Hörðu fíkniefnin lúmskust?

Þegar ný fíkniefni komu til sögu hér á landi leið ekki á löngu þar til maður kynntist því, að áhrif þeirra á menn gátu verið miklu óvæntari og hættulegri en áfengisáhrif.

Á þessum árum flaug ég oft með fólk, sem var í kringum skemmtibransann og tónlistina, en þar var mikið um þessi nýju fíkniefni, enda þótti fínt að apa eftir frægum erlendum tónlistarstjörnum, sem sögur fóru af að væru "stoned".

Stundum voru viðkomandi undir áhrifum margra fíkniefna og kom í ljós að þeir gátu verið afar hættulegir, því að þá gátu áhrifin brotist út með engum fyrirvara og orðið mjög illvíg, óvænt og jafnvel það lífshættuleg, þannig að fíkillinn var við dauðans dyr.

Mér er sérstaklega í minni þegar við hlið mér í einu fluginu sat maður, sem virtist vera í lagi, kannski örlítið timbraður en að öðru leyti eðlilegur. Hann hafði sýnt áhuga á flugi og fékk að vera frammi í í þetta skipti.

Skyndilega, án nokkurrar viðvörunar, greip hann í stýrið og þrykkti því af öllu afli fram þannig að vélin stakkst örsnöggt fram yfir sig svo að við lyftum öll upp í sætunum, og ekki bara það, -  þau óhreinindi sem voru á teppunum á gólfinu, þeyttust öll upp yfir okkur sem og aðrir lausir hlutir.

Álagið á vélina á þessum flughraða fór vafalaust vel yfir efri mörk þess álags sem vélin var talin standast, sem eru - 1,52 g í "öfugu" álagi en 3,78 í "réttu". 

Með þessu tiltæki sínu hefði farþeginn getað brotið vængina af vélinni og hefði þá ekki þurft að spyrja að leikslokum.

Þetta er aðeins eitt dæmið af nokkrum frá þessum árum, þar sem algerlega áður óþekkt áhrif komu fram á þeim sem neyttu nýrra og "harðari" fíkniefna, ég tala nú ekki um ef þeirra var neytt fleiri í einu og jafnvel drukkið vín ofan í allt saman.


mbl.is Segir hörðu fíkniefnin erfiðust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áfengi er og verður með mest skaðlegu vímuefnum sem til eru. Sá titill verður ekki tekin nema kannski af baðsalti.
Hluti af erfiðleikum lögreglu með hin efnir er að þau eru bönnuð og því fer markaðssetning og sala þeira fram í undirheimum, er faktískt lifibrauð glæpamanna. Þannig að það má segja sem svo að þau bönn sem eru í gangi er helsta vandamálið með hin vímuefnin.

DoctorE (IP-tala skráð) 27.9.2012 kl. 11:18

2 identicon

Var þetta nokkuð Steingrímur Njálsson? Man eftir að hafa lesið um að hann hefði gert eitthvað slíkt fyrir mörgum árum síðan?

Þrumur (IP-tala skráð) 27.9.2012 kl. 17:13

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Margir áratugir eru síðan þetta gerðist og ég ætla ekki í ágiskunarleik varðandi farþega minn þótt ég segi að ágiskunin undir nafninu Þrumur sé röng.

Ómar Ragnarsson, 27.9.2012 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband