10.8.2012 | 12:48
Þetta gerði Bessi líka hér um árið.
Í söngleiknum "Ó, þetta er indælt stríð", sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu hér um árið, lék Bessi Bjarnason liðþjálfa sem var með svonefndt "drill" atriði, þ. e. að stjórna æfingu hjá nýliðum.
Þetta atriði var drepfyndið frá hendi höfundar og enski leikstjórinn Kevin Palmer, sem hafði sett söngleikinn upp í London, vissi nákvæmlega hvernig ætti að útfæra það.
En hann hafði aldrei fyrr verið með leikara eins og Bessa til umráða. Bessi, sem líklega hlaut meiri frægð fyrir spuna á leiksviði en nokkur annar leikari, gat ekki á sér setið að leggja eitthvað nýtt til málanna í þessu atriði á hverri æfingu og fór spuninn hraðvaxandi dag frá degi.
Mjög fljótlega var það orðið þannig, að öll önnur starfsemi stöðvaðist í leikhúsinu og fólk kom alls staðar að til þess að sjá þetta atriði, því að í meðförum Bessa varð það ekki aðeins margfalt fyndnara en af hendi höfundar, heldur miklu lengra þegar spuninn náði hæstu hæðum.
Fólk bókstaflega lá í hlátri í hvert sinn, því að atriðið varð sífellt nýtt og betra á hverri æfingu.
Leikstjórinn reytti hins vegar hár sitt og að lokum sagði hann, að sér væri nóg boðið og að ef Bessi hætti ekki þessum spuna í eitt skipti fyrir öll, myndi hann reka hann úr sýningunni enda ekki hægt að hafa leikara í henni, sem væri ekki "professional" .
Okkur, sem höfðum engst af hlátri á hverri æfingu, fannst þetta harðir kostir, en Bessi gaf eftir og fór eftir þetta nákvæmlega eftir handritinu og fyrirmælum leikstjórans svo að aldrei hallaði orði eða hreyfingu.
En mikið vildi ég óska þess að atriðið hefði náðst á filmu í eitthvert af þeim skiptum sem það varð svona ógleymanlega fyndið, því að engin leið var að leggja spunann á minnið, því að hann varð nýr og nýr í hvert sinn.
Dó úr hlátri á tökustað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.