Raunhæfast að bera saman við 2003.

Á árinu 2003 byrjaði bankabólan svonefnda að blása upp. Húsnæðislánasjóður og nýkeyptu bankarnir fóru í kapphlaup við að dæla lánsfé út í þjóðfélagið og bankarnir, fjármálafyrirtæki og þar með allt efnahagslífið byrjaði að blása út með vaxandi hraða.

Lánsfé var ekki aðeins mokað í neyslulán og húsnæði, heldur líka í stórkarlalegustu virkjanaframkvæmdir samtímis fyrir austan og sunnan, sem sagan kann frá að greina.

Við þetta rauk gengi krónunnar upp og erlendar vörur buðust á útsöluverði, þriðjungi ódýrari en nam raunverði. Innflutningur óx með vaxandi hraða, hlutabréfaverð skrúfaðist upp og allt þjóðfélagið fór á mesta neyslu- lána- og þenslufyllerí Íslandssögunnar.

Að sjálfsögðu ruku allar tölur upp sem mæla velsæld,  byggingum og fjárfestingum hvers konar fjölgaði með dæmalausum hraða og að sama skapi fjölgaði störfum.

Hér var talin ríkja einhver mesta velsæld í heimi og sumar tölurnar um góðærið sem var reyndar gróðæri, voru heimsmet.

Eftir að þessi tilbúna velsældarbóla, sem engin innistæða var fyrir, sprakk, hlutu allar háu tölurnar að lækka stórlega og enginn mannlegur máttur gat látið þetta halda áfram.

En svo virðist sem margir hafi ekkert lært af hruninu. Þeir bera sífellt saman eyndarlegar hagtölurbar nú við gróðærin 2004 - 2008 og harma að ekki sé hægt að halda áfram uppi þessari innistæðulausu velsæld.

Árið 2003 var síðasta árið áður en allt fór á annan endann og tölurnar frá árunum þar á eftir eru ekki raunhæfar.

Með þessu er ekki verið að segja að engar misfellur eða mistök sé að finna í hagstjórn okkar um þessar mundir eða að ekkert megi betur fara, heldur aðeins það, að draumar um nýjan ofurhagvöxt á og hagtölur borð við það sem var hér í aðdraganda hrunsins eru óraunhæfir.

Betur má ef duga skal, en 2007 kemur aldrei aftur.  


mbl.is SA: Ekki færri störf frá 2005
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

SA – Samtök atvinnulífsins er ómarktæk stofnun. Eins og stuttbuxnadeild í Valhöll.

Þetta er alvarlegt mál, því SA ættu að vera alvöru samtök íslenskra atvinnurekanda.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 06:34

2 identicon

Við skulum ekki gleyma kaupréttarsamningunum sem mér finnst að ætti frekar að banna en smálán þar sem einstaklingurinn hefur valið.

Núverandi lykilstjórnendur Eimskips eru búnir að fá kaupréttarsamninga og um daginn keyptu lífeyrissjóðir hlutabréf í Eimskip á YFIRverði en lífeyrissjóðsfélagar hafa ekkert val.

Þanngi að stað er sú sama og 2007  samstarfsmenn semja við hvern annan um kaupréttasamninga og aðrir  "ótengdir" aðilar (en vinir) sjá til þess að hækka hlutabréfaverð með því að kaupa fyrir peninga lífeyrissjóðanna.

Grímur (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 08:54

3 identicon

Setti eftirfarandi athugasemd fram annarsstaðar en hún á líka við hér:

Svo er það nú þetta með peningaprentunina.  Verð fasteigna á Íslandi rís frekar en að það falli. Af hverju? Jú af því að fjármálabatteríið vill að  það rísi. Það kemur sér saman um að þetta séu verðmæti. Lánað er út á hækkandi verðgildi fasteigna,eignasafn bankana stækkar við það,(mælt í krónum) og eftirspurn eftir gjaldeyri vex þegar á að fara að kaupa erlendan innflutning fyrir þessi fölsku verðmæti,krónan fellur.  Hin raunverulegu verðmæti, eru þannig tekin úr vasa allra þeirra sem eiga þær krónur er fyrir voru.

        Þetta sama getur gerst við hvaða stórframkvæmd sem er, hvort sem það er bygging nýs spítala eða verslunarmiðstöðvar.  Íslendingar verða að hætta að pumpa svona miklu lofti í krónuna. Það verður að hemja útlán bankanna svo að þau rími að einhverju leiti við innlánin.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 08:59

4 identicon

Ísland er “faul und durch und durch korrupt”, eins og sagt er hér í Evrópu, þar sem þýska er töluð; rotið, spillt og aftur spillt.

Það var alltaf spilling á klakanum, en spillingin náði nýjum hæðum á valdatíma hálfvitanna Dabb + Dóra. Það endaði með Davíðshruninu. Einkavæðing bankanna, sala á ríkiseignum, úthlutun á góssi Varnarliðsins, “just name it”.

Fjórflokkurinn á að fara til fjandans, eins og hann leggur sig.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 09:25

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Katrín Ólafsdóttir lektor í hagfræði - Viðskiptablaðið 26. apríl 2007:

"Á árunum 2004 og 2005 var hagvöxtur hér á landi yfir 7% tvö ár í röð. Samkvæmt mati Seðlabankans var slaki í þjóðarbúskapnum á árinu 2003 og framleiðsla því undir framleiðslugetu.

Uppbygging á þessum árum var mikil og aukning fólksfjölda hröð. Því er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að hagkerfið myndi þola hagvöxt umfram 3%, allavega um tíma.

Þróunin var hins vegar sú að strax á árinu 2004 var slakinn horfinn og gott betur. Því leiddi megnið af 7% hagvextinum á árinu 2005 til aukningar á þenslu.

Þarna var því um að ræða hagvöxt umfram framleiðslugetu, sem er því ekki vöxtur til frambúðar.

Afleiðingin af þessu hagvaxtartímabili blasir við í dag þar sem viðskiptahalli hefur aldrei í sögu þjóðarinnar verið hærri og mælist fjórðungur af landsframleiðslu og verðbólga nálgast 8%, að undanskilinni skattalækkun.

Atvinnuleysi mælist varla. Þvert á móti hefur innflutningur vinnuafls aldrei verið meiri. Með öðrum orðum, ójafnvægið í þjóðarbúskapnum er gífurlegt. Öllum ætti að vera ljóst að þetta ástand stenst ekki til frambúðar."

Þorsteinn Briem, 20.9.2012 kl. 10:13

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hagvöxtur til frambúðar veltur á því að landnæði er nýtt betur, tæki og tól eru endurnýjuð til hins betra og vinnuafl nýtist betur, annaðhvort með því að láta fólki í té betri tæki eða með því að auka menntun og þar með virði vinnuframlags hvers einstaklings."

Er meiri hagvöxtur alltaf betri? - Katrín Ólafsdóttir lektor árið 2007


Menntun Íslendinga 11% undir meðaltali OECD

Þorsteinn Briem, 20.9.2012 kl. 10:14

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Fyrir nokkru spurði eg: Er hagvöxtur byggður á rányrkju? Eða má spyrða saman hagvöxt og rányrkju? Með rányrkju er sagt að þá er tekið meira frá náttúrunni en hún er tilbúin að gefa af sér.

Á miðöldum gerðu menn mun á náttúrulegum arði og borgaralegum. Sá náttúrulegi var arðurinn af akrinum, skóginum, skepnunum, fiskurinn í vötnum, ám og sjónum. Borgaralegi arðurinn byggðist fyrst og fremst á vöxtum sem voru oft mjög breytilegir og ekki alltaf í samræmi við náttúrulega arðinn.

Afgjald eða leiga jarða miðaðist gjarnan við 10% af arðinum sem oft var kannski einnig 10% af verðmæti jarðarinnar. Þannig varð leigan 1% af verðmæti jarðarinnar.

Talið er að skógrækt á Íslandi geti gefið af sér 3-4% en falli fyrst og fremst við síðustu fellingu skógarins, kannski eftir 70-80 ár!

Þetta hefur lengi legið ljóst fyrir. Þeir sem vilja sem mestu arðsemi finnst þetta ekki vera ásættanlegt. 7-10% arðsemi er jafnvel sagt vera lágmark.

Það er í þessum mun sem skilur á milli rányrkju og eðlilegrar notkunar. Hagvöxturinn er meiri eftir því sem arsemiskrafan hækkar og þar með rányrkjan.

Hér er sett fram áleitin spurning sem gaman væri að ræða.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 20.9.2012 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband