Ekki eins og ósveigjanlegir róbótar.

Ein af skyldum flugstjóra á stórum farþegaflugvélum er að hafa í huga, að þetta eru eyðslufrek farartæki og að þeir geta sparað umtalsverða fjármuni með því að haga fluginu þannig að sem mest fáist út úr hverjum lítra.

En svo geta komið upp aðstæður sem leiða til þess að undantekningar eru gerðar, svo sem eins og þegar farþegaflugvél fór út af flugleið á Tasmaníuhafi til að leita að týndri snekkju.

Ég gæti nefnt nokkur dæmi um svipað hér heima en læt nægja að geta þess, að þegar Hekla byrjaði á gjósa árið 2000, var ég að stíga upp í Fokkervél á Reykjavíkurflugvelli, sem var á leið til Akureyrar.

Ég fór strax fram í til flugstjóranna og spurði, hvort þeir gætu ekki lagt einhverja lykkju á leiðina norður svo að farþegarnir og ég, sem var með kvikmyndatökuvél meðferðis, gætum  séð gosmökkinn sem stæði væntanlega upp úr skýjaþekjunni.

Þeir gerðu þetta og fyrir bragðið náði ég fyrstu myndunum af gosinu, sem birtust í sjónvarpinu strax eftir lendingu á Akureyri, myndum sem annars hefðu ekki náðst á þessu stigi gossins.

Tvö dæmi tengjast Sauðárflugvelli, sem ég var einmitt að koma frá í gær eftir að hafa ekið þangað með Helgu og gengið frá honum fyrir veturinn í fyrradag.

Helga bjargaði túrnum að því leyti að flugvallarbíllinn, gömul lítil Súkka, sem ég var að sækja, fór ekki gang og varð Helga að draga mig tvisvar.

Í annað skiptið var að minni uppástungu gert aðflug úr norðri að vellinum á Fokkervél sem var á leið frá Egilsstöðum til Reykjavíkur, enda er völlurinn viðurkenndur af Flugmálastjórn með tvær flugbrautir af fimm, sem nýst geta Fokker F50.

Hitt skiptið var óskaplega mikið 2007. Þá var Boeing 757 á leið frá Reykjavík til Egilsstaða með  177 manns um borð í boði Landsbanka Íslands, en ég var leiðsögumaður. Þetta var hluti af heils dags boðsferð bankans með valda viðskiptavini, alls um 300 manns um virkjanasvæði Kárahnjúkavirkjunar, en bankinn var lánveitandi virkjunarinnar.   

Það var heiðskírt yfir hálendinu og Vatnajökli og fóru bankastjórarnir þess á leit við flugstjórana, að ég yrði sendur fram í til þeirra og stýrði þeim í besta mögulega útsýnisflug meðan ég lýsti því sem fyrir augu bæri í fluginu.

Ég leiðbeindi flugstjórunum í lágflug yfir norðurbrún Vatnajökuls og Kverkfjöll og þaðan í aðflug úr suðri að Sauðárflugvelli og áfram yfir stíflur Kárahnjúkavirkjunar og Dimmugljúfur.

Er þetta líklegast stærsta flugvélin sem flogið hefur verið í útsýnisflug af þessari stærðargráðu hér á landi.


mbl.is Fundu snekkju úr farþegaflugvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Égfór einu sinni hringinn á Júmbó. (747). Það var á svipuðum tíma, - potturinn og pannan á bak við var Gunnar Þorsteinsson. Arngrímur flaug, og Þóra var með, ef ég man rétt.

Kárahnjúka dæmið sáum við ekki sökum skýja, en við náðum frábæru útsýni yfir tröllaskaga, og svo yfir suðurströnd.

Þetta var sér-flug til útsýnis, og á annað hundrað manns í vélinni, sem er léttur hlutur í Júmbó ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 18.10.2012 kl. 10:12

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í gamla daga var auðvelt að fá farþegavélar til að taka krók á sig og mæta á flugsýningar...  Það er orðið erfiðara í dag.

Myndin, sem er frá árinu 1990, sýnir eina slíka í lágflugi með hjólin niðri yfir Hamranesflugvelli í Hafnarfirði á flugsýningu Flugmódelfélagsins Þyts.

Líklega hefur farþegunum sem voru á leið til landsins fundist flugvöllurinn sem þeir sáu út um gluggann heldur lítill .

 http://www.agust.net/thytur-old/myndir/boeing3.jpg

 Myndina tók Arnar B Vignisson

Ágúst H Bjarnason, 18.10.2012 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband