Varasöm tíska, - hvar endar þetta?

Á tengdri frétt um nýjasta Ford-jepplinginn EcoSport getur að líta enn eitt dæmið um það hvernig gluggar bíla verða æ hærri og minni og vélarhlífarnar hærri og hærri og framgluggarnir flatari. 630357[2]

Augljóst er að æ erfiðara er að sjá út úr þessum bílum, en sæmilegt útsýni er mikið öryggisatriði.

Látum vera þótt afturgluggar séu orðnar rifur einar á sumum bílum og nær ekkert sjáist til hliðar aftur úr þeim.

En háu vélarhlífarnar beinlínis byrgja fyrir útsýni framávið sem er mikilsvert atriði, ekki hvað síst þegar lagt er í stæði. Sjáið þið þennan "flotta" bíl hér fyrir ofan. Hvernig á lágvaxinn bílstjóri að sjá neitt út um framgluggann? Eða nokkurn skapaðan hlut út úr Invicta sportbílnum hér fyrir neðan? Invicta_Silver[1]

Fyrsti bíllinn sem ég man eftir að væri með svona vélarhlíf, sem var höfð hærri bara til þess eins og bíllinn sýndist verklegri, var fyrsta gerðin af Land Rover Freelander.

Húddið var hátt og kassalaga, en þegar vélarhlífinni var lyft upp og horft ofan í vélarsalinn, var fet frá henni niður á vélina og húddið því feti hærra en það þurfti að vera.

Síðan virðist þetta hafa versnað og versnað.

Ef ég væri áhrifamaður í evrópusamtökunum, sem standa að því að gefa bílum stjörnur fyrir öryggi, myndi ég bæta útsýni við í sambandi við einkunnagjöfina.

Megindrættir sögu bílatískunnar benda þó til að hámarki hljóti að verða náð í þessari vitleysu og þá verði aftur "in" að hafa gluggana stóra og útsýnið gott.

Fram til 1935 voru bílar með stóra glugga, en þá dundi yfir tíska þar sem gluggarnir urðu sem allra minnstir, húddin hærri og verra að sjá út úr bílnum.

Sú tíska réði ríkjum til 1949 en þá fóru gluggarnir að stækka á ný og tískan varð svo ágeng á tímabili, að umboðin auglýstu útsýnið í prósentum, allt upp í yfir 90% af sjóndeildarhringnum.

Og það var einnig auglýst sérstaklega að bílstjórinn gæti séð öll hornin á bílnum og vitað nákvæmlega hvar þau væru.  Nú er þetta orðið að illgerlegri ágiskun.

Undir 1970 fór af stað sú tískubylgja í Ameríku að vélarhús bílanna yrðu sem allra lengst.

Helga, konan mín, varð illilega vör við þetta þegar hún ók AMC Eagle aldrifsbíl, árgerð 1981, fyrir kvikmyndatöku yfir eina af ánum á Landmannaleið. IMG_5410

Henni fannst hún sitja svo lágt í bílnum og húddið vera svo langt að erfitt væri að aka sjá almennilega út, enda mikil viðbrigði fyrir hana að koma úr Jiimny jeppanum hennar, sem sést fyrir aftan "Örninn"þessum myndum. IMG_5409

Þær voru teknar á leið upp Pokahrygg í Hrafntinnusker . Þarna er tignarlegt útsýni til norðurs í átt að Löðmundi og Löðmundarvatni.  

Þó er þetta aðeins hátíð í þessum bíl miðað við suma löngu framendana á amerískum bílum á þessu tímabili.

Á síðasta áratug 20. aldarinnar fóru gluggarnir síðan að minnka jafnt og þétt og að verða æ erfiðara að sjá fram úr bílnum. Chrysler var meðal þeirra sem voru í fararbroddi með "forward cab" tísku sinni, sem var rangnefni og blekking, - framsætin voru látin sýnast vera framar en þau voru með því að teygja framrúðuna miklu lengra fram en áður var.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki bara það, heldur er líka orðið vandamál bæði á óbreyttum og breyttum jeppum og jepplingum hvað framljósin eru orðin hátt sett á bílnum. Það er orðið stórhættulegt að mæta þessum fyrirbærum sem lýsa með þúsundum lúmena halogen perum beint í augu þess sem kemur á móti.

Það er svo sannarlega margt sem betur mætti fara í hönnun farartækja þessa dagana.

Þór Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.9.2012 kl. 11:56

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessi færsla ljósanna er tískufyrirbæri og ekkert annað. Sá sem getur lagt ljósin sem efst og aftast að framrúðunni og teygt framrúðuna sem mest fram er flottastur. Bráðum kemur að því að ljósin og rúðan rekast hvort á annað þarna uppi!

Afturhallandi ljósin á Volkswagen Bjöllunni þótti í upphafi afar flott en árið 1968 þóttu þau svo hallærisleg þegar framhallandi ljós þóttu flottust, að framleiðendur Bjöllunnar neyddust til að reis ljósin upp og láta þau standa lóðrétt.

Um 2000 var síðan komin til baka tískan með afturhallandi ljósin en aumingja Bjallan sat uppi með lóðréttu ljósin sem nú þóttu ferlega hallærisleg.

Hvílíkur fíflagangur!  

Ómar Ragnarsson, 10.9.2012 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband