgerðum um meira en tuttugu ár.
Á tímabili voru flestir bandarískar bílvélar þær aflminnstu og eyðslufrekustu í heimi, miðað við stærð.
Fimm lítra 300 kúbika vél afkastaði aðeins rúmum 100 hestöflum og eyddi óheyrilega.
Í dag afkastar sex sinnum minni Fiat-bensínvél álíka afli með fimmtungi af eyðslu bandaríska háksins.
Kínverjar feta nú svipaða slóð og Bandaríkjamenn gerðu fyrir hálfri öld, ölvaðir af trú á veldisvaxandi hagvöxt og sókn eftir svipuðu ástandi og var í Vesturheimi upp úr miðri síðustu öld, þegar neyslan þar var sú langmesta í heiminum.
"Öfgamenn" og "úrtölumenn" benda nú á svipaða hluti varðandi Kínverja, Indverja og heiminn allan og gert var um 1960 í Bandaríkjunum.
En í þetta skiptið er málið miklu stærra og snýst um miklu afdrifaríkari afleiðingar um allan heim en blöstu við í Los Angeles 1968.
Metmengun í Hong Kong | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar fyrstu hvarfakútarnir voru lögleiddir var reyndar sami nettó co2 útblástur úr sama bíl, af því einfaldlega að eiðslan fór upp til samræmis við efnabreytinguna. Þetta var 1989 ef ég man rétt (tölur aðeins eldri).
Ætli þeir hafi skánað síðan?
Jón Logi (IP-tala skráð) 2.8.2012 kl. 14:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.