16.9.2012 | 20:19
Afar mikilvæg verðlaun og tilnefningar.
Verðlaunin tvennu, sem veitt voru á Degi íslenskrar náttúru í undrafallegu haustveðri í dag, er afar mikilvæg og verðlaunahafarnir voru vel þeim komnir í dag.
Vönduð, ítarleg og upplýsandi fjölmiðlun um umhverfis- og náttúruverndarmál verður aldrei ofmetin og er grundvöllur undir því að við göngum vel og af tilhlýðilegri virðingu um einstæða náttúru landsins.
Ég er nýbúinn að blogga um hið gríðarmikla og stanslausa brautryðjendastarf Hjörleifs Guttormssonar, sem langt á undan sinni samtíð hefur ekki hikað við að synda óþreytandi á móti straumnum, knúinn af sannfæringu sinni og hugsjónum á þessu sviði.
Hvað fjölmiðlaverðlaunin snertir er afar mikilvægt þegar ungur fjölmiðlamaður fær bæði viðurkenningu og hvatningu til afreka á sviði fjölmiðlunar við að miðla upplýsingum, sjónarmiðum og skoðunum.
Það hvetur vonandi aðra til þess að feta í hans fótspor.
Þrjár tilnefningar voru vegna fjölmiðlaverðlaunanna og var áreiðanlega erfitt að velja á milli þeirra, - hinar tvær voru Fuglarnir með sína miklu fræðslu og hins vegar magnað afrek hinnar hartnær níræðu Herdísar Þorvaldsdóttur sem var tilbúin til að fórna öllu til að þjóna köllun sinni.
Ég óska þeim öllum, sem nefnd voru í dag vegna þessara verðlauna til hamingju með viðurkeninguna.
Dagurinn var fagur um mestan hluta landsins og þátttakan slík, að gleðilegt er.
Í ljóðinu "Land, þjóð og tunga.." nefnir Snorri Hjartarson þrjú fyrirbæri í rökréttri röð. Þjóðin, fólkið sem nam hér land, hefði lifað annars staðar, hvort sem þetta land hefði verið til eða ekki.
En landið var forsenda þess að þetta fólk nam það og varð að hér að sérstakri þjóð sem varðveitti frumtungu Skandinavísku þjóðanna sem annars hefði glatast, en "ástkæra ylhýra málið" bindur nú þessa þjóð böndum í sem skáldið lýsir með ljóðlínunni "Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein.
Það er hins vegar til marks um það hve langt á eftir þessi mál hafa verið hjá okkur Íslendingum, að Dagur íslenskrar nátturu skyldi ekki vera kominn á dagskrá á undan Degi íslenskrar tungu, heldur fimmtán árum síðar.
Í lok þessa pistils vil ég þakka öllum þeim sem hafa sent mér kveðjur og árnaðaróskir í dag og öllum þeim, sem gerðu hann svo glæsilegan sem raun bar vitni.
Þær árnaðaróskir vil ég flytja alfarið yfir á Dag íslenskrar tungu, sem sannaði gildi sitt svo ekki varð um villst í mikilli þátttöku um allt land.
Rúnar hlaut fjölmiðlaverðlaunin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rúnari Pálmasyni,blaðamanni er óskað til hamingju með verðskulduð verðlaun. En hann er blaðamaður á Morgunblaðinu. Er það ekki einnig mikil viðurkenning og heiður fyrir Morgunblaðið að starfsmaður þess er svona framúrskarandi í verkum sínum ? Mér finnst það.
Sævar Helgason, 16.9.2012 kl. 20:42
Þessi grein er skyldulesning fyrir áhugamenn um orkumál og náttúruvernd.
Greinin sýnir vel þrönga stöðu náttúruverndar og þá undarlegu þversögn að náttúruverndarmaðurinn og náttúrurannsakandinn Hjörleifur Guttormsson gerðist talsmaður þessara náttúruspjalla.
-Enda heitir greinin; -Þá Lilju mun enginn vilja kveði hafa.
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/427089/?item_num=248&dags=1998-10-24
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 17.9.2012 kl. 08:54
Ársritið Fuglar og kvikmynd Herdísar Þorvaldsdóttur, Fjallkonan hrópar á vægð eru athyglisverður óður til náttúru Íslands. Nú þegar ofbeit sumarsins lýkur og farfuglar yfirgefa landið ber okkur að skoða ástands lands. Landið fær vetrarhvíld en að vori upphefst darraðardans.
Án gróins lands þrýfast ekki fuglar á heiðalöndum. Hvernig við skilum landinu til komandi kynslóða er ekki einkamál fárra.
Það fór ekki mikið fyrir Degi íslenskra náttúru en þolinmæðin allar þrautir vinnur.
Sigurður Antonsson, 17.9.2012 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.