Staðleysan um 11 landsbyggðarþingmenn. Ólesið frumvarp ?

Einar K. Guðfinnsson virðist ekki hafa lesið kosningakaflann í frumvarpi stjórnlagaráðs. Í honum kemur skýrt fram að ætlunin er að eiga 30 svonefnd bundin þingsæti til þess að ráðstafa til þeirra kjördæma sem kunna hugsanlega að færu hallloka í kosningum  og með því að fá það fram að fullur jöfnuður náist á milli allra 63ja þingsætanna.

Þau eru sett til þess að útilokað sé að landsbyggðin fái aðeins 11 þingmenn, heldur þau sem henni ber.

Þessi bundnu sæti gætu þess vegna allt eins farið öll til landsbyggðarinnar og því eru fullyrðingar Einars og annarra, sem hver étur upp eftir öðrum og demba nú yfir landslýð, staðleysur og rangfærslur, vonandi ekki gefnar gegn betri vitund.

Í 39. grein er sérstaklega tekið fram að þessi sæti verði notuð til að ná jöfnu vægi í öllum kjördæmunum, "miðað við öll 63 þingsætin".

Þingmenn hafa haft meira en 14 mánuði til að lesa frumvarpið og samt sér maður vitleysu á borð við fullyrðingu Einars Kristins borna á borð.

Hvað snertir stjórnlagaþingkosningarnar sést Einari yfir það að kosningaþátttakan var áberandi minni á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu, einkum í Suðurkjördæmi.

Ef landsbyggðarfólkið hefði tekið meiri þátt í kosningunum hefði það að sjálfsögðu fengið fleiri fulltrúa.

Þeir sem ekki vilja kjósa sitt fólk geta ekki kvartað yfir því eftir á að hafa ekki fengið það kosið.

Síðan er stórlega misvísandi að láta búsetu eina ráða um það hverjir teljist landsbyggðarþingmenn og hverjir ekki.

Lýður Árnason var 14 ár héraðslæknir á Flateyri, Gísli Tryggvason er fæddur og uppalinn á Akureyri, Örn Báður Jónsson fæddur og uppalinn á Ísafirði og sjálfur hef ég eytt meirihluta ævistarfs míns í málefni landsbyggðarinnar og verið af þeim sökum sífellt á ferðalögum út um allt land af þeim sökum.

Ásamt Dögg, Ara og fleirum beittum við okkur fyrir því að tryggt væri að landsbyggðarkjördæmi færu ekki með skarðan hlut frá borði og talan 30 bundin sæti ætti að sýna, að allt tal um 11 landsbyggðarþingmenn fær alls ekki staðist og dapurlegt að hamrað sé á slíkri staðleysu, að því er virðist nógu oft til að fólk farið að trúa því.  

Ef farið væri ofan í saumana á raunverulegum vettvangi svonefndra landsbyggðarþingmanna síðustu árin sæist að í mörgum tilfellum var um að ræða þingmenn sem höfðu alið allan sinn aldur hér syðra og fluttu  lögheimil sín út á land til að fá þau kjör sem landsbyggðarþingmenn hafa til að sinna kjósendum sínum.

Nú síðast er Reykjavíkurþingmaður að flytja sig yfir í Norðausturkjördæmi eins og alþjóð veit.  

Nú gefa sumir sér það að Alþingi muni ákveða að kjördæmi verði aðeins eitt en ekki fleiri, allt upp í átta eins og kveðið er á í frumvarpinu og halda því fram að það sé alveg nýtilkomin hætta að Alþingi geri landið að einu kjördæmi.

En Alþingi hefur ævinlega getað lagt fram frumvarp um að landið verði eitt kjördæmi ef því sýnist svo.

Ég hef enga trú á því að núverandi þingmenn taki upp á því að gera landið að aðeins einu kjördæmi og einkennilegt að nú skuli vera hafður uppi nýr hræðsluáróður um slíkt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

heill og sæll Ómar!

Því er nú ver og miður, en mér finnst það deginum ljósara að menn á borð við EKG og Jón Bjarnason til dæmis, svo ekki sé nú minnst á Ásmund Einar og Vigdísi Hauks, (bara svo nokkrir þinmenn séu nefndir) tali gegn betri vitund, í pólitískum tilgang´´i heillagri andstöðu sinni gegn frumvarpinu og atkvæðagreiðslunni á laugardaginn.Hversu oft sem þú og fleiri hafa reynt að leiðrétta þetta og fleira sem gangrýnt er, þá er dellan bara af meiri móð endurtekin, aftur því ver og miður.

Persónulega sem Akureyringur, hef ég nákvæmlega engar áhyggjur af aukinni jöfnun atkvæðisréttar og þessa sífelda nöldurs um að "halli á landsbyggðina" og fleira í þeim dúr.Þá er mér í þessu sem öðru ákaflega ílla við fyrirbærið "Framtíðarskrattamálun" á ímyndaða veggi, samanber að þingaður á SV-horni sé sjálfkrafa stimplaður hreppapólitíkus og sjái ekki út fyrir túnfótinn sinn.

Magnús Geir Guðmundsson, 18.10.2012 kl. 23:17

2 identicon

Þakka þér fyrir Ómar. Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík en bý núna í Vestmannaeyjum. Kaus núna utankjörstaða vegna þess að ég er sjómaður. Síðasta spurningin sem ég x-aði við var einmitt um vægi atkvæða og var að spá í hvort ég væri að skjóta sjálfan mig í löppina með því að exa við já þar og staldraði því við þessa spurningu. Ég gerði það þó því það er gundvallar hugsun mín að allir sem hafa íslenskan ríkisborgararétt eigi að hafa sömu réttindi á öllum sviðum í íslensku samférlagi. Það að tryggt sé ákveðinn fjöldi þingmanna komi utan af landi finnst mér að sjálfsögðu nauðsynlegt og fannst líka þegar ég bjó í Reykjavík. Ég sé nokkurnvegin fyrir mér að 1/3 þingmanna komi utan af landi enda erum við sem búum þar um 1/3 af þjóðinni.

Björn Jóhann Guðjohnsen (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 00:11

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Andskotinn vill Einar K.,
ástar hefur til hans þrá,
ekkert vill hann annað sjá,
ætíð situr honum hjá.

Þorsteinn Briem, 19.10.2012 kl. 00:18

4 identicon

Ef þjóðin segir nei þá gerum við samt breytingar á núverandi stjórnarskrá. Og ef þjóðin segir þá gerum við samt breytingar á tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag í fyrstu efnislegu umræðunum um endurskoðun á stjórnarskránni sem Alþingi hefur efnt til á þessu kjörtímabili. Þannig, að þegar þú kjósandi góður ferð á kjörstað á laugardaginn þá skiptir ekki máli hvort þú segir eða nei. Þetta eru ekki mjög skýr skilaboð frá forsætisráðherra tveimur dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Átti forsætisráðherra ekki að leggja allt undir og tala af ástríðu fyrir tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá?

Getur það verið að forsætisráðherra sé farin að átta sig á að enn einu sinni fer ríkisstjórn hennar fram með mál sem skiptir þjóðinni upp í tvær hatrammar fylkingar andspænis hvor annarri? Og dæmi eru um að málið hafi valdið ófriði innan vinahópa og fjölskyldna. Það er átakalegt að horfa upp á átakafarveginn sem Alþingi velur að fara í hverju málinu á fætur öðru, einmitt nú þegar við þurfum á samstöðu að halda.

