Skárra en það átti upphaflega að vera !

Þessa dagana eru áberandi tveir átakspunktar varðandi framkvæmdagleðina á svæðum náttúruverðmæta, við Mývatn og í Gálgahrauni.

Á báðum stöðum eru hafðar uppi afsakanir sem byggja á ástandi, sem var fyrir allmörgum árum.

Afsökunin fyrir atlögunni gegn Gálgahrauni er sú, að upphaflega hafi staðið til að eyðileggja miklu meira af hrauninu og þess vegna sé sú eyðilegging, sem nú er ráðgerð, hið besta mál.

Síðan er því bætt við að minnkun eyðileggingarinnar beri því vitni að í gangi sé einstaklega mikill vilji til þess að varðveita náttúruverðmæti og það svo mjög að til fyrirmyndar sé !

Þetta minnir á það þegar einn þingmaður í Kraganum gerði grein fyrir atkvæði sínu varðandi Kárahnjúkavirkjun. Hann rökstuddi fylgi sitt við mestu óbætanlegu umhverfisspjöll Íslandssögunnar með þeim orðum að hann væri umhverfissinni (!) -  og var reyndar eini þingmaðurinn sem gaf þá hástemmdu yfirlýsingu !  


mbl.is Hraunavinir með ljósmyndasamkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Formaður Landverndar kemur fram í fréttum og harmar framkvæmdir við Mývatn en þegir þunnu hljóði um Gálgahraun. Hvar eru allir náttúruverndasinnar höfuðborgarsvæðisins sem fylgtu liði gegn Kárahnjúkum, skiptir Gálgahraunið þá engu máli af því að það er of nálægt?

Kjartan (IP-tala skráð) 8.10.2012 kl. 12:34

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Frá 2006 hefur náttúruverndarfólk barist hart gegn álveri í Helguvík vegna þess að í nafni þess á að rústa náttúruverðmætum Reykjanesskagans.

Náttúruverndarfólk hefur ekki fé og aðstöðu til þess að liggja yfir öllum breytingum á deiliskipulagi og meira en 100 virkjunarhugmyndum og þess vegna fór nýtt deiliskipulag við Mývatn fram hjá mönnum sem og að eyðilegging á hluta Gálgahrauns væri að bresta á.

Ég hef skrifað blaðagreinar og birt bloggpistla og myndir af hervirkjunum við virkjanirnar á Reykjanesskaganum og stóð að því að upplýsa um svik loforða varðandi affallsvatn, brennisteinsmengun og jarðskjálfta af mannavöldum við þessar virkjanir og það rataði í fjölmiðla.

Ég veit ekki betur að náttúruverndarfólk eins og Hraunavinir, Eiður Guðnason og fleiri hafi brugðist hart við skemmdunum á Gálgahrauni og að allt náttúruverndarfólk höfuðborgarsvæðisins berjist nú hart gegn hernaðinum, sem er í gangi gegn náttúruverðmætum Reykjanesskagans.

Í kosningabaráttunni 2007 var baráttan gegn stóriðjusprengingunni hér syðra og á Húsavík aðalmálið hjá Íslandshreyfingunnni og náttúruverndarsamtökunum.

Mývatn er varið af Ramsarsáttmálanum og þess vegna er aðförin gegn því það sem vekur mesta athygli í ljósi þess að sömu loforðin um enga brennisteinsmengun, affallsvatn né jarðskjálfta eru nú höfð uppi þar og við Hellisheiðarvirkjun og Svartsengisvirkjun.

Ómar Ragnarsson, 9.10.2012 kl. 11:57

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Leiðrétting: Mývatn mun víst ekki varið af Ramsarsáttmálanum, en náttúruverndarfólk vill að sáttmálinn gildi þar.

Þess má geta að fyrsti bloggpistill minn fyrir fimm árum var um Hellisheiðarvirkjun og fyrstu blaðaskrifin um Bjarnarflagsvirkjun og hættuspilið við Mývatn voru í Fréttablaðinu í upphafi þessa árs.

Þangað til nú nýlega stóðu ég og aðrir í þeirri trú að fallið hefði verið frá því að rústa Gálgahrauni og við vissum ekki að nýtt deiliskipulag væri komið við Mývatn.

Við gátum ekki tjáð andstöðu okkar við atriði sem okkur var ókunnugt um.

Annað hefur komið á daginn og viðbrögð náttúruverndarfólks eru skýr og eindregin.

Ómar Ragnarsson, 9.10.2012 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband