27.9.2012 | 18:49
Fjórar lífgjafir í ca 1,5 milljón kílómetra akstri.
Síðan 1957 hef ég lagt að baki um eina og hálfa milljón kílómetra á götum og vegum landsins. Fjórum sinnum á þessu ferli hef ég sloppið úr lífshættu á þann hátt að ég get seint þakkað það nógsamlega.
Fyrsta skiptið var 1961 á NSU Prinz, annað skiptið var ofan í Reykjafjarðará í Ísafjarðardjúpi að nóttu til í febrúar 1992, þriðja skiptið var fyrir nokkrum árum þegar stórum fólksbíl var ekið á 60 kílómetra hraða aftan á mig kyrrstæðan á litlum bíl og fjórða skiptið var í gær þegar broti úr metra á báða bóga munaði að ég lenti í hörðum árekstri við stóran jeppa á minnsta bílnum, sem er í umferð á landinu þegar ég ek honum.
Í atviki númer 3 var ég á bíl konum minnar aldrei þessu vant en ekki örbílnum mínum og þar skildi á milli örkumla og þess að sleppa ómeiddur. En áreksturinn var svo harður að bakið á bílstjórasætinu lagðist aftur og ég beygð stýrið með höndunum, nokkuð sem ég hefði ekki getað annars, þótt stórfé væri í boði.
Ein ástæða þess að ég tognaði í handlegg í atvikinu í gær, sem hefur ratað inn á mbl.is, og ég vísa til, var líklega sú að það þurfti mjög hraðar og kraftmiklar stýrishreyfingar til að stýra bílnum í krappri beygju, þar sem hjólin skiluðu gúmmífari í malbikið í beygjunni undan jeppanum, og að á því augnabliki sem ég bjóst við hörðum árekstri hef ég líklega tekið mjög fast í stýrið til að halda mér.
Til frekari fróðleiks vil ég bæta við þessari lýsingu:
"Rallrefleksarnir" sem ég nefni, felast í því að stað þess að stíga af alefli á hemlana og bruna þar með beint áfram og lenda beint á jeppanum, sem kom þvert fyrir mig, steig ég örstutt á hemlana, en sleppti þeim síðan strax til að geta beygt undan jeppanum eins snarpa beygju og unnt var, en sleppa samt framhjá steyptri upphækkun og skildi sem er 5 metra inni á Gunnarsholtsafleggjaranum.
Þegar ég smaug framhjá skiltinu yfir veginn átti ég von á jeppanum á ská aftan á hægra afturhornið, en slapp á ótrúlegan hátt, því að eftir flugið út af veginum leit ég í baksýnisspegilinn og sá að jeppinn hafði haldið áfram en stöðvast um 10 metrum eftir að leiðir okkar skárust.
Fyrir áratug gengum við, nokkrir bílablaðamenn, undir aksturspróf á Reykjavíkurflugvelli, sem fólst í því að aka á 100 kílómetra hraða, komast klakklaust í gegnum beygju til vinstri og eftir um 15 metra beinan skákafla í gegnum í beygju til hægri.
Beygjurnar voru hannaðar þannig, að ekki var hægt að komast í gegn um þær klakklaust nema að hemla af alefli alla leið ef bíllinn var var með ABS hemla.
Við máttum ekki hefja hemlun fyrr en ákveðna vegalengd frá fyrri beygjunni.
Í fyrri ferðinni með ABS hemlunum gekk mér ekkert betur en félögum mínum, af því að ég sleppti hemlunum ósjálfrátt í gegnum fyrri beygjuna, hemlaði að nýju á skákaflanum, en sleppti síðan hemlunum aftur í gegnum seinni beygjuna. Sem sagt: Hemla-sleppa-hemla-sleppa.
Þegar hins vegar var ekið án ABS hemla snerist dæmið við og ég var sá þátttakandinn sem slapp í best í gegn, af því að gömlu refleksarnir, helma-sleppa-hemla-sleppa skiluðu hámarksárangri.
Þeir sem horfa á keppni í alþjóðlegu ralli geta stundum séð að enginn keppnisbíll er með sjálfvirkt stöðugleikakerfi eða hemla, - ökumennirnir verða að þjálfa viðbrögð sín með gamla laginu og blöndu af hemlun og inngjöf til að ná hámarks árangri.
Í lok stríðsins 1945 segir Þorsteinn Jónsson flugmaður að hann hafi verið orðinn sjúklega hræddur við að fljúga og farið að með að með næstum sjúklegri gát, þótt það væri miklu hættulausara en fyrr og nánast engin þýsk flugvél lengur á lofti.
Ástæðan var sú að honum fannst hann hafa sloppið svo ævintýralega og svo oft að hann ætti á hættu að vera alveg búinn að klára "heppniskvótann" sinn.
Eftir atvikið í gær get ég ekki varist svipaðri hugsun, og það fyrsta sem mér dettur í hug auk þess að læra af atviikinu í akstri, er að láta 16 ára gamlan draum um að eignast bíl af Smart gerð rætast einhvern tíma áður en ég sný tánum upp.
Smart er að vísu örbíll eins og Daihatsu Cuore en er með nýjustu gerð af tvöföldu gólfi og líknarbelgjum auk sérlega sterks burðarvirkis og er svo vel hannaður varðandi öryggi, að hann er með öruggustu bílunum í umferðinni og hefur meira að segja farið ótrúlega vel út úr árekstrartilraunum þar sem hann var látinn lenda beint á móti þrisvar sinnum stærri bílum.
Daihatsu Cuore 1988 eða Fiat 500 ´72 hafa ekkert af þessu. Ég get ekki ætlast til þess að drottinn einn sé lífgjafi minn æ ofan í æ, heldur verð ég að reyna að leggja eitthvað meira á móti en ég hef gert fram að þessu.
Þakkar drottni og rallakstri lífið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef ég man rétt eftir að hafa lesið æviminningar Þorsteins, þá flaug hann drukkinn og í allavegana ástandi. Þannig að eftir stríðið hefur slíkt væntanlega síður verið samþykkt. Honum hefur kannski vantað alkóhól í blóðið til að hafa fífldirfskuna sem hann hafði þegar hann flaug sem morðflugmaður í styrjöldinni.
Sissi (IP-tala skráð) 27.9.2012 kl. 19:41
Kannski þarf kallinn að fara að athuga hvort reflexarnir séu þeir sömu og áður. Tvö atvik á nokkrum mánuðum, ef ég man rétt þá varstu næstum búin að fá mótorfák á bifreiðina í sumar. Tékka á sjóninni og öðru hvað varðar heilsutengda þætti sem skipta máli í akstri.
Sissi (IP-tala skráð) 27.9.2012 kl. 19:46
Stoppaði ekki ökumaður jeppans til að aðgæta hvort það væri í lagi með þig?
Birgir (IP-tala skráð) 27.9.2012 kl. 20:47
Þú verður að læra að fara varlegar, Ómar. Maður er sífellt að lesa um hrakföll þín, síðast á Skeiðavegamótum. Það getur hreinlega ekki verið að einn maður sé svo óheppinn. Eitthvað skrifast á fljótfærni og ef til vill ofþreytu. Haltu fyrir alla muni lífi og heilsu um ókomin ár en fyrir alla muni róaðu þig niður, maður.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.9.2012 kl. 20:55
Það er nú alveg hægt að lenda í svona, og þarna varð Ómari til bjargar gömul reynsla.
En þér var nokk brugðið í gær vinur minn.
Varðandi Þorstein Jónsson, þá taldi hann niður "kattarlífin" svona í spaug-standi. Ég vona að Ómar eigi eins mörg.
Jón Logi (IP-tala skráð) 27.9.2012 kl. 21:13
Munum að Ómari er treyst fyrir sjálfum sér en hann er engu að síður þjóðareign. Sú eina sem þekkist á tveimur fótum, hefur ekki vængi og óleyfilegt er að veiða nema í pólitískar snörur.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.9.2012 kl. 21:16
Atvik koma stundum í kippum. Um jólin var bíl stolið frá mér af bílasölu og hann eyðilagður, á útmánuðumvar stolið af mér dýrri myndavél og í apríl braut skemmdarvargur framrúðuna á flugvélinni minni.
Síðasttalda atvikið er nokkuð sem gerist aðeins á margra áratuga fresti, síðast á Akureyri fyrir tæpum 60 árum.
Samtals var þetta þrefalda tjón upp á eina og hálfa milljón en þetta gerðist eftir margra ára hlé slíkra viðburða í mínu lífi.
Eins og ég rakti eru sjö ár síðan viðlíka gerðist í akstri og í gær, og þar á undan liðu 14 ár á milli slíkra viðburða.
Það, að bíl sem er á útskoti hringvegarins sé skyndilega rykkt inn á veginn þvert í veg fyrir bíl sem kemur að á eðlilegum hraða með ljósin kveikt, sýnir það eitt að enginn er óhultur fyrir því að að skyndilega sé ekið í veg fyrir hann upp úr þurru hvar sem er í vegakerfinu, og vitna ótal dauðaslys um það.
Ómar Ragnarsson, 27.9.2012 kl. 23:55
"Sífellt að lesa um hrakföll þín" segirðu, Sigurður. Ég hefði alveg getað þagað um þessi atvik og þá hefði enginn lesið um þau. En bæði voru lærdómsrík og óvenjuleg og þess vegna greindi ég frá þeim.
Ómar Ragnarsson, 27.9.2012 kl. 23:58
Þessi Sigurður er eitthhvað undarlegur. Blessi þig, Ómar.
Lilja B. (IP-tala skráð) 28.9.2012 kl. 02:24
Ekki misskilja mig Ómar. Mér finnst þetta bara mjög mikið, miklu meira en hjá mér, vinum og ættingjum, jafnvel samtals. Farðu varlega.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 28.9.2012 kl. 10:01
Takk fyrir hugulsemina og góða meiningu, minn kæri Sigurður. Förum aðeins í gegnum atvikin fjðögur.
Mér var einum um að kenna atvikið 1961. Ein og hálf milljón kílómetra á þjóðvegunum við afar misjöfn skilyrði og oft varasöm, margfalt meira magn af slíku en hjá þér, vinum og ættingjum skilaði af sér atvikinu 1992.
2005 sat ég í kyrrstæðum bíl á enda langrar aðreinar að Miklubrautinni, af því að ég komst ekki inn á Miklubrautina vegna tillitsleysis ökumanna þar.
Kona, sem hafði átt heima í áratugi í Bandaríkjunum kom þá eftir aðreininni en tókst ekki frekar en mér að komast inn á Miklubrautina því að ökumennirnir þar sameinuðust um að koma í veg fyrir það. Hún hélt að stefnuljósin væri biluð hjá sér og opnaði gluggann til þess að veifa, en án árangurs.
Fyrir bragðið fór öll athygli hennar í þetta og hún sá ekki kyrrstæða bílinn sem ég sat í, heldur ók aftan á hann á 60 kílómetra hraða. Hún sagðist aldrei hafa getað ímyndað sér eftir dvölina í Bandaríkjunum að svona ástand væri í umferðinni hér.
Eftir atvikið á Skeðavegamótunum tók Vegagerðin loks mark á ítrekuðum ábendingum um hættulegt fyrirkomulag skilta þar og breytti þeim.
Ég er búinn að fjalla um atvikið í fyrradag og það sem ég ætla að læra af því og getur líka verið til lærdóms fyrir fleiri.
Ómar Ragnarsson, 28.9.2012 kl. 20:44
Omar, her hefurðu 9 Daihatsu Cuore, reyndar notaða
http://www.autotrader.co.uk/used-cars/daihatsu/cuore
Björn Emilsson, 29.9.2012 kl. 05:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.