Hefði ekki verið óskandi að við værum að fara að kjósa um endurskoðaða stjórnarskrá á laugardaginn í sátt og samlyndi? Um vandaðar og rýndar tillögur sem þjóðin hefði fengið alvöru kynningu á og jafnvel að þjóðfundur hefði fengið að fjalla um tillögur að nýrri stjórnarskrá? Og að það væri tilhlökkunarefni og hátíð að fara á kjörstað? Því miður er það borin von úr þessu. Enn eitt tækifærið hefur farið forgörðum á þessu kjörtímabili; tækifæri til að leggja grunn að sterkara samfélagi. Það ber að harma.

cutpaste (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 05:26

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það má kannski segja að þessi kafli um kosningar, í tillögum stjórnlagaráðs, sýni enn frekar hversu orðalag þessara tillagna er gallað.

Þarna deila menn um túlkun orða og sitt sýnist hverjum. Þegar löglærðir menn hafa getu til að túlka þessa grein á sitt hvorn veginn, segir það manni að greinin er ekki tæk og útilokað fyrir leikmenn að átta sig á þýðingu hennar.

Það er sjálfsagt skýrt í hugum ráðsmanna hvað þarna er átt við, en sá skilningur nær ekki inn í frumvarpið. Þar kemur hvergi fram að þessum 30 þingsætum skuli skipta eftir því hver niðurstaða kosningar hinna 33 fer, einungis talað um að 30 þingsæti skuli bundin við kjördæmi og hin 33 skuli vera landskjörin. Það þarf að setja upp sérstök gleraugu til að skilja þessa grein á þann veg sem þú túlkar, Ómar.

Það fer ekkert á milli mála hvert þeir sem sækjast eftir landskjörnu þingsæti leita atkvæða, þeir leita þeirra þar sem fjöldinn. Ef hugsun ráðsmanna var að hin 30 ættu að jafna það misræmi sem landskjörið mun óneitanlega gefa af sér, hefði það átt að koma skýrt fram í tillögunum. Það gerir það ekki, því miður.

Ef þetta væri eini galli tillagnanna, má kannski segja að það væri fyrirgefanlegt, sér í lagi ef gengið væri í að laga það. En svo er ekki. svona óskýrleika er hægt að finna í fjölda greina tillagnanna, enda þær unnar á ótrúlega stuttum tíma. Deilur undanfarinna daga sýna þetta svart á hvítu, kannski helst deilur þær sem hafa verið milli ráðsmanna sjálfra og hafa farið fram bæði á ljósvakamiðlum sem prentmiðlum.

Það kann varla góðri lukku að stýra þegar höfundar tillagnanna, sem sagðar voru samhljóða þegar þær voru lagðar fram, skuli nú deila opinberlega um túlkun þeirra.

Gunnar Heiðarsson, 19.10.2012 kl. 07:02

6 identicon

Það næst ekki sátt og samlyndi um eitt eða neitt á meðan stærsti stjórnmálaflokkur landsins er í höndum hagsmunahópa, sem svífast einskis.

Ferlið sem endaði með því frumvarpi sem nú liggur fyrir og fólk getur tekið afstöðu til var hannað með því markmiði að sátt og samlyndi mundi ríkja. Og það tókst vel, í stjórnlagaráði sat skemmtilegur þverskurður þjóðarinnar, eins  og Ómar hefur minnt á aftur og aftir. “Í ráðinu sátu 25 afar ólíkir fulltrúar hvað snerti aldur, búsetu, kjör og viðhorf, allt frá 24 ára aldri upp í 71 árs, allt frá nánast anarkistum til afar varfærins fólks, vinstri til hægri, frá afar fötluðum til ófatlaðra“.

En það dugar ekki fulltrúum auðvaldsins á klakanum, sem vilja ráða öllu og sýni auðmönnum meiri hollustu en þjóðinni.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 07:16

7 identicon

Jónas Kristjánsson er með sterkan pistil í morgun:

Gríptu tækifærið
"Umboðsmenn kvótagreifa og annarra ríkiseigenda vilja ekki, að þú notir rétt þinn til að færa þjóðinni stjórnarskrá. Frumvarpið er byggt á þjóðfundi og einróma samþykkt í stjórnlagaráði. Taktu þátt í tækifæri til að færa valdið frá bófaflokkum til þjóðarinnar. Misstu ekki af tækifæri þjóðaratkvæðisins laugardaginn 20. október. Aldrei áður hefur þjóð verið boðið að taka beinan þátt í mótun lýðræðis-samfélags. Atkvæði þitt skiptir máli og knýr þingmenn til jákvæðra aðgerða. Gamla stjórnarskráin er fúsk frá 1944. Allir vissu þá, að alvöru stjórnarskrá þyrfti fyrr en síðar. Uppkast hennar er nú fullbúið".

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 07:24

8 identicon

Við skulum standa vörð um rætur og grundvöll íslensks samfélags og segja NEI við fyrstu spurningunni á kjörseðlinum.

Berjumst fyrir þeim breytingum sem skipta máli varðandi lífskjör og velmegun í landinu tillögur stjórnlagaráðs fjalla ekki um þau atriði.

Jón Magnússon 

Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 08:10

9 identicon

Hann Magnús þarna fyrsti gerir alveg útum umræðuna. Ekkert þarfnast glöggvunar eftir lestur hanns pistils. Kertasníkir og Valdi bróðir sömdu líðveldinu Íslandi nýja símaskrá sorry stjórnarskrá og þökk sé þeim.

Ketkrókur bróðir (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 08:19

10 Smámynd: Þórir Kjartansson

http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/10/18/hverjum-hentadi-ad-gera-ofsafengna-grylu-ur-icesave/

Sýnist sama sagan vera að endurtaka sig varðandi stjórnarskrármálið.

Þórir Kjartansson, 19.10.2012 kl. 11:42

11 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Sæll Ómar! Á morgun ætla ég að mæta á kjörstað og kjósa eftir minni bestu sannfæringu og þakka fyrir að hafa þennan rétt til að vera þjóðfélagsþegn ,sem fær að vera með í því að gera þjóðfélagið okkar  betra fyrir komandi kynslóðir.Ég vil persónulega þakka þér og samstarfsfólki þínu á stjórnlagaþingi fyrir þá miklu vinnu sem ykkur var falið okkur til góða.Ég treysti ykkur fullkomlega enda þverskurður af þjóðfélagsþegnum sem þarna sátu .Meira var ekki hægt að fara fram á.Ég ætla ekki að láta hræðsluáróður ýmissa einstaklinga og afla hafa áhrif á mig.Hafðu það ætið sem best Ómar.

Ragna Birgisdóttir, 19.10.2012 kl. 12:49

12 identicon

Sæll Kertasníkir minn. Á morgunnn ætla ég að kjósa þig.

Gunna 

Ketkrókur bróðir (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 16:40

13 identicon

Æ Æ er nú svona illa komið málefninu, Ragna Birgis farin að senda kossa úr þykjustulandi. Vonandi góð í sleik. Ekki er hún mjög áþreifanleg.

ip marple (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 16:49

14 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Takk fyrir þessa falllegu kveðju þú sem getur ekki einu sinni nafngreint þig:)

Ragna Birgisdóttir, 19.10.2012 kl. 16:55

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvernig er hægt að misskilja þennan texta í 39. grein?

" Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll 63 þingsætin."

Þetta er kristaltært og skýrt, gleraugnalaust.

Einar Kr. og félagar kjósa hins vegar leggja þetta þannig út að allt að 30 þingsætum verði úthlutað með jöfnu vægi miðað við þessi 30 þingsæti.

Ómar Ragnarsson, 19.10.2012 kl. 20:53

16 identicon

Það má þá líka sleppa bindingunni, því þarna er "má" en ekkert "skal", og meirihluti þingmanna er jú af höfuðborgarsvæðinu.

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 06:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband