17.9.2012 | 15:10
Gróðinn er aðalatriðið, skítt með skaðann.
Fyrir tveimur árum bloggaði ég ítrekað með myndum um það, að íslenskur skipstjóri, sem hefur siglt í marga áratugi um öll heimsins höf sagði í viðtali við blað starfsmanna í álverinu í Straumsvík, að Ísland skæri sig algerlega úr frá öðrum löndum varðandi það, að hér gætu hann og aðrir skipstjórar skolað hverju sem væri fyrir borð, kjölvatni, úrgangi o. s. frv. án þess að eiga á hættu atvinnumissi og jafnvel fangelsi eins og annars staðar við strendur landa.
Þetta vakti engin viðbrögð og þegar Sjónvarpið sagði frá ástandinu í þessum efnum síðar virtist mönnum vera sama.
Í athyglisverðum fyrirlestri sem Anna Karlsdóttir hélt á afmælishátíðarsamkomu Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskólans s. l. föstudag rakti hún með með tölum og skýringarmyndum hvernig umferð og umsvif umhverfis norðurheimskautið fara ört vaxandi með minnkandi ísi, allt frá sprengingu í siglingum skemmtiferðaskipa til siglinga leiðangursskipa og flutningaskipa.
Í lokin taldi hún upp nokkra alþjóðlega sáttmála og samninga um verndun hafsins gegn mengun, sem Íslendingar hefðu ekki samþykkt þótt aðrar þjóðir hefðu gert það.
( Afsakið að vegna tæknilegra mistaka eru myndir frá fyrirlestrinum tvíteknar í tvígang )
Er þetta ekki dæmigert fyrir okkur? Við fögnum því eins og börn þegar forsetinn og aðrir frammámenn lýsa því hvernig Ísland og hafið umhverfis landið verði ígildi Súezskurðar framtíðarinnar og erum byrjuð að fjárfesta í hvers kyns undirbúningi undir að græða sem mest á siglingasprengjunni og olíuvinnslunni en gefum síðan skít í það að reyna að verjast afleiðingunum.
Nær daglega eru fluttar fréttir af fundahöldum og aðgerðum til þess að nýta sér gróðann sem á að vera innan seilingar og í útvarpsumræðunum á dögunum var þetta ofarlega á blaði í ræðum margra þingmanna. Nú síðast í hádegisfréttum í dag var talað um að fjárfesta þyrfti í stórfelldri uppbyggingu vega á Norðausturlandi til þess að við getum grætt á þjónustu við olíuleitina miklu, sem er að bresta á.
Hverjir hafa hagsmuni af því að hér ríki fágætt frelsi og andvaraleysi gagnvart ástandi sjávarins, sem fóstrar hina stóru auðlind? Það eru ýmsir og fyrst koma upp í hugann og skipafélögin og útgerðarmenn sem hafa mikil áhrif.
Því miður hefur náttúruverndarbaráttan verið svo miskunnarlaus á landi, að mestöll orkan til viðnáms við hernaðinum gegn náttúruverðmætum hefur beinst að landinu en ekki náð lengra en til strandarinnar.
Þetta er svo grunnmúrað að Hafrannsóknarstofnun og fleira, sem tengist hafinu, fellur ekki undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Þó er ástand hafsins að mörgu leyti samofið ástandi lands og lofts. Auknn koltvísýringur í andrúmsloftinu veldur varasamri súrnun sjávar og aur, sem fellur nú til í miðlunarlónum, berst ekki lengur út í hafið.
Formenn funda um norðurskautsmál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hversu mikil olía er unnin við Grænland, Jan Mayen, Ísland og Færeyjar?
Betra er eitt brjóst í hendi en tvö í skógi, eins og máltækið segir.
Eða var það Framsóknarflokkurinn sem sagði það?
Þorsteinn Briem, 17.9.2012 kl. 15:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.