9.8.2012 | 15:31
Skrýtið, að þessir bílar þekkist ekki hér eftir Hrunið.
Síðustu árin hefur Dacia, dótturfyrirtæki Renault í Rúmeníu, framleitt afar athyglisverða bíla, sem hafa selst vel í mörgum Evrópulöndum, svo sem í Þýskalandi og víðar.
Hér fyrr á árum fékk merkið vont orð á sig vegna lélegra gæða líkt og Skoda og önnur austur-evrópsk merki, en á okkar tímum er ekki lengur hægt að dæma bíla eftir því í hvaða löndum þeir eru settir saman.
Dæmi um þetta er samtal sem ég átti við mann, sem var nýbúinn að kaupa sér smábíl en sagði að kannski hefði hann færst of mikið í fang.
Ég benti honum á að ódýrustu bílarnir, sem framleiddir væru af Dacia, væru ódýrari en smábíllinn hans en samt talsvert stærri.
"Ég og aðrir myndum aldrei kaupa bíla sem framleiddir eru í Austur-Evrópu," svaraði hann, "heldur gerði ég það að skilyrði að minn bíll yrði japanskur."
"Hann er ekki japanskur" svaraði ég.
"Jú, víst eru Suzukibílar japanskir", sagði hann.
"Ekki þessi, sem þú varst að kaupa," svaraði ég. "Suziki Swift er framleiddur í Ungverjalandi og Alto í Indlandi".
"Þú ert að grínast" sagði maðurinn.
"Nei, skoðaðu þetta bara sjálfur" sagði ég. "Skoda er kominn framúr Volkswagen í gæðum samkvæmt rannsóknum."
Ég heyri oft stórar barnafjölskyldur kvarta yfir því hvað 6-8 manna bílar séu dýrir. Dacia Logan er með sjö sæti og verðið er miklu lægra en á öðrum slíkum bílum. Engum virðist hafa dottið í hug að flytja slíka bíla inn.
Duster er prýðisvel hannaður jepplingur sem ætti að vera hægt að bjóða hér á lang lægsta verði slíkra bíla.
Dacia Bílarnir eru að mestu framleiddir úr sömu einingum og Renaultbílar og róbótar sjá um verkið.
Þeir gætu þess vegna alveg eins verið seldur undir merki Renault.
Stundum finnst mér eins og allt tuðið um það hve allt sé dýrt hérna og erfitt eftir Hrunið risti ekki djúpt.
Á skjön við þetta harmakvein eru þær kröfur sem þorri okkar Íslendinga gerir um stærð og íburð í bílum okkar og blasir við okkur í umferðinni hér í mest mengandi bílaflota, sem þekkist í okkar heimshluta.
Dacia að hefja innreið ódýrs smábíls | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stundum finnst mér þú ekki horfa á heildarmyndina þegar horft er til gæða bifreiða. Það má vel vera að Dacia bili ekki meira en aðrir bílar, ég hef ekki skoðað það. Hins vegar hef ég skoðað niðurstöður árekstrarprófana og þar er Dacia langt á eftir japönskum og vestur-evrópskum framleiðendum. (http://euroncap.com/results/dacia/duster/2011/421.aspx)
Stefán Árni Stefánsson (IP-tala skráð) 10.8.2012 kl. 11:20
Ef þetta er bara árekstrarprófun með Duster ber þess að gæta, að jeppar og jepplingar hafa yfirleitt ekki komið vel út úr árekstraprófum til þessa.
En málið snýst líka um það, að ef viðkomandi Íslendingur ákveður að kaupa frekar gamlan japanskan eða vestur-evrópskan bíl heldur en nýjan Dacia, þá standa gömlu bílarnir einnig að baki í árekstraprófunum.
Alhæfingin um "vestur-evrópskan" er varasöm. Ég veit ekki betur en að Skoda hafi komið bærilega út úr árekstraprófunum og gott ef Suzuki Swift hefur ekki líka gert það.
Ómar Ragnarsson, 10.8.2012 kl. 13:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.