13.9.2012 | 10:37
Merkur frumherji, - á undan samtíð sinni.
1992 fór Hjörleifur Guttormsson á eigin kostnað til Ríó de Janero til að vera viðstaddur hina merku umhverfisráðstefnu þar sem umhverfisráðherra Íslands undirritaði Ríósáttmálann svonefnda.
Svipað hefur hann gert við önnur hliðstæð tækifæri.
Í Ríó var meðal sett fram krafan um sjálfbæra þróun og að náttúran nyti vafans þegar um aðgerðir manna væri að ræða.
Skemmst er frá því að segja að hvort tveggja höfum við Íslendingar brotið alla tíð síðan og gerum enn.
Mörgum árum fyrir Ríóráðstefnuna hafði Hjörleifur verið langt á undan samtíð sinni með því að fara til Noregs og kynna sér ný viðhorf þar og aðferðir við að nýta landgæði.
Hjörleifur barðist ötullega fyrir þessum málum árum saman og mætti oftast miklu skilningsleysi þótt dropinn holaði smám saman steininn. Það gerðist þó allt of hægt, þrátt fyrir hetjulega baráttu hans, og enn er langt í land.
Ef Hjörleifur hefði fengið hljómgrunn hefði rammaáætlun um nýtingu landsins verið lögfest minnst áratug fyrr en gert var og allar rannsóknir, umræða og þekking verið á allt öðru plani en varð.
Þegar farið er yfir hið mikla og merka ævistarf Hjörleifs varðandi umhverfismál og varðveislu náttúru Íslands bæði á þingi og í almennri umræðu, bækur hans, stórvirki um íslenska náttúru og linnulausa baráttu hans á þessu sviði, dylst ekki að hann var langt á undan samtíð sinni og meðal allra merkustu frumherja í umhverfis- og náttúruverndarmálum.
Það hefur verið tíðkað af of mörgum að reyna að gera sem minnst úr Hjörleifi með því að gera stöðu hans í vinstra-hægra litrófi íslenskra stjórnmála að aðalatriði og að hjóla að því leyti í manninn en ekki málin þegar hann hefur borið fram hugsjónir sínar.
Þessi ómálefnalega aðferð hefur verið í samræmi við fræga lýsingu Nóbelskáldsins okkar á því hvernig okkur Íslendingum hefur verið tamt að gera aukaatriði að aðalatriðum og drepa málum á dreif þegar fjallað hefur verið um stórmál í þjóðmálaumræðunni.
Þá gleymist það að varðandi mat á einstæðri náttúru Íslands á Hjörleifur mörg skoðanasystkin í öllum flokkum og að þessi málefni eiga að vera hafin yfir flokkadrætti og flokkaþras.
Í mínum huga rís Hjörleifur upp úr slíku karpi sem risi á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála hér á landi í marga áratugi, óþreytandi að synda á móti straumnum og hvika ekki frá sannfæringu sinni.
Ég hneigi mig djúpt fyrir Hjörleifi Guttormssyni og bið fólk um að meta verk hans og brautryðjendastarf að verðleikum.
Umhverfi jarðar og ósjálfbært efnahagskerfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir hvert orð. Hjörleifur Guttormsson á allt gott skilið. Snemma á stjórnmálaferli sínum mátti hann sitja undir háði og sífelldri gagnrýni sem oft var ómakleg og ósanngjörn. Sem gamall kennari hefur Hjörleifur viljað vanda sitt mál og hefur stundum þótt vera fullítarlegur í máli sínu, sókn og vörn fyrir hagsmuni náttúrunnar.
Fyrir um 40 árum eða 1974 kom frá hendi Hjörleifs ritið Vistkreppa eða náttúruvernd, frábært brautryðjendaverk þar sem Íslendingar eignuðust fyrsta ritið um þetta efni á sínu tungumáli, ritað á mjög alþyðlegu og kjarnyrtu máli. Margir urðu klumsa og áttuðu sig ekki á hvaðan á þá stóð veðrið. Sumir hafa jafnvel ekki áttað sig á því enn.
Þegar hagfræðingar og stjórnmálamenn tala um hagvöxt fæ eg gæsahúð. Mér finnst eins og orðið hagvöxtur sé fínt orð eða öllu heldur hugtak yfir rányrkju þ.e. verið að taka meira út úr náttúrunni en hún gefur af sér.
Á miðöldum var gerður greinarmunur á borgaralegum arði og náttúrulegum arði. Borgaralegur arður var leiga af „dauðu fé“ en náttúrulegur arður var það sem náttúran gaf af sér: kornið af akrinum, afurðir af búsmalanum, ávextir og grænmeti sem náttúruan skilaði af sér. Svo var eins og kölski kæmi til skjalanna þegar allt var metið til peninga. Borgaralegi arðurinn varð til. Stundum hafa verið meiri væntingar til arðsemi en sem náttúran getur skilað. T.d. er talið að arðsemi af skógrækt á Íslandi sé milli 3 og 4% á ári en arðsemin skili sér ekki fyrr en áratugir eru liðnir af mikillri fjárfestingu og vinnu. Því er sem hagspekingar hrista höfuðið og segja skógrækt sé eins og hver önnur delluverkefni. Þeir vilja sjá sem mesta arðsemi og þar með hagvöxt.
Er hagvöxtur annað orð yfir rányrkju þegar öllu er á botninn hvolft? Það skyldi þó aldrei vera.
Góðar stundir.
Guðjón Sigþór Jensson, 13.9.2012 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.