16.8.2012 | 08:31
Einn á móti 30 milljónum.
Stundum veltir maður því fyrir sér hvort heppni í einstökum tilvikum sé sanngjörn. Þetta flaug mér að minnsta kosti í hug þegar ég var á ferð í Kverkfjöllum fyrir um fimmtán árum og fékk af því fregnir, að íshellirinn, þar sem áin Volga kemur út, væri hættulegur fólki vegna íshruns.
Ég ákvað því að gera um þetta frétt með hvatningu til þess að farið væri varlega og að fólk gerði sér að minnsta kosti grein fyrir áhættunni, sem það tæki með því að fara inn í hellinn.
Mér var sagt að einu sinni á hverju sumri hryndi mörg hundruð tonna ísstál í heilu lagi niður í hellismunnanum og gæti slíkt hrun banað fjölda fólks sem stæði þar undir eða skammt frá.
Hættulegasti staður sýndist vera hellismunninn sjálfur. Það var svolítið mas að gera fréttina því ég var einn á ferð og þurfti því að gera þetta í áföngum.
Fyrst stillti ég mér þar upp í hellismunnanum og tók svokallað "stand-up" eða uppistand fyrir framan myndavélina sem var á þrífæti og stóð nálægt mér.
Síðan færði ég þrífótinn og myndavélina fjær og tók aftur sama uppistandið.
Að lokum færði ég mig ca. 50 metra í burtu til þess að taka yfirlitsmynd þar sem hellismunninn sæist allur.
Til þess að útskýra hættuna betur leitaði ég að sprungu í ísveggnum yfir hellismunnanum og sá eina sem var sýnu stærst og lá í boga yfir munnann.
Ég "súmmaði" inn á sprunguna í því skyni að víka sjónarhornið aftur og ná þannig ákveðnum áhrifum.
Tíminn, sem myndin var þrengst var um það bil 3 sekúndur. En einmitt í þann mynd sem myndskeiðið hófst sást að sprungan tók að víkka mjög hratt. "Súmmaði" ég þá út og viti menn: Tuga metra breitt ísstál hrundi niður yfir hellismunnann og há flóðalda reis með fljúgandi ísstykkjum, sem óð áfram niður ána Volgu.
Ef þetta árlega hrun hefði orðið tveimur mínútum fyrr hefði ekki þurft um að binda, - ég hefði sjálfur orðið fyrir því sem ég ætlaði að vara við.
Þegar myndskeiðið var skoðað á eftir sást, að það var ekki aðeins margra metra há flóðbylgja sem skall á staðnum sem ég hafði staðið á við uppistandið, heldur flaug íssstykk, að minnsta kosti tonn að þyngd í gegn nákvæmlega þar sem ég hafði staðið.
Hverjar voru nú líkurnar á því að þetta árlega hrun yrði nákvæmlega á þeim tveimur sekúndum sem myndavélinni var beint þröngt að sprungunni? Og að það væri bjart, ekki myrkur og ekki dimm hríð?
Mér taldist svo til að það gæti verið einn á móti 30 milljónum !
Nokkrum árum síðar stóð ég með myndavélina í gangi í Grímsvötnum þegar þar varð eina stóra íshrun dagsins, þar sem 40-50 metra hár ísturn hrundi í vatnið og flóðbylgja kom æðandi.
Hverjar voru líkurnar þá á að vélin væri í gangi einmitt á þessu eina augnabliki?
Bæði þessi atvik má sjá í heimildarmynd minni "In memoriam?" sem Bergvík hefur til sölu.
Ég gæti nefnt fleiri svona dæmi en læt þessi tvö nægja nú.
Ógleymanleg augnablik fest á filmu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar minn. Líkurnar aukast til muna þegar menn eru alltaf á ferðinni og alltaf með kveikt á vélinni.
Takk fyrir að vera svoleiðis.
Pétur
G. Pétur Matthíasson (IP-tala skráð) 16.8.2012 kl. 09:06
Út um allt hann segir sís,
smellir af í tonnavís,
næstum varð hann undir ís,
undarlegur var það grís.
Þorsteinn Briem, 16.8.2012 kl. 15:11
Hehe, þessi er ágæt. Vísa um heppni.
Annars minnir þessi heppni mig örlítið á annan flugmann, hann Steina Jóns. Alveg með ólíkindum hvað kall slapp oft. En....hann var oftast ekki með myndavél, og þrátt fyrir talsverða leit að myndum af einu hans æsilegasta augnarbliki (þær voru til), þá fundust þær ekki.
Jón Logi (IP-tala skráð) 16.8.2012 kl. 15:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.