Svona er þetta nú en sumu má breyta.

Lýsing Lilju Mósesdóttur á stöðu og aðstæðum þeirra, sem fara fram til starfa fyrir stjórnmálalegar hugsjónir stinga nokkuð í stúf við það hefur orðið að viðtekinni skoðun þorra fólks að stjórnmál séu óhrein og pólitík viðfangsefni þeirra, sem ætla sér bara að græða á því mest fjárhagslega og persónulega sjálfir.

Þetta gengur svo langt að erfitt er að fá fólk til að leggja nafn sitt við stjórnmál og helst má ekki kalla þjóðfélagslega starfsemi á þessu sviði sínu rétta nafni heldur helst einhverju öðru.

Orðið flokkur hefur fengið vont orð á sig helst þarf að sveipa starfið inn í nöfn eins og hreyfingu eða í mesta lagi framboð frekar en flokkur. 

Af þessum sökum er erfitt að fá fólk til að taka þátt í stjórnmálum, en þátttakan er lífsnauðsynleg fyrir lýðræðið, annars virkar það ekki.

Fáist ekki heiðarlegt, hæft og gott fólk í stjórnmálin geta hin sömu ekki kvartað yfir því eftir á hvernig stjórnmálin séu, úr því að þau vilja ekki sjálf taka þátt í þeim eða reyna að hafa áhrif.

Ég þekki persónulega það sem Lilja lýsir varðandi ný framboð og það þegar fólk reynir að koma á framfæri boðskap og skoðunum, en til þess þarf tíma, vinnu og peninga, því að auðvitað er sjálfboðavinna ekkert annað en það, að viðkomandi eyðir því fé sem hann hefði annars fengið fyrir aðra vinnu.

Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er eini þröskuldurinn til að koma að þingmanni sá að framboðið fái fylgi sem nægir fyrir honum, en það eru tæp tvö prósent eða rúmlega 3000 manns.

Núverandi þröskuldur er eins ólýðræðislegur og hugsast getur og í hrópandi ósamræmi við kröfu þjóðfundar um jafnt vægi atkvæða. Er hægt að hugsan sér ójafnara vægi atkvæða en að 16-17% kjósenda fái engan þingmann?  Þannig hafa tölurnar verið í skoðanakönnunum síðstu mánuðina.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er stefnt að meiri ábyrgð, festu, valddreifingu og valdtemprun en áður hefur þekkst sem og að minnka ofurefi framkvæmdavaldsins og flokksræði.

Með því er hægt að skapa von um betra Alþingi sem eflist að trausti og virðingu.  


mbl.is Lilja ávarpaði landsfund Samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Manstu nokkuð eftir Stebba Valgeirs

Einsmanns flokkur sem fékk allt sem hann vildi

Grímur (IP-tala skráð) 6.10.2012 kl. 20:14

2 identicon


1990. -- 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. -- 116 . mál.


Nd. 120. Frumvarp til laga

um breytingu á vaxtalögum, nr. 25 27. mars 1987, með síðari breytingum.

Flm.: Stefán Valgeirsson.

1. gr.
     Við 6. gr. laganna bætist eftirfarandi málsgrein:
     Óheimilt er fram til 1. janúar 1992 að áskilja eða taka hærri vexti af peningakröfum en 5% ársvexti af verðtryggðum kröfum. Hámarksvextir af óverðtryggðum kröfum skulu ákveðnir af Seðlabanka Íslands og skulu þeir ákveðnir þannig að raunávöxtun óverðtryggðra peningakrafna verði ekki hærri en raunávöxtun verðtryggðra krafna.

2. gr.
     Niður falli 17. -- 19. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 67/1989 (um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða).

3. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.


G r e i n a r g e r ð .
    Á 111. löggjafarþingi flutti Auður Eiríksdóttir breytingartillögu við vaxtalög sem voru þá til meðferðar í neðri deild. Þessi breytingartillaga var efnislega samhljóða þessu frumvarpi. Við 2. umr. um málið munaði aðeins tveimur atkvæðum að tillagan væri samþykkt. Þetta gerðist á kvöldfundi, öllum að óvörum. Var dreift nýrri dagskrá og málið tekið fyrir þótt þannig stæði á að fólk vantaði á kvöldfundinn sem vitað var að ætlaði að styðja tillöguna.
    Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð var það eitt af skilyrðunum sem Samtök jafnréttis og félagshyggju settu fyrir stuðningi við hana að raunvextir yrðu ekki hærri en 5%. Til samkomulags sættust þau á að í málefnasamningnum væri miðað við 6% en lofað var að taka síðan málið til endurskoðunar með það að markmiði að lækka raunvexti enn frekar.
    Eftir rúmlega tveggja ára valdasetu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar eru raunvextir fyrir venjulegt fólk frá 7,75% upp í 8,75% og þeim sem eru verst settir og þurfa að skuldbreyta lánum sínum er gert að greiða allt að 10%. Þeir sem eiga miklar eignir, sem eru lítið veðsettar, geta fengið lán með allt niður í 6,5% vexti, en það eru kallaðir kjörvextir. Á þessu sést hvernig það jafnrétti er í reynd sem almenningi er boðið upp á og er þó ekki öll sagan sögð. Með flutningi þessa frumvarps er látið reyna á hvort ríkisstjórnin stendur undir nafni sem ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju.
    Þegar hin svokölluðu Ólafslög voru til umfjöllunar á Alþingi 1979 var öll umræðan um raunvexti á þann veg að stefnt yrði að því að þeir yrðu aldrei hærri en 2 -- 3%. Flutningsmaður hefur undir höndum blaðagrein eftir dr. Pétur Blöndal er hann skrifaði fyrir

nokkrum árum þar sem hann telur að raunvextir eigi að vera 2% og aldrei fara yfir 4%. Vaxtaokrið síðustu árin hefur orðið til þess að mjög mikil eignatilfærsla hefur orðið í þjóðfélaginu. Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafa orðið gjaldþrota sem hefur svo leitt af sér ólýsanlegar hörmungar. Þar sem stjórnendur peningastofnana hafa ekki kunnað sér neitt hóf í vaxtatöku verður löggjafinn að grípa inn í með þeim hætti sem felst í þessu frumvarpi.''

Hann fékk ekki allt sem hann vildi hann Stefán Valgeirsson því miður sjá hér ofar frumvarp til laga sem Stefán stóð og ekkert varð úr.

Baldvin Nielsen skipaði 5.sæti í Reykjaneskjördæmi í alþingiskosningunum 1991 fyrir Heimastjórnasamtökin

Heimastjórnasamtökin voru stofnuð 10.mars 1991 rétt fyrir kosningarnar af Stefáni Valgeirssyni, Jóni Oddsyni hrl,  og mörgun öðrum góðum mönnum. Málefnin voru mörg mjög góð eins og við vorum á móti væntnalegum EES samningi sem dæmi en það dugði ekki fengum innan við eitt prósent atkvæða. Fjölmiðlar gerðu allt í sínu valdi að tryggja að nýju framboðin fengu ekki athygli hjá þjóðinni. 

Við í Heimastjórnasamtökunum kærðu RUV og fengu í framhaldinu að koma fram í útvarpi og Kastljósi. Stöð 2 var einkarekin fjölmiðil svo það var ekki hægt að taka á þeim með sama hætti og gert var við RUV sem er í eigu Íslensku þjóðarinar 

B.N. (IP-tala skráð) 6.10.2012 kl. 21:15

3 identicon

19. apríl 1991 | Innlendar fréttir | 209 orð

Heimastjórnarsamtökin: RÚV kært fyrir að mismuna frambjóðendum

Heimastjórnarsamtökin: RÚV kært fyrir að mismuna frambjóðendum TÓMAS Gunnarsson hæstaréttarlögmaður hefur fyrir hönd Heimastjónarsamtakanna sent ríkissaksóknara kæru þar sem krafist er opinberrar rannsóknar vegna meintrar mismununar Ríkisútvarpsins við...

Heimastjórnarsamtökin: RÚV kært fyrir að mismuna frambjóðendum

TÓMAS Gunnarsson hæstaréttarlögmaður hefur fyrir hönd Heimastjónarsamtakanna sent ríkissaksóknara kæru þar sem krafist er opinberrar rannsóknar vegna meintrar mismununar Ríkisútvarpsins við kynningar á framboðum vegna alþingiskosninganna og meintra brota starfsmanna RÚV í opinberu starfi við kynningar framboða. Samtökin telja sig hafa sætt grófri mismunun við kynningar frambjóðenda í RÚV, sérstaklega í Sjónvarpinu.

Samtökin telja að almenn framkvæmd kynningar á frambjóðendum og fréttaflutnings af framboðum feli í sér mismunun og brjóti gegn ákvæðum útvarpslaga, meðal annars um óhlutdrægni. Þá segir að starfsmenn fréttastofu Sjónvarps hafi án heimildar frá Útvarpsráði og að því er virðist einnig án heimildar frá útvarpsstjóra og fjármálastjóra RÚV ráðist í að láta gera víðtæka skoðanakönnun þrátt fyrir að fundargerðir útvarpsráðs staðfesti að brotið hafi verið gegn fyrirmælum ráðsins, sem hafi ákvörðunarvald um dagskrá RÚV lögum samkvæmt. Lögmaðurinn dregur í efa að nefnd skoðanakönnun hafi verið unnin í samræmi við alþjóðareglur Gallupskoðanakannana, einkum þar sem fyrstu þættir könnunarinnar hafi verið birtir áður en þeir síðari voru unnir. Fleiri atriði eru tiltekin í kærunni.

Þá er því haldið fram að útvarpsráðsmenn hafi ekki gegnt þeim starfsskyldum sínum að fylgjast eðlilega með dagskrá Ríkisútvarpsins og að starfsmenn Sjónvarpsins hafi farið á bak við útvarpsráðsmenn við undirbúning og gerð dagskrár.

Hér kemur frétt um kæruna sem ég var að finna á mbl.is

Kveðja, Baldvin Nielsen

B.N (IP-tala skráð) 6.10.2012 kl. 21:29

4 identicon

25. apríl 1991 | Innlendar fréttir | 164 orð

Heimastjórnarsamtökin kæra undirbúning kosninganna Heimastjórnarsamtökin í

,,Heimastjórnarsamtökin kæra undirbúning kosninganna Heimastjórnarsamtökin í Reykjavík hafa með bréfi til landskjörstjórnar kært undirbúning alþingiskosninganna af hálfu opinberra aðila.

Heimastjórnarsamtökin kæra undirbúning kosninganna Heimastjórnarsamtökin í Reykjavík hafa með bréfi til landskjörstjórnar kært undirbúning alþingiskosninganna af hálfu opinberra aðila. Samtökin krefjast þess að landskjörstjórn kanni eða láti kanna ákveðin atriði í því sambandi. Þá úrskurði landskjörstjórn á grundvelli niðurstaðna þeirra kannana eftir því sem við á, að lögbrot opinberra aðila hafi átt sér stað við undirbúning kosninganna, og að ógilda beri kosningarnar og leggja til við stjórnvöld að kosið verði að nýju.

Í kærubréfi Heimastjórnarsamtakanna kemur fram að þau telja að stórfelldur ólöglegur kosningaáróður og kosningaspjöll hafi átt sér stað, sem breytt hafi niðurstöðum kosninganna, og brjóti gegn grundvallarreglum kosningalaganna um lýðræðislega framkvæmd, sem stuðli að jöfnun framboða. Meðal annars er því haldið fram, að fjárveitingar til starfandi þingflokka feli í sér mismunun gagnvart öðrum framboðum, og einnig að framboðum hafi verið mismunað í kynningum á vegum Ríkisútvarpsins.

Vilhjálmur Jónsson hæstaréttarlögmaður, starfandi formaður landskjörstjórnar, sagði í samtali við Morgunblaðið að kæra Heimastjórnarsamtakanna yrði væntanlega tekin til umfjöllunar í landskjörstjórn á morgun, föstudag.''

Hér önnur frétt hér fyrir ofan um Heimastjórnarsamtökin sem ég var að finna á mbl.is sem styður það sem Lilja Mósesdóttir segir um stöðu lýðræðisins í landinu þegar kemur að því að nýir aðilar vilja stíga fram á sviðið í þjóðmálunum sem ekki eru í Fjórflokknum

Baldvin Nielsen


B.N. (IP-tala skráð) 6.10.2012 kl. 22:00

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eg man vel eftir Stefáni Valgeirssyni. En hann spilaði á það að jafnvel þótt þá hefði verið 5% þröskuldur á þeim tíma, hefði hann samt komist á þing af því að hann hafði nógu mikið fylgi í einu kjördæmi.

 En hvað um alla þingmennina sem hafa hlaupið til og frá á síðasta kjörtímabili? Ævinlega þegar stjórn stendur mjög tæpt fá einstakir stjórnarþingmenn ákveðið neitunarvald og skiptir ekki máli hvort viðkomandi eru í fjórflokknum eða í eins manns flokkum.

Albert Guðmundsson var í þingflokki Sjálfstæðisflokknsins 1980-83 þegar hann réði úrslitum um það hvort ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens hefði meirihluta.

Guðrún Helgadóttir var í þingflokki Alþýðubandalagsins þegar Gervasoni málið réði því hvort hún léti stjórnina falla.

Eggert Þorsteinsson var í þingflokki Alþýðuflokksins 1969 þegar hann greiddi atkvæði gegn stjórnarfrumvarpi.

Þrátt fyrir 5% þröskuldinn eru þrír þingmenn úr fjórflokknum nú í "eins manns flokkum" á Alþingi.   

Ómar Ragnarsson, 7.10.2012 kl. 02:10

6 identicon

Ég kom eitthvað að framboði heimastjórnarsamtakanna. Man alltaf eftir höfuð-stefnumálum eins og að sleppa EES pakkanum, reyna að halda fiskikvóta í byggð, koma vöxtum niður, og hækka skattleysismörk. Get ekki sagt að ég hafi breytt um skoðun....

Jón Logi (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband