Vel heppnaður bíll.

Ég á 31. árs gamlan fornbíl af gerðinni AMC Eagle, sem hefur þjónað mér vel sem hálfgerður flugvallarbíll á Selfossi. Hann er merkilegur fyrir þá sök að hann var fyrsti ameríski "umskiptingurinn" (íslensk þýðing á enska orðinu "crossover") en fyrstu fjöldaframleiddu umskiptingarnir voru Subaru Leone 4x4 og Lada Niva (Sport) sem urðu metsölubílar á Íslandi.

Þessir bílar eru í grunninn venjulegir fólksbílar, ekki með grind, heldur heilsoðna skel, og með því að gera þá hærri frá jörðu og setja í þá fjórhjóladrif fá þeir aukna möguleika á vondum vegum, utan vega og í erfiðri færð. 

Því miður fyrir American Motors kom AMC Eagle á markað 20 árum á undan samtíð sinni og framleiðslu hans var hætt um 1990. 

En þegar Toyota RAV 4 sló í gegn fyrir á fyrri hluta 9. áratugarins skapaði það samkeppni sem fæddi af sér Honda CRV og HRV, Mitsubishi Higlander, Suzuki Ignis og SX4, Land Rover Freelander, Volvo XC 70 o. s. frv. Alllir vildu Lilju kveðið. 

Það sýnir vel hve vel heppnuð hönnun Lada Niva var að hann var upp á sentimetra jafn langur á milli hjóla og Suzuki Vitara og Toyota RAV4 urðu síðar. 

Með Nissan Quashqai hefur framleiðendum tekist sérlega vel upp að rata á meðalveg sem hefur skilað mikilli sölu víðast hvar.

Hann er einn af umskiptingum sem hægt er að fá í tveimur lengdum, fimm sæta og sjö sæta og með góðu úrvalli af bensín- og dísilvélum. 

Orðmyndin "jepp" í jepplingur yfir þessa bíla er varla nothæft, því að þegar þeir eru hlaðnir eru þeir orðnir nafn lágir frá jörðu og venjulegir fólksbílar.

Nýjustu umskiptingarnir eru lægri en Subaru var í gamla daga og Lada Niva gefur þeim öllum langt nef, bíll með pottþétta jeppaeiginleika með hvaða hleðslu sem er, þótt hönnunin sé svipaðs eðlis og hjá umskiptingunum.

Munurinn er hins vegar sá að Ladan var algerlega hönnuð frá grunni en ekki á botnplötu fólksbíls eins og umskiptingarnir eru yfirleitt.  


mbl.is Nissan Qashqai vinsæll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

AMC var mjög framarlega á sínu sviði. Þeir framleiddu til dæmis öruggustu bílana lengi vel. Það þurfti td sjaldan að klippa menn út úr AMC, menn opnuðu bara dyrnar sjálfir og fóru út.

Rann saman við JEEP kringum 1980 - sem eru ennþá með bestu bílunum. Léttir, tiltölulega sparneytnir, alhliða góð tæki.

Og svo kaupa allir Ford F150 eins og asnar.

Ásgrímur Hartmannsson, 4.8.2012 kl. 16:49

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Jepplingur er betra og þjálla nafn en umskiptingur. Það er engin ástæða til að vera með beina þýðingu frá Kananum, þegar við eigum sjálfir ágætis orð yfir hlutina. Þá ætti væntalega að útrýma orðinu Jeppi, þar sem það er jú séríslenskt orð yfir ákveðna tegund bíla en hefur síðan orðið samheiti yfir heilann flokk bíla. Að auki eru sumir þeirra þeirra bíla sem undir þennan flokk teljast ekki byggðir á grunni fólksbíls, heldur hannaðir frá grunni. Þar hefur því engin umskipting farið fram.

SUV, eða Sport utility vehicle, er samheitið yfir þessa bíla í Ameríku. Það er nokkuð sama hvernig það er þýtt, orðskrípi verður það.

Höldum okkur við þetta ágæta séríslenska orð Jeppi og köllum þá bíla sem komast í hálfkvist við þá Jepplinga. Þetta er þegar orðið nokkuð fast í máli okkar og engin ástæða til að reyna að breyta því.

Að öðru leyti tek ég undir með þér um ágæti AMC Eagle. Þessir bíla voru stórlega vanmetnir og gleðilegt að vita að til eru slíkir bíla á götum Íslands. 

Gunnar Heiðarsson, 4.8.2012 kl. 18:19

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef ekkert á móti orðinu jeppi, fjarri fer því. En þess ber að gæta að sumir "crossover" bílar eru ekki fjórhjóladrifnir og því vantar nýyrði yfir þetta hugtak.

Allt í lagi, notum þá orðið jepplingur yfir þá sem eru fjórhjóladrifnir, enda setti sjálfur ég þetta orð fram þegar RAV4 kom á markaðinn og get því varla verið á móti því núna.

Er bara að benda á að hjá flestum framleiðendum aldrifsbíla hefur torfærueiginleikum bíla þeirra hrakað, - meira að segja Landcruiser er kominn með bensíngeyminn nálægt lægsta punkti þegar hann er fullhlaðinn.

Ómar Ragnarsson, 4.8.2012 kl. 23:58

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Mig minnti að þú værir höfundur orðsins Jepplingur, Ómar, en þorði þó ekki að nefna það. Úr þinni smiðju hefur margt gott komið í gegnum tíðina.

Vissulega er það rétt að torfærueiginleikar flestra jeppa hefur dalað mikið. Kannski að ástæðan sé sú að þeir eru orðnir svo dýrir að einungis efnað fólk getur keypt þá og efnafólk horfir frekar til lúxusins. Eða er þetta kannski öfugt?

Jafnvel Suzuki Vitara jeppinn (jepplingurinn) er orðinn svo hlaðinn aukabúnaði og óþarfa að ekki er á færi hverra sem er að kaupa slíkann bíl, kostar um og yfir sex miljónir! Þeir bílar eru komnir langt frá uppruna sínum, orðnir kviðsíðir og skortir verulega þá eiginleika sem áður var. Að vísu framleiða þeir nú Jimny sem er minni, en kostar þó um þrjár og hálfa miljón.

Gunnar Heiðarsson, 5.8.2012 kl. 08:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband