1970 komið aftur?

Árið 1970 var allt á fullri ferð varðandi orkuöflun á Norðausturlandi. Búið var að vinna við stórbrotnar áætlanir varðandi það að hækka stíflu Laxárvirkjunar og sökkva Laxárdal, taka Skjálfandafljót úr farvegi sínum og veita því í Kráká og um vesturhorn Mývatns niður í lónið stóra í Laxárdal og fyrir sunnan Mývatn átti að búa til miðlunarlón, sem yrði tvöfalt stærra en Mývatn.

Ekkert virtist geta stöðvað þetta. Þingeyskir bændur höfðu að vísu ekið á dráttarvélum til Akureyrar til að mótmæla þessu, en að þeim var hlegið og þeim líkt við sunnlensku bændurna sem riðu til Reykjavíkur í byrjun 20.aldar vegna símamálsins.

Bændurnir voru taldir öfgamenn sem væru á móti framförum.

Síðan gerðist það að hópur Þingeyinga fór að Miðkvísl efst í Laxá og sprengdi með dínamiti stíflu, sem gerð hafði verið þar.

Það þurfti sem sé dínamit til þess að stöðva fyrirætlanirnar um hin stórfelldu umhverfisspjöll á þessu svæði.

Nú má sjá svipað vera að gerast við Mývatn. Ég hef áður sýnt myndir af því hvernig framin hafa verið stórfelld spjöll við hinn einstæða sprengigíg Víti og sömuleiðis hvernig affallsvatn rennur frá Bjarnarflagsvirkjun í átt að Mývatni og frá Kröflu tíu kílómetra í suður þar sem sístækkandi lón er að myndast.

Svörin við því hvort það lón sé til merkis um að fullyrðingar um að niðurdæling á vatni frá Kröfluvirkjun virki fullkomlega eru þau að endurtaka það að niðurdælingin sé með fullum árangri.

Á grundvelli tíu ára gamals mats á umhverfisáhrifum er nú vaðið af stað við Bjarnarflag með loforðum sem hafa ekki staðist varðandi hliðstæðar virkjanir.

Án þess að búið sé að ganga frá orkusölu og án þess að fyrir liggi skipulagsleyfi eru hafnar framkvæmdir sem miða að því að 15-30 falda orku Bjarnarflagsvirkjunar í aðeins 2,8 km fjarlægð frá byggð og um 4ra kílómetra fjarlægð frá Mývatni.

Nú þegar rennur affallsvatn frá hinni litlu virkjun í átt að Mývatni og vitað er að á Hellisheiði urðu jarðskjálftar sem ollu skemmdum í 15 kílómetra fjarlægð, fimm sinnum meiri fjarlægð en um er að ræða við Bjarnarflag.

Á sama tíma heldur hugsun hernaðarins gegn landinu áfram á fullu allt um kring. Nefnd um skipulag miðhálendisins hefur ályktað einróma að svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki verði virkjanasvæði og samkvæmt drögum að skipulaginu er gert ráð fyrir tveimur "mannvirkjabeltum" þvert yfir hálendið um Kjöl og Sprengisand.

Fyrri hluti ársins 1970 er runninn upp á ný. En hvað með síðari hlutann?

Þeir menn, sem sáu sig þá knúða til að beita sprengiefni til að stöðva hernaðinn gegn náttúru Mývatnssveitar eru ekki lengur ofar moldu.

Á svæðinu er í gangi þöggun um það sem þar fer fram, þrátt fyrir einn íbúafund í sumar þar sem enginn heimamanna þorði að segja neitt sem túlka mátti sem efasemdarrödd.

Það er full ástæða til að óttast að nú muni verða sárt saknað mannanna sem andæfðu 1970 og málið afgreitt þannig, að það séu aðeins hjáróma raddir öfgafólks úr 101 Reykjavík sem heyrist og þess vegna ekkert mark á þeim


mbl.is Krefjast stöðvunar framkvæmda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bjarnarflagsvirkjun er ekki alvitlaus. Að hluta til er virkjunarsvæðið þegar mjög raskað og mengað af borholuvatni.

Kísiliðjan skilur eftir sig ljót ummerki og ennþá verri er umgengni heimamanna með forljótu kroppi og misvirkum malarnámum í Jarðbbaðshólunum. Umgengnin við Léttsteypuna nálgast svo Íslandsmet í sóðaskap.

MÁU Bjarnarflagsvirkjunar fór fram fyrir 10 árum. Síðan þá hafa komið upp mikil vandamál vegna loftmengunar frá Hellisheiðarvirkjun og niðurdæling borholuvökva er í mesta ólestri við allar háhitavirkjanirnar. Það er ábyrgðarleysi að fara af stað með nýja virkjun á þessu viðkvæma svæði án þess að virkjunaraðili hafi sýnt fram á getu sína til niðurdælingar borholuvökva og getuna til að gera brenisteinsvetnið skaðlaust.

Náttúrulegt útstreymi H2S á öllum jarðhitasvæðum á landinu öllu er metið vera 5.000 tonn á ári og útblástur á 8.300 tonnum H2S frá virkjun vestan Námafjalls er uþb 20 földun á náttúrulegri losun Bjarnarflags og Hvera á H2S. Náttúruleg losun H2S ásamt útblæstri vegna Kísiliðju og gömlu virkjunarinnar var uþb 1.500 tonn á ári þannig að mengun mun aukast 6- falt frá velmektardögum Kísiliðjunnar og verða á bilinu 4X til 10X meiri en í Hveragerði.

Brennisteinsvetni er baneitrað, eitraðra en kolmónoxíð. Við finnum af því lykt þegar styrkur þess mælist í milljörðustu pörtum, hættumörk eru e-h partar af milljón (þá hættum við að finna lyktina) og þegar styrkur þess verðu einn þúsundasti þá veldur það bráðalömun og skjótum dauða.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 16:34

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Laxárdeilan markaði straumhvörf í náttúruvernd á Íslandi. Þó svo að hátt í 100 manns hafi verið ákærð og dæmd í héraði, þá voru allir ákærðir nánast sýknaðir í Hæstarétti enda byggðist sá dómur á því, að Laxárvirkjun hefði byggt stíflu sem var í landi bænda án þess að leitað hefði verið samninga við þá.

Talið er að náttúruvernd hafi fyrst komist á dagskrá Alþingis með deilu þessari. Nokkrum árum seinna eða 1974 eru sett lög um verndun Laxár og Mývatns.

Gott yfirlit um deilu þessa má lesa í Árbók Ferðafélags Íslands 2006 og fjallar alfarið um Mývatn eftir Jón Gauta Jónsson.

Þá ritaði Sigurður Gissurarson lögfræðingur ágætt yfirlitsrit um þessa deilu en hann var verjandi sakborninga fyrir Hæstarétti.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 7.10.2012 kl. 16:50

3 identicon

Í aths hérað ofan er átt við að brennisteinsvetnismengun í Reykjahlíð verði á bilinu 4X-10X meiri en nú mælist í Hveragerði.

Í matskýrslu Hellisheiðarvirkjunar eru leiddar að því líkur að brennisteinsvetnismengun verði ekki til vandræða í Hveragerði. -Annað kom á daginn. Í matskýrslu Bjarflagsvirkjunar sem unnin er af sömu aðilum er hinsvegar talið að 15% líkur séu á því að mengun í þorpinu verði yfir mörkum. Ef um sambærilegt vanmat er að ræða og vegna Hellisheiðarvirkjunar þá er hætt við að heilnæmi Þingeyska loftsins verði ekki sem skyldi. Til að bíta skömmina af þessu þá er grunnskólinn það hús sem næst stendur Bjarnarflagsvirkjun.

Það er ótrúlegt að til standi að losa árlega 8,300 tonn af eiturgasi í 3 km fjarlægð frá grunnskóla!

200 fermetra skólastofa með 3 metra lofthæð er 600 rúmmetrar. Það þarf því 0,6 rúmmetra af brennisteinsvetni til að drepa alla í því rými (1/1000).

0.6 rúmmetrar af H2S vega uþb 1 Kg og árlega losunin verður 8.300.000 Kg.

Auðvitað verður styrkur í andrúmslofti alldrei þetta hár. En það er full ástæða til varkárni og LV virðist engin áform hafa uppi um eðlilegar mengunarvarnir í þessari fyrstu háhitavirkjun í þéttbýli.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 16:56

4 identicon

Það verður sem sagt til ný skilgreining á Þingeysku lofti.

Synd.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 17:07

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það athyglisverða við þetta ákveðna mál finnst mér, að Landsvirkjun fékk leyfi frá Skútustaðahreppi til ,,landmótunarframkvæmda.".

það að hefja slíkar framkvæmdir þarna sem sjá má af myndum, eru alveg tilgangslausar nema í samhengi við virkjun þarna.

þarna er búið að raska landinu á óafturkræfan hátt. Og td. ef eigi verður af virkjun þarna eða ef leyfi fást ekki - þá er ekki hægt að reyta landinu í sitt náttúrulega horf.

Áður fyrr, og ekki fyrir svo mörgum árum, þótti bara mannréttindi á Íslandi að fara útí náttúruna og grafa þar og moka allt í spað. Hvar og hvenær sem var. þótti bara lágmarksmannréttindi.

Nú hefur orðið ákv. viðhorfsbreiting en samt spyr maður sig hvort einhver hreppur eigi að hafa sjálfdæmi um slíkt jarðrask og allra síst í samhengi umrædds máls.

Jafframt er eitt við umhversvernd á Íslandi eða ,,verndun ísl. náttúru" oþh. að oft er lög áhersla á ákveðin svæði á þessu landi. Ákveðin svæði sem hafa verndunarstatus og slíkt. Á vissum svæðum má ekkert hreifa o.s.frv.

Að mínu mati ætti að útvíkka þessa hugsun og hugsa þannig, að öll náttúra sem er ósnert á Íslandi - að það ætti að þurfa leyfi Umhverfisráðuneytisins til að byrja að grafa og moka.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.10.2012 kl. 20:35

6 identicon

Sveitarstjórn hefur vitneskju um að útlit sé fyrir að styrkur eiturgass fari yfir leyfileg mörk 55 sinnum á ári en ákveður að gera ekki kröfu um mengunarvarnir!

Heimild:

http://ust.is/library/Skrar/Umsagnir/Skipulagstillogur/Bjarnarflagsvirkjun_110311.pdf

Núverandi framkvæmdir LV í Bjarnarflagi byggja á þessari samþykkt hreppsins http://myv.is/frettir/nr/845/

Sveitarfélagið gerir skv þessu ekki kröfu um að niðurdæling skiljuvatns verði með sómasamlegum hætti heldur gefur grænt ljós á "neyðarlosun í sprungu".

Sem kunnugt er hefur stór hluti skiljuvatns Hellisheiðarvirkjunar farið í sambærilega "neyðarlosun".

Er ekki rétt að Landsvirkjun sýni fram á getu sína til niðurdælingar áður en leyfi eru veitt?

Og er eðlilegt að losa árlega 8.300.000 Kg af eiturgasi í 3 Km fjarlægð frá grunnskóla?

1 Kg af þessum óhroða dugar til að drepa alla í skólanum!

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 21:26

7 identicon

Hér er greinargóð tafla um eituráhrif brennisteinsvetnis.

Höfundur er efnafræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur

http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2935

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 21:29

8 identicon

Ég vil bara benda á að á íbúafundinum í sumar vorum við nokkur heimamanna sem að komum með mjög krítískar spurningar svo að ég vil mótmæla því að við séum öll fylgjandi virkjuninni eða gungur. Enn er fólk ofan moldar sem að var mið miðkvísl fyrir 42 árum og eins og umtalað er síðustu daga hafa bændur aðgang að áburði og dísel.

Sigurður Erlingss (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband