Eílíft deilumál með setningunni: "Hinir hljóta þá að vera góðir".

Landsliðsþjálfarar þurfa að velja liðsheild, sem smellur saman og það er mikilvægara atriði heldur en geta hvers og eins leikmanns, rétt eins og að þegar valið er í söngkvartett eru það ekki endilega bestu einsöngvararnir sem gefa bestu heildarútkomuna.

Ég hef stundum sagt það í hálfkæringi að svonefndur Einsöngvarakvartett sem bestu söngvarar Íslands skipuðu hafi verið með lélegri kvartettum sem hér hafa komið fram.  

Þegar "sjóðheitir" og "firnagóðir" knattspyrnumenn eða handboltamenn lenda utangarðs hjá landsliðsþjálfara kann oft að vera hægt að rökstyðja það með því að þeir passi ekki inn í viðkomandi liðsheild, en stundum er það samt umdeilanlegt og jafnvel rangt eftir atvikum.

Enga algilda reglu er hægt að gefa um þetta.  

Skömmu eftir að Albert Guðmundsson var kominn heim til Íslands eftir að hafa verið einn allra besti og frægasti sóknarknattspyrnumaður í Evrópu, var hann ekki valinn í landslið gegn Frökkum. Undruðust Frakkar það mjög og sögðu, að Íslendingar hlytu að hafa á að skipa áður óþekktum afburðamönnum, fyrst Albert kæmist ekki í hópinn.

Frakkarnir burstu síðan okkur með hárri markatölu og fáheyrðum markamun en spurningunni um það hvort betra hefði verið að hafa Albert með eða ekki með verður engu að síður líklega aldrei svarað.

Í landsleik við Dani 1955 voru bæði Albert og Ríkarður Jónsson í liðinu en það landslið náði engan veginn saman og tapaði illa, 0:4.

Síðan tók Reykjavíkurúrval upp á því að vinna danska landslðiðið verðskuldað, 5:2 !

Í lok sjöunda áratugarins var ákveðið að skipta nær algerlega um landsliðshóp í handbolta. Þá hafði Gunnlaugur Hjálmarsson verið burðarás í landsliðinu og einn besti leikmaður og markaskorari Íslands.

Valið vakti harðar deilur og sagt var að nýliðarnir hlytu að vera góðir fyrst sjálfur Gunnlaugur Hjálmarsson kæmist í ekki í hópinn.

Í þetta skiptið virðist breytingin hafa verið rétt, því að nýi landsliðshópurinn fór á kostum og burstaði meðal annars Dani 15:10 og enda þótt reglurnar hafi verið öðruvísi þá en nú og mörkin því færri, var það fáheyrt að danska handboltalandsliðið skoraði svona fá mörk.

Þessi nýi landsliðshópur skipaði síðan hryggjarstykkið í landsliðinu í vel á annan áratug og mjög litlu munaði að hann kæmist í undanúrslit á Ólympíuleikum.  


mbl.is Íslendingar hljóta að vera góðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég tjái mig ekki um íþróttir, en er innilega sammála um Einsöngvarakvartettinn.  Lélegasti samsöngur sem ég heyri er þegar þeir koma saman Plácido Domingo, José Carreras og Luciano Pavarotti.  Jafn frábærir og þeir eru hver fyrir sig er alger hörmung að hlusta á þá keppa um hver syngur hæst.

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 10.9.2012 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband