10.9.2012 | 17:29
Útlitið skiptir máli.
Það er sama hversu mjög vildu að útlitið skipti ekki máli, þá er það samt svo að það skiptir máli og að þetta lögmál er nokkurn veginn algilt um flest fyrirbæri, sem menn sjá, allt frá smáhlutum til andlita á fólki.
Þegar Bubbi játar hreinskilnislega að vera dálítið hégómlegur varðandi útlit sitt þá er hann einfaldlega að segja, að ekki sé skynsamlegt að rísa gegn jafn áhrifamiklu lögmáli og áhrifum, sem augun okkar verða fyrir.
"...Mikið líturðu vel út, baby, / frábært hár.." er sungið í lagi Ragnhildar Gísladóttur og þetta lýsir því vel hvað gott útlit getur haft jákvæð áhrif og þar með því líka hvað ljótt útlit getur haft slæm áhrif.
En með útlitinu er ekki alltaf verið að sækjast eftir ímynd fegurðar. Þegar karlar eiga í hlut getur í sumum tilfellum verið talið æskilegt að viðkomandi sé "töff" í útliti og útlitið það gróft að það jaðri við að vera ljótt.
Er þá stundum talað um að viðkomandi sé "sætljótur."
Ég þekki flugstjóra einn sem varð snemma settur svipmiklum hrukkum og var talað um að þetta grófa útlit hans heillaði margar konur svo mjög að þær "fengju í hnén" við að sjá hann.
Ég er ekki viss um að það sé rétt mat hjá Bubba að hrukkur á andliti hans séu neikvæðar. Þvert á móti kann að vera líklegt að hann virki meira töff með hæfilega mikið af þeim.
Sum fyrirbæri eru nefnilega þannig að það getur verið partur af sjarma þeirra að útlitið sé frekar haft sérkennilegt og lýsandi heldur en að það sé fegurðin ein.
Helsti hönnuður Citroen verksmiðjanna sagði víst einhvern tíma að hans mat á fegurð mótaðist af notagildi. Þannig teldi hann til dæmis að skiptilykill væri einhver fegurasta hönnun allra tíma, - engin lína í þessu verkfæri hefði annað hlutverk en að auka notagildi og gagn.
Þetta átti við um Citroen braggann en þó var það svo að í fyrstu gerðum hans var það niðurstaðan að hann væri einum of ljótur. Til að létta bílinn en halda styrkleikanum var hann með riffluðum flötum og aðeins einu ökuljósi og firna ljótur. Í ljós kom á sölutölum og umtali að þarna var einum of langt gengið.
Fór Bragginn því í smá fegrunaraðgerð og þegar frá leið gerði útlit hans ekkert annað en að örva sölu hans og frægð fyrir fádæma nýtni og hámark naumhyggjunnar.
Tilraunir til að fara út í nýtískulegar og frumlegar línur í skyldum bílum sem komu fram seinna runnu út í sandinn og Citroen Ami er af mörgum talinn einhver ljótasti bíll sem hannaður hefur verið enda seldist hann illa.
Já, útlitið skiptir máli. Í umræðum í norska sjónvarpinu daginn fyrir kosningar á áttunda áratugnum var einn stjórnmálaforinginn með afar sterklitað og skræpótt hálsbindi.
Sagt var að það hefði nægt til að fella stjórnina, sem hann sat í, því að flokkur hans var talinn hafa beðið afhroð meðal annars vegna þess að hálsbindið dró alla athyglina á norskum heimilum frá því sem maðurinn sagði.
Á þeim tíma sátu nógu margir fyrir framan hvert sjónvarpstæki til þess að það nægði að aðeins ein manneskja færi að tala um hálsbindið fræga til þess að trufla athyglina á því sem maðurinn var að segja.
P. S. Það er viss léttir á þessum tímum, þegar bílatískan er þannig að margir nýjustu bílanna eru beinlínis ljótir frá vissum sjónarhornum, að sjá að mínum dómi fallega og stílhreina hönnun nýja Peugeot 208 bílsins. Til skoða myndina af þeim betur má benda á þann möguleika að smella tvisvar í röð á myndina til að stækka hana.
Bubbi notar hrukkustraujárnið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gúanópönkarar eru ekki hégómlegir varðandi hrukkur. Sýnir e.t.v. hve Bubbi er kominn langt frá uppruna sínum.
Hann latti ungt fólk sem var í sjónvarpsþætti hans, "Bandið hans Bubba", til að taka þátt í júróvision og sagðist aldrei leggjast svo lágt... en tók svo þátt sjálfur.
Hann sagðist aldrei myndi hann leika í auglýsingum fyrir kapitalistanna en söng svo einn hallærislegasta lofgjörðartexta (um Hagkaup) í sjónvarpsauglýsingu sem heyrst hefur.
Hann segir eitt í dag og annað á morgun varðandi pólitík.
Hann veður úr einu í annað í músíkinni og aðdáendur hans virðast halda að hann sé að finna upp hjólið í hvert sinn.
Hann snýst svo hratt í hringi að maður verður bara hálf ringlaður
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.9.2012 kl. 17:42
Hrukkujárn......? Hvort sem er Kjós eða Hvos........Citroen eða Bubbi.......Ómar eða bílar
"We all like to stay pretty;-).....................
Halldór Egill Guðnason, 10.9.2012 kl. 20:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.