16.9.2012 | 09:41
Hið dásamlega móðureyra náttúrunnar.
Fréttin "vaknaði ekki þrátt fyrir grát" á mbl. is er raunveruleg frétt og tengd náttúrunni, sem þessi dagur er helgaður.
Hugtakið frétt er að vissu leyti betur orðað á tungum nágrannaþjóðanna heldur en á íslensku, svo sem orðin "nyheder" eða "news", - eitthvað sem er nýtt og öðruvísi, samanber orðalagið "nú ber eitthvað nýrra við."
Að móðir vakni ekki við grát barns síns er vissulega frétt og ber þar nýrra við. Þó geta verið á henni eðlilegar skýringar.
Einn af þeim eiginleikum, sem náttúran hefur gefið konum, er hið svonefnda "móðureyra", - þessi ofurnæma og ávallt viðbúna heyrn mæðra í vöku og svefni, sem gerir þeim kleift að bregðast við minnstu hreyfingu eða hljóði og tryggja með því öryggi barna sinna.
Þessi eiginleiki getur hins vegar valdið því í sérstökum tilfellum að áreitið, sem lagt er á móðurina og rænir hana nauðsynlegum lágmarkssvefni, verði henni um megn. Að lokum fari þannig að líkami hennar taki í taumana þannig að hún falli í nauðsynlegan djúpan svefn og kannski hefur það verið ástæðan fyrir hinum djúpa svefni móðurinnar, sem lögreglan vakti hjá grátandi barni sínu í nótt.
Helga, kona mín og barnsmóðir, mín hefur alla tíð haft alveg einstaklega næma heyrn og það kom sér vel við uppeldi sjö barna okkar, þegar ég svaf djúpum svefni eftir sviptingasaman og langan vinnudag að safna kröftum fyrir átök morgundagsins, en hún átti iðulega ónæðissama nótt, sífellt að fara fram úr til að sinna þörfum barnanna.
Móðureyrað er einhver dásamlegasta náttúrufyrirbrigði í heimi náttúrunnar sem ég þekki og dáist að, nokkuð sem er gegnumgangandi í dýraríkinu, allt frá minnstu smádýrum til stærstu fíla.
Eitt barna okkar átti á tímabili sérstaklega erfitt nokkurra mánaða gamalt og grét og grét tímum saman án þess að hægt væri að komast að því hvað angraði það.
Það var erfiður tími fyrir okkur og þó einkum móðurina, sem stóð þetta þó af sér þannig að barnið var ætíð umvafið hlýju og umhyggju dag og nótt.
Fyrir mig er þetta viðeigandi umfjöllunarefni á þessum degi, afmælisdegi móður minnar, Jónínu Þorfinnsdóttur, sem hefði orðið níræð í fyrra á fyrsta degi íslenskrar náttúru, hefði hún lifað.
Vaknaði ekki þrátt fyrir grát | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eitt fallegasta blogg fá þér í langan tíma
Sigurður Þorsteinsson, 16.9.2012 kl. 09:57
Fallegt blogg hjá þér Ómar. Innilega til hamingju með afmælisdaginn þinn, afmæisdag móður þinnar og dag Íslenskrar náttúru. Kær kveðja, Sigurður Sigurbjörnsson frá Vígholtsstöðum.
Sigurður Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 16.9.2012 kl. 10:46
Ómar þú ert snillingur og þín fjöskylda, menn eins og þú eru vand fundnir á landi voru.
Sigurður Haraldsson, 16.9.2012 kl. 11:54
Til hamingju með daginn - setti inn nokkrar myndir sem ég tók í sumar af náttúru íslands .
http://skodun.blog.is/blog/skodun/entry/1257847/
Halldór Sigurðsson, 16.9.2012 kl. 12:15
Sammála, þetta er mjög fallegt blogg og hjartnæmt um leið. Ég er ekki vön að segja eitthvað um mig persónulega, en þetta er svo hjartnæmt hjá þér og þú deilir með lesendum úr eigin reynsluheimi, þá ætla ég að gera það sama. Þegar ég var barnshafandi, var ég rosa stressuð að ég myndi aldrei vakna við barnsgrát, vegna þess að ég var þvílík svefnburka og svaf allt af mér, eins og rotuð væri. Mamma sagði mér að það væri innbyggt í konur um leið og þær yrðu mæður að vakna við minnsta hljóð og að ég þyrfti ekki að vera hrædd um að sofa allt af mér. Og þannig var að um leið og ég varð móðir, hvert einasta litla hljóð vakti mig. Magnað hvað náttúran er klár og fullkomin ;))
Um leið vil ég meina að konur þurfi að átta sig á að karlar hafa ekki það sama, þó þeir séu feður. Þeir sofa allt af sér, ok kannski ekki alveg allir og alltaf... og við þurfum að reyna að passa að ergja okkur ekki á því. Vilji konur að pabbarnir sinni börnum sínum á nóttunni, þarf einfaldlega að vekja þá blíðlega og biðja þá um það ;)))
Hjördís Vilhjálmsdóttir, 16.9.2012 kl. 14:05
Þetta blessaða móðureyra getur samt stundum orðið aðeins of næmt. T.d. ef barnið mitt vaknar ekki á sínum "venjulega" tíma á nóttunni þá hrekk ég samt upp því ég er orðin svo vön að vakna þá . Þá sefur stráksi bara enn vært, en mamman vaknar upp.
Rebekka, 16.9.2012 kl. 18:52
Kærar þakkir fyrir góðar kveðjur og athugasemdir.
Ómar Ragnarsson, 16.9.2012 kl. 20:29
Stutt í nýjan dag. Innilega til hamingju með afmælið Ómar
Njörður Helgason, 16.9.2012 kl. 23:36
Feðraeyrun eru ekki slæm heldur :)
DoctorE (IP-tala skráð) 17.9.2012 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.