Hernám Íslands var merkilegra en margur heldur.

Þegar litið er í bók, sem ég á og ber nafnið "Heimsstyrjöldin síðari, dag fra´degi", tekur einn dagur mest rými: 10. maí 1940. 

Þann dag hófst loksins Aðgerð "Gul" (Operation Gelb) sem fólst í sigurför Þjóðverja á hendur Vesturveldnum sem tók aðeins rúman mánuð, en þá höfðu Niðurlönd og Frakkland fallið og hátt á fjórða hundrað þúsund breskir hermenn farið einhyverjar mestu hrakfarir hernaðarsögunnari.

10. maí var þó ekki hreinn gleðidagur fyrir Hitler, þvi að í bók Þórs Whitehead greinir frá því að hann hafi ærst af bræði í byrgi sínu í Eifelfjöllunum þegar hann frétti af hernámi Breta og skipað Ernst Raeder, aðmíráli að semja þegar innrásaráætlun til þess að taka landið af Bretum.

Hvers vegna varð Hitler svona reiður? Ástæðan er sú, að hernám Íslands markaði ákveðin straumhvörf í atburðarás, sem hafist hafði með innrás Ítala í Abbesíníu (Eþíópiu) 1935. 

Síðan rak hver viðburðurinn annan, þar sem öxulveldin höfðu ætíð frumkvæðið en Vesturveldin urðu ævinlega að bregðast við í vörn: Hernám Rínarlanda 1936, Austurríkis 1938, Súdetahéraðanna haustið sama ár, Tékkóslóvakíu í mars 1939, Albaníu í apríl, Póllands í september og Danmerkur og Noregs vorið 1940.

Með hernámi Færeyja og þó sérstakega Íslands tóku Vesturveldin í fyrsta sinn frumkvæði og Þjóðverjar urðu að bregðast við.

Í hiitteðfyrra fann ég rústir byrgisins í Eifelfjöllum, þar sem Hitler fyrirskipaði að gerð yrði innrásaráætlun í Ísland og teygaði að mér þennan atburð í stríðssögunni.

Þetta var nauðsynlegur liður í vinnu minni varðandi heimildarrit / kvikmynd um þessa innrás, sem aldrei varð en hefði getað orðið.

Með því að koma til Íslands notaði Churchill ekki aðeins gott tækifæri til að fá smá tilbreytingu á siglingunni yfir hafið, heldur einnig til þess að kvitta fyrir það hvernig Hitler hafði marsérað inn í Vínarborg, Prag, Varsjá og París.

Þar að auki var það höfuðatriði í stefnu Churchills að eiga sem nánustu samskipti við Bandaríkjamenn og stofna til persónulegs sambands við Roosevelt.

Þegar Bandaríkjamenn tóku að sér hervernd Íslands í júlí 1941 var það í raun fyrsta megin hernaðaraðgerð þeirra, sem molaði undan hlutleysi þeirra og færði þá nær stríði við Öxulveldin.

Þegar Hitler sagði Bandaríkjunum stríð á hendur 11. desember 1941 rakti hann það lið fyrir lið hvernig hann teldi að Roosevelt hefði reynt allt sem hann gat til að egna Þjóðverja til stríðs og lét þess sérstaklega getið að Roosevelt hefði haldið að hernám Íslands myndi gera Þjóðverjum ómögulegt annað en að lýsa yfir stríði. 

Hitler sagðist hafa stillt sig og ljóst er að heimsókn Churchils til Íslands 16. ágúst var í augum Hitlers mikil ögrun. Helstu leiðtogar stríðsþjóðanna gerðu lítið af því að koma fram í höfuðborgum ríkja eins og Churhill gerði hér og á meðan á stríðinu stóð var ræða hans af svölum Alþingishússins eini viðburðurinn af slíku tagi hjá honum, þrátt fyrir mikil ferðalög hans öll stríðsárin.

Mussolini gerði aðeins einu sinni áætlun um innreið í hertekna höfuðborg þegar hann fór sumarið 1942 til Líbíu til þess að geta farið í væntanlega sigurför í Kaíró i Egyptalandi en af því varð ekki.  

Það, að Bretar hernámu Ísland og héldu því réði úrslitum um framvinduna í orrustunni um Atlantshafið, sem í öllum fræðibókum trónir jafnhátt og orrusturnar um Moskvu, Stalíngrad, El Alamain, við Midway og innrásin í Normandy.

Churchill sem gamall flotamálaráðherra, skildi sjóhernað og gildi hans mun betur en Hitler, sem hafði aðeins kynnst landhernaði og lét það hafa áhrif á hernaðarsýn sína og yfirstjórn stríðsreksturins.


mbl.is Vindill Churchills til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þór Whitehead segir í bók sinni með ljósmyndum frá hernámsárunum, að Raeder stóraðmíráli hafi tekist að fá Hitler ofan af því að reyna innrás í Ísland, með þeim rökum að þeir gætu kannski náð því af Bretum, en að halda því krefðist meiri mannafla en þeir mættu missa frá öðrum verkefnum.

Raeder var svo dæmdur í lífstíðarfangelsi í Nürnberg-réttarhöldunum, en afplánaði aðeins um áratug í Spandau, þá var hann látinn laus vegna heilsubrests, og 2 aðrir um svipað leyti. Fulltrúar fjórveldanna vildu greinilega alls ekki taka þá áhættu að fangarnir myndu deyja í Spandau. Hafi Raeder afstýrt því að land okkar yrði vígvöllur, átti hann það sannarlega skilið - og þótt meira hefði verið.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 5.10.2012 kl. 23:52

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þú getur þess ekki, að það var líka 10. maí, sem Churchill tók við sem forsætisráðherra af Chamberlain. Þetta var örlagadagur í stríðinu og ekki aðeins fyrir Íslendinga.

Vilhjálmur Eyþórsson, 6.10.2012 kl. 01:15

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hárrett, Vilhjálmur, en eins og ég segi í pistlinum, er þetta fyrirferðarmesti stríðsdagurinn vegna þess hve margt gerðist þá.

Ómar Ragnarsson, 6.10.2012 kl. 08:20

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þjóðverja vantaði yfrráð í lofti yfir landinu frá fyrsta degi, líkt og í innrásinni í Noreg. Þem sást yfir möguleika til þess sem er efni handrits míns um það efni.

Ómar Ragnarsson, 6.10.2012 kl. 08:22

5 identicon

Ég er handviss um að Raeder mat þetta rétt, - en Ómar er nú með annan vinkil á það, og við eigum örugglega eftir að skemmta okkur konunglega í því grúski ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.10.2012 kl. 08:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband