"Heitt og hátt" án axlarólar.Hliðstæð íslensk mynd var tekin.

Fróðlegt er að skoða myndbandið af brotlendingu vélar, sem mér sýnist vera af gerðinni Stinson 108 Voyager, í Idaho í Bandaríkjunum því að það sýnir nokkur atriði sem skipta máli.

Í fyrsta lagi kemur vel fram að vélin þarf ógnarlangt flugtaksbrun sem stafar líklegast af því að hún er vísast ofhlaðin og þar að auki er flugtakið í talsverðri hæð yfir sjó og lofthiti mikill, það sést á klæðnaði farþeganna.

Þetta þrennt, hleðslan, lofthitinn og hæð yfir sjó, dregur mjög úr afkastagetu vélarinnar, hækkar ofrishraðann og minnkar afl hreyfilsins, enda sést að flugmaðurinn á í mesta basli við að koma vélinni í loftið og í einhverja hæð frá jörðu. Þessi vél er líkast til um 65 ára gömul og með 150 eða 165 hestafla hreyfil, og ber varla nema þrjá menn innan leyfislegs flugtaksþunga.

Þegar flugmaðurinn reynir að reisa vélina og hækka flugið minnkar hraðinn og vélin súnkar aftur niður við það og missir klifurgetu.

Þar að auki gætu aðstæður verið þannig að flogið sé upp á móti hallandi landi, sem þar að auki er skógi vaxið þegar lengra er komið.

Aldrei er að heyra neitt hikst eða hljóðbreytingu í hreyflinum og í lokin er ljóst að hverju stefnir, þegar flugstjórinn reynir að reisa vélina til að hækka flugið með þeim afleiðingum að flughraðinn minnkar og vélin getur ekki klifrað.

Það sést og heyrist að vélin rekst fyrst í einstakan trjátopp, sem dregur úr hraða og hæð hennar og einnig sést að flugstjórinn er með enga axlaról og þess vegna kjálkabrotnar hann þegar hann kastast fram í mælaborðið í brotlendingunni.

Þetta er ekki algerlega einstakt myndskeið, því að Örn Sveinsson, kvikmyndatökumaður sjónvarpins, hélt áfram að taka mynd á myndvél sjónvarpsins þegar þyrla, sem hann var í, flaug á vír við sjónvarpshúsið og hrapaði til jarðar hér um árið, þannig að allur aðdragandi slyssins, hrapið sjálft og myndir af flakinu, voru fyrir hendi !


mbl.is Farþegar kvikmynduðu brotlendingu (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband