Ljósasti punkturinn hjá okkur en móðgandi auglýsingahlé.

Það er örsjaldan sem íslenskir þátttakendur á Ólympíuleikum komast í úrslit og lenda í einhverjum af efstu 12 sætunum. 11. sætið hjá Ásdísi Hjálmsdóttur og hetjuleg barátta Rögnu Ingólfsdóttur ásamt frammistöðu handboltalandsliðsins eru því ljósustu punktarnir hjá okkur Íslendingum á þessum Ólympíuleikum og glæsileg frammstaða hjá þessari ungu og upprennandi stjörnu.

Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingur nær 11. sæti í íþróttagrein á Ólympíumóti og má til samanburðar nefna að menn minnast þess enn mörgum árum síðar þegar Jón Arnar Magnússon varð tólfti í tugþraut.

En vonandi gerist það aldrei aftur sem gerðist í kvöld, að einmitt þegar spennan var sem mest út af því hvort Ásdísi tækist að halda áttunda sætinu og komast enn framar var tekið langt auglýsingahlé á meðan keppinautar hennar voru að kasta, en einmitt þá réðist það hvort hún héldi áttunda sætinu og ætti möguleika á að komast ofar.

Sjáið þið fyrir ykkur að tekið hefði verið auglýsingahlé rétt áður en venjulegum leiktíma lauk í leik Íslendinga og Ungverja og við fengjum að frétta það eftir á hvort ungverski markmaðurinn kæmi í veg fyrir að Íslendingar ynnu í venjulegum leiktíma? Fengjum að sjá Snorra Stein munda boltann en biðum síðan eftir því að auglýsingahléi lyki til að sjá hvort markmaðurinn hefði varið? Að sjálfsögðu hefði það ekki komið til greina, jafnvel þótt endanleg úrslit leiksins réðust síðar.

Þegar maður fylgist með spennandi keppni eina einstaklingsins sem á eftir möguleika að að komast í allra fremstu röð á Ólympíuleikum gerir maður þá einföldu kröfu að allt sé gert sem mögulegt er til þess að maður fái að njóta alls þess sem keppnin hefur upp á að bjóða og missi ekki af neinu, sem skipt getur máli, í þessu tilfelli því hvort keppinautar Ásdísar kæmust fram fyrir hana.

Sem gömlum unnanda og starfsmanni Ríkisútvarpsins finnst mér að þetta auglýsingahlé hafi verið mistök og móðgandi fyrir Ásdísi Hjálmsdóttur og alla landa hennar sem fylgdust með hetjulegri baráttu hennar í kvöld og raunar móðgandi fyrir íslenskar íþróttakonur og íslenskar konur almennt.  

Vonandi gerist svona lagað ekki aftur.


mbl.is Ásdís hafnaði í 11. sæti í spjótkastinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Þetta mun gerast aftur Ómar, - því miður. Hér er um að ræða hæfni þeirra sem stjórna útsendingum.

Kjartan Eggertsson, 10.8.2012 kl. 02:04

2 identicon

  Dómgreindarleysið í okkar gömlu stofnun ríður ekki við einteyming, Ómar minn.

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 10.8.2012 kl. 09:09

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alveg sammála þessu. Þó Páll Magnússon hafi áreiðanlega ekki tekið ákvörðun um þetta ber hann endanlega ábyrgð á því. Það er ekki nóg að sjónvarpið standi sig stundum vel, afglöpin eru alltof mörg. Man vel eftir uppnáminu sem varð á Stöð 2 þegar auglýsingar voru settar yfir "touch downið" í fyrsta ofurskálarleiknum sem sýndur var beint.

Sæmundur Bjarnason, 10.8.2012 kl. 10:23

4 identicon

Rétt hjá þér Ómar. Við hjá Kaffi Norðurfjörður erum með slæmt samband við RUV, svo okkar gestir horfðu á alla útsendingu á BBC og aldrei hlé eða  stopp og frábær myndgæði . Þetta vr glæsilegur fulltrúi okkar

Sveinn Sveinsson (IP-tala skráð) 10.8.2012 kl. 11:37

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta var þeim mun grátlegra að afar færir lýsendur hafa verið á okkar vegum við að lýsa atburðum á leikunum og eftir að hafa hlustað á bestu kollega þeirra erlenda í áratugi hef ég oft verið stoltur af frammistöðu okkar manna.

Ég nefni sem dæmi lýsingar Einars Arnar Jónssonar á handboltaleikjunum, sem hann lýsti, en þar kom glöggt fram hve mikils virði það er að lýsadinn hafi sjálfur verið atvinnumaður í fremstu röð erlendis og hafa auk þess nógu gott vald á íslensku máli til þess að skila því.

Sjálfur hef ég oft engst yfir því hlutskipti að þurfa hvað eftir annað að "henda inn auglýsingum" í hnefaleikamótum sem ég hef lýst á Stöð 2 og sæta því að taka áhættuna af því að auglýsingarnar kæmu inn á versta tíma.  

Ómar Ragnarsson, 10.8.2012 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband