4.8.2012 | 23:51
Hvílík skemmtun! Hvílík dýrð! Hvílík dásemd!
Bræðurnir Jónas og Jón Múli létu prestinn í söngleiknum Járnhausnum hrópa upp í hvert skipti sem hann hreifst af einhverju eða mærði eitthvað: "Hvílík dýrð! Hvílík dásemd!"
Þetta kom hvað eftir annað upp í hugann við að sjá til strákanna okkar þegar þeir unnu Frakka á lokamínútum sem hefðu kannski þótt einum of mikið, ef rithöfundur hefði skrifað þá atburðarás sem skáldsögu.
Í síðustu tveimur leikjum hafa þeir skemmt okkur svo vel og orðið okkur til þvílíks sóma að jafnvel þótt þeir dyttu nú út, (sem vonandi verður ekki) væri það meira en nóg.
Það hefur oft háð okkur á stórmótum að vegna þess að breiddin er ekki alveg sú sama hjá okkur og stórþjóðunum, hafa strákarnir verið búnir að klára þrekið í síðustu leikjunum, enda hefur Guðmundur þá neyðst til að keyra mikið á sama hópnum.
Í þetta sinn virðist þetta ekki alveg eins áberandi og er notkun hans á Alexander Petterson dæmi um það, þegar hann gefur honum færi á að hvílast á köflum til þess að geta haldið snerpunni og úthaldinu sem hin gríðarlega fótavinna og hreyfing gengur óhjákvæmilega á.
Fram að þessu: Bravó! Bravó!
Ef það gerðist nú líka að gullið ynnist í þetta sinn myndi það verða stórkostlegur endir á ferli Guðmundar með landsliðið, svo stórkostlegur að einhver mætti alveg hrópa: Guðmundur er stórasti þjálfari í heimi!
Stundum er það viljinn einn sem skilar toppárangri, - það stekkur enginn lengra en hann hugsar, - og eftir silfrið í Peking er það engin goðgá að lofa blóðbragðinu að njóta sín og stefna fram í anda lagsins: "Farðu alla leið!"
Unnu Frakka og vinna riðilinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Frábær frammistaða ! Eftirfarandi leikmenn munu lítið sem ekkert spila í leiknum gegn Bretum: Óli, Alexander,Arnór, Aron og Guðjón. Þrufa sannarlega á hvíldinni að halda fyrir stórleikinn.
RÚV hefði nú mátt staldra lengur við á vellinum í leikslok. Ég skipti yfir á DR1 og þar var gaman að sjá fagnandi Íslendinga í beinni útsendingu. Á meðan voru auglýsingar og pallborðsumræður á RÚV.
Kristján (IP-tala skráð) 5.8.2012 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.