Tvær auðlindir í sátt: Skógurinn og útsýnið.

Gríðarlegt verk er óunnið við það að endurheimta skóg- og kjarrlendi Íslands. Verkefnin eru svo umfangsmikil og úr svo miklu að velja, að það ætti að vera hægt að láta skóg vaxa upp án þess að það skerði aðra auðlind landsins, sem er hið mikla og stórbrotna útsýni sem víða er.

Þessar tvær auðlindir, skógurinn og útsýnið, þurfa að vera í skynsamlegri sátt. IMG_4760

En staðbundnar aðstæður hljóta að ráða mestu og sem dæmi um það að stuðla þurfi að endurheimt eðlilegra landgæða, hefur verið afnám sauðfjárbeitar á svæðinu Almenningar-Þórsmörk-Goðaland þar sem mikil jarðvegseyðing ógnaði gróðurfari svæðisins.  

Nú er verið að koma sauðfjárbeit inn á þetta svæði á nýjan leik og þar með ógnað þeirri gróðurframför sem þarna var byrjuð eftir slæma útreið, sem landið fékk vegna beitarágangs.  

Á hinn bóginn þarf sums staðar að gæta að því að sérstætt landslag sé ekki kaffært í skógi, svo sem falleg austurhlíð ofanverðs Norðurárdals í Borgarfirði, þar sem er nokkurs konar tröppulandslag með hvert lága hamrabeltið upp af öðru.

Hávaxinn skógur á þessu svæði myndi kaffæra þetta fallega landslag.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er ákvæði um að endurheimta landgæði, en spyrja má hvort ekki eigi frekar að endurheimta hinn náttúrulega skógargróður á Íslandi, birki, reyni og víði frekar en að dúndra háum barrskógum niður hvar sem vera skal í fullkomni stjórnleysi.

Í sumum tilfellum þarf að huga að því að fallegar kirkjur og hús séu ekki hulin með skógi, eins og nú sést að er að gerast sums staðar úti á landi.

Á þeirri öld, sem helga skyldi sjálfbærri þróun og jafnrétti kynslóðanna ber þó að hafa í huga að skógrækt er afar afturkræf framkvæmd. Það er einfaldlega hægt að breyta til baka með því að höggva skóginn.

En æskilegast væri að meiri lagaleg festa væri á þessum málum svo að skógræktarstarfið nýtist sem best í stað þess að þar ríki sú óreiða sem veður svo víða uppi hjá okkur.   


mbl.is Skógrækt á láglendi ekki settar skorður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þakka þér Ómar fyrir góða hugvekju.

Birkiskógaleifarnar þekja um 1% landsins. Í heila öld hefur skógrækt verið stunduð sem skilað hefur af sér afköstum þannig að um 35.000 ha eða 0.35% landsins hefur verið klætt skógi! Þetta eru lítil afköst í samanburði við Skota en fyrir öld sátu þeir einnig uppi með þá staðreynd að þeir höfðu einnig um 1% lands þakið skógi. Árið 1919 stofnuðu þeir Forest community sem er n.k. Skógrækt ríkisins þeirra. Markmiðið var að endurheimta þá skóga sem eyðst höfðu í styrjöldum í kjölfar iðnbyltingarinnar. Nú er svo komið að nálægt 20% Skotlands er í dag þakið skógi en stefnt er að 25% verði þakið skógi ekki síðar en um miðja þessa öld.

Við getum margt lært af Skotum hvað skógrækt varðar. Í Skotlandi vaxa tegundir sem við ættum að geta ræktað hér t.d. harðgerð kvæmi af skógarfuru, beyki og jafnvel eik sem talin er vera ein verðmætasta trjátegund.

Fyrir nokrum árum kom eg á stað þar sem er hávaxnasta skjólbelti Skotlands. Þeir gerðu sér snemma grein fyrir að unnt væri að nota skóg til skjóls t.d. vegna umferðaröryggis. Þetta skjólbelti er um 35 metra hátt í dag og þar sem áður gnauði vindur er nánast alltaf logn.

Svona lagað væri æskilegt að koma upp á vindasömum stöðum á ýmsum varhugaverðum stöðum hér á landi, kannski ekki með sömu trjátegunduum en greni, ösp, víði og birki: Á Snæfellsnesi, undir Hafnarfjalli, Esju, Eyjafjöllum, Öræfum og í Hamarsfirði þar sem ótrúlegur hættulegur vindstrengur sem oft hefur valdið vandræðum.

Þessi skjólbelti þyrftu að vera 100-200 metrar á breidd en ekki kannski 3-4 raðir eins og plantað var undir Hafnarfjalli í leirár- og Melasveit. Sem stendur er það skjólbelti nánast einskis virði og hefur lítið gildi.

Skógrækt er gagnsöm. Eg gæti ritað langt mál um þessi mál og miðlað af reynslu minni bæði sem áhugamaður um skógrækt og eins sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna.

Einu sinni var eg á ferð með þýska ferðamenn um Skaftáreldahraun. Við áðum við tilraunareit Guðmundar Sveinssonar bílsstjóra frá Vík nokkru vestan við afleggjarann upp í Laka. Þessi reitur er um hálfrar 4 áratugs gamall. Trén eru farin að sá sér og eránægjulegt að sjá afkvæmin víða. Einn ferðalangurinn snéri sér að mér, benti mér á eitt þessu ungu trjáplantna, kvað Íslendinga gefa þessu betur gaum og auka skógrækt á þessu svæði. Þetta gríðarlega hraun færir ykkur Íslendingum engar góðar minningar en þið gætuð haft eitthvert meira gagn að þessu landi en nú er ef stuðlað væri að skógrækt á þessu gamla hrauni sem allt bendir til að geti vaxið góður og verðmætur skógur.

Þessi máður var starfandi í einu ráðuneytanna í Berlín og sá gjörla góða möguleika á eflingu atvinnu í þessu héraði.

Því miður eru allt of margir Íslendingar allt of bundnir við þá hugmynd að ál sé eini raunhæfi vaxtarbroddur atvinnulífs á Íslandi. Skógrækt hefur ótrúlega marga kosti. Meðan við sofum vex skógurinn.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 10.9.2012 kl. 17:38

2 identicon

Sæll

Áhugaverð færsla en ég sakna fleiri áhrifaþátta á takmörkun skógræktar en bara útsýnis t.d. áhrif á fuglalíf.

Hálfdán Helgason (IP-tala skráð) 10.9.2012 kl. 17:47

3 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Varðar: „að dúndra háum barrskógum niður hvar sem vera skal í fullkomni stjórnleysi“. Ég kannast ekki við þetta „fullkomna stjórnleysi“ sem fullyrt er að hér viðgangist í vali á skógræktarlandi.  Þvert á móti er þorri allrar nýskógræktar á landinu vandlega skipulagður, m.a. með landslagsverðmæti að leiðarljósi (Sjá nánar: „Skógrækt í sátt við umhverfið“).

Einnig gæti verið hollt að kynna sér nýlegar umræður á öðrum vettvangi um sama mál. Í þeirri umræðu birtist m.a. í heilu lagi grein eftir Freystein heitinn Sigurðsson, jarðfræðing og um langt skeið varaformann Landverndar sem vert er að gefa gaum (Freysteinn Sigurðsson. 2000. Sess skógræktar á Íslandi. Skógræktarritið 2000 (1. tbl.): 118-130.).

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 10.9.2012 kl. 23:57

4 identicon

Áhugavert með skotana guðjón, það má eflaust læra margt af þeim og skjólbeltahugmyndir eru góðar, en hins vegar fór það smá í taugarnar á mér í sumar þegar ég var þarna í sumar þegar þétt stórvaxin tré meðfram vegum blokkeruðu útsýni mitt til fagurra fjalla og vatna. (Þau ollu því t.d.líka að ég náði ekki mynd útum rútuglugga af kastalanum sem Monty Python notuðu í Holy Grail) ,  mér sýndist skotarnir hafa þá stefnu að gróðursetja tré ekki á heiðunum sem ég sá, þær skyldu vera heiðar. Ég lét annars nýlega smá asparröð meðfram þjóðveginum austan við Hellu minnir mig, fara í taugarnar á mér af því að hún blokkeraði útsýni mitt til Heklu í 5-10 sekúndur. Þannig að ég vara við skerðingu á útsýni þó ég sé allur fyrir skógrækt, staðsetning og þéttleiki og hæð trjáa er e-ð sem þarf að huga að.

Ari Egilsson (IP-tala skráð) 11.9.2012 kl. 01:17

5 identicon

Spurningin er: -Við hvaða landgæði viljum við búa?

Skafrenningur og sviptivindar á þjóðvegum neðan skógarmarka er ekki náttúrulögmál heldur val samfélagsins!

Markviss „samgönguskógrækt“ er sennilega eitt brýnasta samgöngumál landsmanna og þekking og fjármagn er til staðar þar sem þetta er hvorki ýkja flókið né dýrt. Samgönguskógrækt er farin að skila arði á ¼ þess tíma sem tekur að fá vinnanlegan borðvið úr skógunum og arðsemin er því veruleg. Auðvitað verður að sjá til þess að skógurinn fari vel í landinu en skógur sem hefur það hlutverk að drepa niður skafrenning og koma í veg fyrir snjósöfnun á vegum þarf ekki að ná inná hefðbundin veghelgunarsvæði þar sem snjósöfnunin í skágarskjólinu á að vera hæfilega langt frá vegi. Skjólskógur á sviptivindasömum svæðum þarf hinsvegar að vera sem næst vegi en þó það breiður að skjól sé tryggt.

Það ætti fyrir löngu að vera búið að skýla vegunum undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi og undir Ingólfsfjalli með metnaðarfullri skógrækt. Lélegt ástand gróðurs og ábyrgðarlaust búfjárhald hefur ekki einungis kostað mannslíf með beinum hætti vegna árekstra og útafaksturs, heldur veldur beitarberangrið því að hér er vindasamara en væri með eðlilegri skógarþekju.

Skógrækt Ríkisins og Bændaskógar ættu fyrst og fremst að takast á við skógrækt sem bætir samgöngur og þar með almenn lífskilyrði.

Hugsið ykkur ef Vegagerðin hefði gengið að 25 ára gömlu tilboði Skógræktarinnar um markvissa samgönguskógrækt í Víkurskarði sem stöðvað hefði skafrenning og mesta kófið á þessum ljómandi góða vegi. –Þá væri ekki verið að sóa fé í jarðgöng til að leysa af hólmi greiðfæran láglendisveg sem allur er neðan skógarmarka!

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 11.9.2012 kl. 09:16

6 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Ert þú að vísa til Doune-kastala, Ari?
"The British comedy film Monty Python and the Holy Grail, a parody of the legends of King Arthur by the Monty Python team, was filmed on location in Scotland in 1974. The film's producers had gained permission from the National Trust for Scotland to film scenes at several of their Scottish castles, as well as the permission of Lord Moray to film at Doune Castle. However, the National Trust later withdrew their permission, leaving the producers with little time to find new locations. Instead, they decided to use different parts of Doune Castle to depict the various fictional castles in the film, relying on tight framing of shots to maintain the illusion."

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 11.9.2012 kl. 22:41

7 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Frá Inverness  í skosku hálöndunum liggur forn þjóðvegur til suðvesturs, meðfram vesturbakka Loch Ness (sem er dýpsta og annað stærsta stöðuvatn Skotlands; þýð.: Höfðavatn), framhjá Urquhart-kastala. Þar var áður mikilfenglegt útsýni yfir Loch Ness, fjöllin, til kastalans og (stundum) til fornaldarskrýmslisins sem sagan segir að búi í stöðuvatninu. Í dag er erfitt að njóta útsýnis að öðru en trjám. Ástæða þess að útsýnið er að miklu leyti horfið er ekki vegna skógræktar  eða skógræktarmanna (þ.e., að menn hafi gróðursett tré). Ástæðan er fremur sú að þéttur, sjálfgróinn skógur innlendra trjátegunda (af eik, birki og fleiri lauftrjám) hefur náð að skjóta rótum á bökkum vatnsins.  Vegna strangra verndarákvæða um umgengni við bakka vatnsins  er næstu ógjörningur að fá leyfi hjá yfirvalda (Scottish Natural Heritage) til þess að nýta skóginn og fjarlægja sjálfsprottin trén af bökkum vatnsins.

Það er misskilningur hjá Ara að Skotar hafi markað „stefnu um að gróðursetja ekki tré á heiðunum“. Þvert á móti stefnir skoska heimastjórnin að því að auka hlut skóglendis á allra næstu áratugum úr núverandi 17% í 25%. Sú aukning skóga á einkum að eiga sér  stað á beitilyngheiðum, enda fátt annað skóglaust land í boði á Skotlandi. Til samanburðar hafa íslensk stjórnvöld markað stefnu í lögum um landshlutaverkefni í skógrækt, að tvöfalda flatarmál skóglendis á Íslandi úr 1% í 2% á næstu áratugum. Það eru nú öll ósköpin.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 11.9.2012 kl. 23:15

8 identicon

Doune var það heillin. Takk f. fróðleikinn annars. Vona að þeir reyni að hafa opin svæði og velja eftir útsýnismöguleikum bara Skotarnir, þeir verða að hafa eitthvað útsýni.

Ari (IP-tala skráð) 13.9.2012 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband