17.2.2007 | 13:08
"NÁTTÚRUVERND HINNA SVÖRTU SANDA".
Í Blaðinu í dag segir Friðrik Sophusson að umhverfisverndarsamtök berjist fyrir "náttúruvernd hinna svörtu sanda" á sama tíma sem fyrirtæki hans er að sökkva stærsta gróðurlendi sem eytt hefur verið í einni framkvæmd í Íslandssögunni, alls 40 ferkílómetrum. Orwell hefði elskað þetta orðalag.
Í júní nk. mun þjóðin sjá 30 ferkílómetra af svörtum sandi á þurru í lónstæði Hálslóns sem Landsvirkjun hefur búið til þar sem áður var að mestu gróið land. Nær væri því að tala um "virkjanastefnu hinna eyddu gróðurlenda og tilbúnu sanda."
Fyrir tæpum tuttugu árum sökkti sama fyrirtæki næstum því eins stóru grónu svæði undir Blöndulón. Stór hluti lónstæða fyrirhugaðra virkjana í Neðri-Þjórsá verður ræktað eða gróið land. Barátta gegn virkjunum í Þjórsárverum hefur snúist um einstæða gróðurvin.
Einn þingmanna sagði á sínum tíma að verið væri að rífast um "nokkur nástrá". Virkjanamenn tala um að smávegis af "eyðimerkurgróðri verði sökkt". Staðreyndin er hins vegar sú að Hálsinn, sem Hálslón dregur nafn af, var 15 km löng bogadregin Fljótshlíð íslenska hálendisins með 2ja til 3ja metra þykkri gróðurþekju.
Þegar lægst er í Hálslóni snemmsumars munu kynslóðir framtíðarinnar berjast við sandfokið af þessum 30 ferkílómetrum sem Landsvirkjun breytti úr grónu landi í svartan sand.
"Umræðan um umhverfisvernd á villigötum" segir Friðrik í viðtalinu. Það eru orð að sönnu.
Athugasemdir
Hefur eitthvað breyst frá því Hjörleifur Guttormsson skrifaði grein í árbók Ferðafélags Íslands fyrir um 20 árum síðan, um Kárahjúkasvæðið?. Ég man það ekki orðrétt en það var eitthvað á þá leið að inn á Kringilsárrana væri lítið að sækja og til væru merkilegri sambærileg svæði með betra aðgengi. Fljótshlíð íslenska hálendisins segirðu...sínum augum lítur hver silfrið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.2.2007 kl. 14:18
Ég sýnist það Ómar minn að þér sárni að einhverjir aðrir en þið öfgamenn setjið fram skoðanir ykkar og ég hef líka tekið eftir því að þið viljið ekki að almenningur fái upplýsingar um hinar ýmsu framkvæmdir nema upplýsingarnar séu frá ykkur.
Þú segir að stór hluti lónsstæða fyrirhugaðra virkjana í Neðri-Þjórsá sé á ræktuðu eða grónu landi.
Staðreindin er sú að lónin verða 20 ferkílómetrar í heildina og þar af eru 4 ferkílómetrar gróið eða ræktað land.
Það er því 1/5 af lónsstæðunum sem er á grónu landi og telst því tæpast stór hluti.
Stefán Stefánsson, 17.2.2007 kl. 18:59
"Mér sýnist" átti það að vera
Stefán Stefánsson, 17.2.2007 kl. 19:01
Ef Kópernikus, fremst stjörnufræðingur heims, hefði fertugur gefið út rit um himintunglin í byrjun sextándu aldar hefði hann vafalaust haldið því fram að sólin snerist í kringum jörðina. Við frekari rannsóknir komst hann hinsvegar að öðru og rit um það var ekki gefið út fyrr en sama árið og hann dó, 1543, sjötugur að aldri.
Hjörleifur Guttormsson, sá mikli brautryðjandi og hugsjónamaður, vann mikið afrek með ritum sínum um víðáttumikið hálendi austanverðs landsins. En miðað við umfang verksins var engin leið að ætlast til þess að einn maður kæmist að öllum leyndardómum náttúrunnar á svo stóru svæði. Til þess þurfti að sjálfsögðu ítarlegar, mannfrekar og umfangsmiklar rannsóknir.
Á þeim tíma sem hann gaf út það rit sitt sem fjallaði um Kárahnjúkasvæðið var ekki vitað að Hraukarnir í Kringilsárrana væru einstakt fyrirbæri á heimsvísu. Það lá ekki endanlega fyrir fyrr en eftir ítarlegar rannsóknir í hitteðfyrra.
Það var ekki fyrr en árið 2001 að rannsóknir leiddu í ljós einstætt eðli hjallanna í Hjalladal. Og það var ekki fyrr en tíu dögum áður en byrjað var að sökkva Hjalladal nú í haust sem mér varð ljóst í ljósi upplýsinga heimamanna að Stapasvæðið á botni dalsins væri einstakt.
Þeir sem halda því fram að tuttugu ára gamlar upplýsingar um Kárahnjúkasvæðið skuli gilda en ekki nýrri upplýsingar sem byggjast á ítarlegum rannsóknum margra manna geta alveg eins sagt að sólin snúist í kringum jörðina vegna þess að virtasti stjörnufræðingur heims hélt það árið 1503.
Og þetta sýnir vel þá nauðsyn sem ber til þess að rannsaka loksins íslenska náttúru til hlítar.
Ómar Ragnarsson, 17.2.2007 kl. 20:53
ég get fullvissað þig um það að ég get stoltur látið mín börn eftir þessa uppbyggingu sem hefur orðið hér.
Fjölnota íþróttahús
Sundlaug
Nýir skólar
Nýjir leikskólar
Fullt af atvinnumöguleikum
Fullt af nýrri þjónustu
Mun hærra fasteignaverð
Ekkert var af þessu hér áður svo svei ykkur sem eruð endalaust að rífa niður möguleikanna okkar á að fá að búa við aðstæður sem þið borgarrottur þykja eðlilegar.
Óskar Þór (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 21:36
4.
Þetta er alveg afbragðs svar við alveg eðlilegri athugasemd sem kom fram fyrr.
Og leggur alveg sérstaka áherslu á nauðsyn þess að við leggjum stóraukna áherslu á að rannsaka náttúru Íslands af hinum hæfustu fræðimönnum og konum.
Takk fyrir þetta Ómar
Sævar Helgason, Hafnarfirði (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 21:40
Það eru vond rök að segja að það sem ekki var talið verðmætt áður skuli ævinlega sett undir þann dóm. Staðreyndin sem við öll stöndum frammi fyrir í dag er að við eigum mikil verðmæti í lítt snortinni náttúru landsins.
Við höfum ekki hugmynd um það hve mikil verðmæti það eru af því það hafa svo litlir peningar verið settir í að rannsaka það. Helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið í þessu sambandi hafa verið framkvæmdar í tengslum við umhverfismat þar sem í raun hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að virkja. Það hefur ekki verið pólitískur vilji fyrir því að rannsaka náttúruna með tilliti til verndarsjónarmiða.
Gott dæmi um það hve öfugsnúið þetta er þá vantar einungis um 120 milljónir til að klára að rannsaka verndargildi allra háhitasvæða landsins eða = ein tilraunaborhola. Það er verkefni Náttúrufræðistofnunar að rannsaka verndargildi svæðanna en hins vegar er það Orkustofnun sem sér um að úthluta peningum til verksins. Einhverra hluta vegna er alltaf til peningur fyrir nýrri tilraunaborholu en aldrei til peningur fyrir rannsóknum á verndargildi.
Það eina rétta sem þjóðin getur gert í þessari stöðu er að staldra við, klára að rannsaka náttúru landsins með tilliti til verndagildis, tryggja verndun verðmætra svæða og láta þá niðurstöðu vera okkur vegvísi að nýju landskipulagi. Það þýðir ekki að aldrei megi gera neitt - það tryggir hins vegar að það sem við ákveðum að byggja verður byggt þar sem það skemmir ekki sameiginleg verðmæti þjóðarinnar í nútíð og framtíð.
Þetta hljótum við að geta orðið sammála um.
Ég vil bæta því við til að fyrirbyggja allan misskilning að ég hef fyllstu samúð með því fólki á landsbyggðinni sem vill grípa öll tækifæri sem bjóðast til að efla byggð. Ég er sjálfur alinn upp á landsbyggðinni og veit vel hvernig staðan er víða um land. Það er til skammar að t.d. á Norðurlandi Vestra skuli hagvöxtur hafa verið neikvæður undanfarin ár. Byggðastefna stjórnvalda hafa verið vondir vegir, vont netsamband og fjársveltir framhalds- og háskólar á landsbyggðinni. Fyrir það hljóta stjórnvöld að þurfa að svara í vor.
Alvöru byggðastefna sem felst í að efla samgöngur, tryggja háhraða netsamband um allt land, efla framhaldsskólana, möguleika á háskólanámi og stuðning við atvinnulífið á landsbyggðinni - þetta, samhliða Rammaáætlun um náttúruvernd, væri besta náttúruverndarstefna sem hægt væri að ráðast í eins og staðan er í dag.
Kv. Dofri.
Dofri Hermannsson, 17.2.2007 kl. 21:47
Maður hefur varla undan að klappa fyrir síðasta ræðumanni.
Það er alveg ótrúlegt að rannsóknarmálin skuli vera í gíslingu Orkustofnunnar--- og þó, mjög sennilega viljandi gert af stjórnvöldum til að hafa einokunarvald á náttúruauðlindunum að geðþótta truflanalaust.
Þessu verður að breyta ekki seinna en nú í vor .
Sævar Helgason, Hafnarfirði (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 22:01
Ég gisti gist á Aðalbóli í Jökuldal nokkrar nætur 2005 í júni minnir mig og það sá ekki til sólar allan tíman fyrir leirfoki . Ég hafði nú haft mestar áhyggur af leirfoki úr lónsræðinu Ég held það geti nú ekki orðið verra en það var þarna og ekki var þetta fok virkjuninni að kenna. Ég verð ekki hissa þegar ég sé fréttir í framtíðinni af þessu skelfilaga leirfoki sem virkjunin veldur. Ég hef ekki séð neinar fréttir af því leirfoki sem er nú þegar til staðar og er það nú ekkert lítið
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 17.2.2007 kl. 23:31
"En á hverju eigum við að lifa"? Þetta virðingarlitla ramakvein hefur lengi verið einhverskonar átthagaljóð þeirra íbúa landsbyggðarinnar sem hvað harðast hafa barist gegn "hinum svokölluðu umhverfissinnum", eins og landverndarmenn eru venjulega nefndir. Vandi landsbyggðarinnar er að miklu leyti heimatilbúinn, Hann felst í þeirri óskiljanlegu þrælslund fólksins sem þar býr að kjósa böðla sína til setu á löggjafarþingi okkar. Á sama tíma og sjávarþorpunum blæðir út raka saman milljörðum þeir lukkuriddarar sem hafa fengið upp í hendurnar stærstu auðlind þjóðarinnar og eru að tortíma henni með vísindalegri ráðgjöf að yfirvarpi. Það er enginn þjóðarharmur þótt fjölskylda í afskekktu sjávarþorpi yfirgefi heimabyggð sína og flytjist á Stór-Reykjavíkursvæðið; til þess geta margar ástæður legið. Það er hinsvegar glæpur í öllum skilningi að svipta fólk réttinum til lífsbjargar með beinum stjórnsýsluaðgerðum. Folkið sem býr við tilvistarkreppu af þeim toga tekur í örvæntingarfullum fögnuði við hverju því sem leysir atvinnuástandið. Þetta vita stjórnvöld og nýta sér út í æsar. En hugarfarið að baki slíkum óþverraskap er mér að sönnu óskiljanlegt og hefur lengi verið.
Líkur benda til þess að innan skamms tíma verðum við neydd til að hverfa frá notkun botnvörpunnar. Liðsmenn sægreifanna í stjórnsýslu okkar hafa ákveðið að móast við og fella það undir sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. En hversu mikið gætum við minnkað olíunotkun og þar með losun ósoneyðandi efna ef við færðum aflaheimildir til smærri fiskibáta?
Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 00:12
Áhugi Ómars á Íslenskri náttúru og kærleikur hans til hennar er frábær og ekki hægt að afgreiða það sem "öfgamennsku!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.2.2007 kl. 00:35
Á Reykarvíkursvæðinu er búið að byggja igildi þriggja Kárahnjúkjavirkjanna og ruðst yfir hverja náttúruperluna á fætur annari Sjálfsagt mál. Það er auðvelt að taka eftir flísinni í auga náungans en sjá ekki bjálkann í sínu eigin.
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 18.2.2007 kl. 07:51
"Til vesturs sjáum við sandflæmin norður af bogadregnum Dyngjujökli, þar sem Jökulsá (á Fjöllum) rennur undan jökli á einum 10 stöðum. Aðeins austustu kvíslarnar ná að jafnaði óslitið farvegi árinnar við Vaðöldu, hinar hverfa fljótlega niður í gljúpan sandinn og hraunin undir honum, þar sem tugir metra eru niður á jarðvatn. Hér þornar jökulleirinn mjög fljótt og þyrlast upp strax og hreyfir vind. Í vestanátt stendur misturstrókurinn upp af þessu svæði, hækkandi og breikkandi til austurs og tekur fyrir allt útsýni, en sandurinn fýkur eins og kóf með jörð og pússar og fágar allt sem fyrir verður." (úr árbók FÍ 1987 eftir Hjörleif)
Er það vegna þessa leirfoks sem stundum er ekki hægt að hengja upp þvott á Egilsstöðum ? Mér skilst að upptök Jökulsár á Fjöllum sé 50 kílómetrum vestar en Jökulsá á Brú.
Í bókinni er kafli sem heitir Sauðafell og Kringilsárrani. Þar er minnst á fjölbreyttar jökulminjar, þykkan jarðveg og griðland hreindýra. Þar er mynd : Við Hrauka í Kringilsárrana.
Það er hægt að kaupa eldri árbækur fyrir lítið hjá fornbókasölum.
Pétur Þorleifsson , 18.2.2007 kl. 10:23
Áfram Ómar Ragnarsson!
Enginn íslendingur hefur fjallað af meiri nærgætni og lipurð um landið okkar og menningu þess en Ómar.
Haltu þessu áfram Ómar og þjóðin mun á endanum skilja hvað er í húfi og jafnframt átta sig á hvursu þú er langt á undan þínum samferðamönnum.
Birgir
Birgir Ingvarsson (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 12:25
Talað er um að Hjörleifur Guttormsson sé fróðastur manna um náttúru austurlands og ég dreg það ekki í efa. Eftir náttúrufræðinginn Hjörleif liggur mikið safn og fróðlegt ritsafna og bóka um málefnið Hann er stofnandi Náttúrverndarsamtaka Austurlands (NAUST). Hann hefur farið um flestar koppagrundir, lýst þeim nákvæmlega í máli og myndum og á lof skilið fyrir það. En það kemur mér spánskt fyrir sjónir að fræðimaðurinn Hjörleifur skuli ekki hafi skynjað náttúruna með sama hætti fyrir 20 árum og nú. Það er stundum talað um að þegar ráðamenn í þjóðfélaginu hafi setið lengi í valdastóli þá fari valdaþreyta að gera vart við sig. Ég hef það á tilfinningunni að núverandi stjórnarandstaða þjáist af "stjórnarandstöðuþreytu". Það er eðli stjórnarandstöðu að draga sem dekksta mynd upp af ástandi mála en þegar málefnaþurðin og tilvistarkreppan nær svona heljartökum á stjórnmálamönnum þá grípa þeir gjarnan til örþrifaráða. Þeir hafa fundið málefni sem auðvelt er að matreiða með huglægu mati, (umhverfismál) því erfitt hefur reynst þeim að kvarta yfir sívaxandi kaupmætti. Ráðstöfunartekjur og kjör launafólks hefur gjarnan verið eyrnamerkt vinstriflokkunum, en þau tromp hafa verið slegin úr höndum þeirra. Frjálslindi flokkurin reynir að fylgja með af veikum mætti til að vera með í geiminu. Ég tek ofan fyrir V-Grænum, þeir eru samkvæmir sjálfum sér, eru bara á móti öllu, en hljómurinn í Samfylkingunni er holur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.2.2007 kl. 17:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.