Allt annað en við höldum.

Við Íslendingar höfum staðið í þeirri trú, að vegna þess að við þekktum landið betur en útlendingar vissum við auðvitað best hverju þeir ættu að sækjast eftir.

Þetta er alveg á skjön við helsta lögmál viðskipta, að kaupandinn hafi alltaf rétt fyrir sér og að seljandinn verði að lúta því.

Það merkir, að kaupandinn meti það, sem á boðstólum er, að sjálfsögðu á sínum forsendum en okki á forsendum seljandans.

Þorri Íslendinga hefur haldið að allt væri í voða varðandi aðsókn ferðamanna nema við gætum boðið þeim upp á hita, logn og heiðríkju.

Þetta yrðum við að bjóða Miðjarðarhafsþjóðum og öðrum þjóðum sem lifa í hlýrri löndum, annars kæmi fólk þaðan ekki hingað.

Við höfum haft áhyggjur af kulda og myrkri á veturna og fyrirbrigðum eins og roki, rigningu eða öskufoki, - skafrenningi og hríð.

Allt byggist þetta mat okkar á því að útlendingar sækist eftir því sama og við, hita, sól og blíðu en ekki á því að vera kynni að þeir sæktust eftir öðru en við.

Hvað eftir annað erum við samt minnt á það að viðskiptavinir okkar hafa aðra sýn og aðrar óskir, til dæmis um að fá að upplifa eitthvað allt annað en þeir hafa upplifað áður.

Lýsing Russel Crowe er eitt dæmið um þetta, þar sem hann fær til dæmis mikið út úr nálægðinni við öskuna, sem okkur finnst alveg hræðilegt fyrirbrigði, sem fæli útlendinga frá landinu, og nefna má ótal fleiri dæmi um svipað, svo sem þegar breskur blaðamaður fékk mest út úr skafrenningnum hér í dvöl sinni um áramót.

Við búum við aldagamla hefð þrár eftir skógum og graslendi og andúð á auðnum, urðum, hraunum og eldstöðvum.

Þess vegna heitir Ljótipollur sínu nafni, þótt hann sé nú einn af þeim stöðum í Friðlandi að Fjallabaki, sem hefur einna mest aðdráttarafl.

  


mbl.is Russell Crowe hástemmdur á Suðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Merking nafnsins Ljótipollur gæti verið Ljósipollur, þar sem merking orðsins ljótur hefur einnig verið bjartur, skær eða ljós, samanber nöfnin Ljótur, Ljót, Ljótunn, Arnljótur og Úlfljótur.

"Ljótipollur er fagurrauður með háa gígbarma og vatni í botninum.

Þrátt fyrir nafnið er gígurinn geysilega fagur og umhverfið er engu öðru líkt."

"Ljótipollur er sprengigígur myndaður í gosi um 1480.

Umhverfis gígskálina hefur hlaðist upp gjóska og er bratt þaðan niður að vatninu; veiðivatn [urriði]."

Ljótipollur - myndir

Þorsteinn Briem, 8.8.2012 kl. 20:05

2 identicon

Flottar myndir.

Nú hef ég bara séð hann úr lofti, og sá lítt ljótt við hann nema hvað auðnin er mikil í kring. En á móti, á þessu svæði er alveg magnað landslag og litbrigði.

Hvenær breyttist þá ljós í ljótan?

Og ætli hann hafi ekki verið ófélegur svona fyrst?

Svona rétt eins og forarpollurinn sem var oní Eyjafjallagíg fyrir 2 árum....

Jón Logi (IP-tala skráð) 8.8.2012 kl. 21:28

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ljótur merkti ljósleitur og mér þykir það líklegri skýring á nafninu Ljótipollur en að mönnum hafi ekki þótt hann fallegur í upphafi, um 1480.

Menn hafa þá tæpast verið að kíkja mikið ofan í þennan sprengigíg, þegar Hekla var álitin fordyri Helvítis.

"Náttúrufræðingarnir Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson vildu afsanna það og voru fyrstir manna til að ganga á Heklu árið 1750."

Þorsteinn Briem, 8.8.2012 kl. 22:38

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gott veður selst betur en vont veður. Veðrið hefur verið hagstætt í ár. Guð blessi gróðurhúsaáhrifin.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.8.2012 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband