Ísland örum skorið fyrir stóriðjuna.

Landsnet og áltrúarmenn segjast þurfa að leggja risa háspennulínur þvert í gegnum byggðir landsins og um svonefnd "mannvirkjabelti" þvers og kruss um hálendið til þess að bæta afhendingaröryggi til almennra notenda.

Ekkert er fjær sanni. Hið rétta er að aðeins er verið að hugsa um afhendingaröryggi fyrir stóriðjuna, en risalínurnar eru nauðsynlegar til þess að flytja orku handa tíu sinnum orkufrekari notendum en hinir almennu notendur eru samanlagt.

Nú þegar notar "orkufrekur iðnaður", sem hefur verið trúaratriði hér á landi í hálfa öld, fjórum sinnum meiri orku en aðrir samanlagt og ákveðið er stefnt að því að tvöfalda þetta að minnsta kosti, þannig að minnst tíu sinnum meiri orka fari í stóriðju en til almennra innanlandsnota.

Til þess þarf háspennulínur af stærstu gerð, og til þess að hægt sé að bjóða lægsta orkuverð í heimi, verða þessar línur að liggja ofanjarðar og stystu leið, fara um endilangar sveitir og byggðir, um jaðar Akureyrar, trufla aðflug að flugvellinum þar og liggja þar sem mest sjónmengun og rask verður um Kjöl, Sprengisand og aðrar perlur hálendisins.

Þetta er stóriðjuhraðlestin sem ekkert virðist megna að hægja á eða stöðva og það er stefnt ótrauðlega að því að valta yfir bændur og hverja þá sem dirfast að hafa efasemdir eða segja múkk.

Aðferðin er þekkt og svínvirkar. Besta dæmið er álverið í Helguvík. Þar skrifuðu aðeins þrír aðilar, orkusali, orkukaupandi og eitt sveitarfélag undir samning sem heimildar byrjun framkvæmda en  þvíngar jafnframt að minnsta kosti tólf önnur sveitarfélög til að sætta sig við gerðan hlut og samþykkja allt sem áltrúarmenn heimta.

Um allan Reykjanesskagann verður lagt net risastórra háspennulína, vega, og virkjanamannvirkja og þetta ákveðið áður en vitað er um orkuverð, hvort orka sé fyrir hendi eða hvort öllum þeim, sem dregnir verða inn í þetta ofbeldisfulla ferli hugnast þessi ósköp, hvað þá að hugað sé að hagsmunum komandi kynslóða sem er látið það eftir að standa frammi fyrir því að núlifandi kynslóð úthluti sjálfri sér allri háhitaorkunni, sem endist aðeins í 40-50 ár.

Skiptir ekki máli fyrir okkur, því að þá verðum við dauð og kynslóðir framtíðarinnar erfa Ísland örum skorið.


mbl.is Bændur leyfa ekki lagningu loftlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sumir bændur neita um lagningu háspennulína um land sitt til þess að kreista út meiri peninga fyrir leyfið. Þessi aðferð er vel þekkt þegar leggja á nýja vegi.

Miklar vegabætur eru fyrirhugaðar við Hornafjörð en einhverjir bændur standa í veginum og tala um "einsæða og ómetanlega mýrarfláka".

Money talks

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2012 kl. 11:00

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Því verður ekki á móti mælt að afhendingaröryggi raforku til almennings hefur stórbatnað eftir tilkomu stóriðjunnar.  Ég man vel eftir rafmagnsskömmtun og rafmagnsbilunum í Reykjavík áður en Búrfellsvirkjun var tekin í notkun 1969, en hún var fyrst og fremst reist vegna álversins í Straumsvík.  Kertaljós geta vissulega verið kósý, en í nútímasamfélagi eru gerðar miklu meiri kröfur en þá.

Ágúst H Bjarnason, 24.10.2012 kl. 11:44

3 identicon

Að sjálfsögðu batnaði afhendingaröryggi raforku í Reykjavík þegar bborgin tengdist nýrri virkjun með nýrri línu. Áður þurfti alfarið að treysta á Sogslínuna. Hófleg gufuvirkjun á Hellisheiði hefði gert sama gagn. Nú er Nesjavallavirkjun tengd borginni með 132KV jarðstreng sem er ónæmur fyrir veðri og ísingu.

Nú er ástandi raforkukerfis dreyfbýlisins orðið þannig að stóriðjan er farin að skerða raforkuöryggi á almenna raforkukerfinu!

Byggðalínukerfið dugar ljómandi vel til að miðla raforku um byggðir landsins og hafa flestir hlutar þess kerfis rúmlega 150MW flutningsgetu. Undantekning er "hundurinn" á frá Blöndu til Akureyrar með 100MW flutningsgetu. Til samanburðar má geta þess að aflþörf Akureyrar (Norðurorka) er uþb 20MW.

Vandinn liggur í því að búið er að tengja risavirkjanir á borð við 690MW Kárahnúkavirkjun og 150MW Blönduvirkjun og 2x600MW stóriðju inn á 150MW byggðarlínukerfið! Truflanir í stóriðjunni eða stórvirkjunum verða svo til þess að slá út heilu landshlutunum þar sem byggðarlínan ræður ekki við skammhlaup og truflanir í stóriðju/stórvirkjanahlutanum.

Skv raforkulögum þarf bygging nýrrar 220KV hringtengingar með 560MW flutningsgetu að greiðast af meira en 90% af stórnotendum sem er sá aðili sem þarf á þessum "búffer" að halda. Mannvirki af þessu tagi verður aldrei reist til almenningsnota.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 24.10.2012 kl. 13:57

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Til þess að truflanir í stóriðjuverum hafi áhrif á byggðalínukerfið, þarf eitthvað að bila í því kerfi. Það gerist sjaldan.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2012 kl. 14:17

5 identicon

Gunnar, -ertu að gefa í skyn að bilanir í stóriðjuhlutanum séu það óverulegar að Landsnet hafi ekert til síns máls um að tengja stórvirkjanir og stóriðju með þessari línu?

-Eða er þetta bara venjulegt "auto reply" frá þér -"stóriðja góð, náttúruvernd og varfærni slæm" ?

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 24.10.2012 kl. 15:04

6 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þetta er ekki rétt Ómar.  Flutningsgetan er svo léleg - að fiskmjölsbræðslurnar fá ekki raforku - nema mjög takmarkað hingað til - vegna þess hve flutningskerfið er lélegt.

Ef dæmigerð slík verkesmiðja notar 2000 tonn af svartolíu - og fær ekki rafmagn - og viðö metum hver tonn af svartolíu á við að skipta yfir í  einn rafmagnsbíl, - samsvarar það 2000 rafmagnsbílum að ein verksmiðja fái 100% raforku.

Verksmiðjurnar eru 10 - þannig að ef þær fá allar raforku - þá er það eins og skipta úr 20000  bendín/diesl bílum - yfir í rafmagnsbíla.    Þá á ég til góða að svartolía er verra eldsneyti umhverfislega - en bensín og diselolía - og ég geri þarna ráð fyrir að hver bíll eyði einu tonni af eldsneyti á  ári sem er  bara svona c.a. samanburður.

Margar verksmiðjurnar eru að byrja raforkuvæðingu - en eftir er að sjá hvort flutningkerfið getur annað flutning orkunnar...  Hugsanleg næst þetta yfir í 50% raforkunotkun á næstu árum - ef allt gengur vel.

Sem sagt, flutningkerfið er lélegt og þarfnast meira afhendirnaröryggis - eins og sýndi sig í Mývatnssveit í haust.

Stóriðjan skapar gjaldeyri - ég veit ekki hvar þú ætlar á fá gjaldeyri Ómar - til að borga niður öll gjaldeyrislánin sem voru tekin eftir hrun.  Hvar ætlar þú að fá dollara og pund til að borga Ómar ef þú vilt ekki  leyfa  þá erlendu fjárfestingu sem er í boði?

Kristinn Pétursson, 24.10.2012 kl. 15:18

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nei, Sigurður, ég er bara að segja að ef spennar og annað slíkt dót þolir ekki flökt í kerfinu, þá er eitthvað ekki eins og það á að vera. T.d. þegar flökt var á Grundartanga í fyrra þá biluðu spennar að mig minnir, sem olli svo raforkuleysi víða um land.

En ég er ekki vel að mér í tæknilegri hlið raforkumála, eins og sést á þessu svari mínu

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2012 kl. 15:26

8 identicon

Kristinn, Byggðarlínan er ekki akkilesarhæll fyrir fiskmjölsverksmiðurnar. Takmarkandi fyrir þær er dreifikerfið sem tengist Byggðarlínunni og er oftar en ekki í eigu RARIK. Ný stóriðjulína með flutningsgetu sem er meiri en öll almenn raforkunotkun breytir þar engu.

Vandamálið við Fiskmjölsverksmiðurnar er óregluleg aflþörf sem felur í sér mikið álag seinni hluta vetrar þegar mest eftirspurn er eftir raforku og framleiðsugetan er minnst.

Það er dýrt að láta línu og virkjun standa verklausa stóran hluta ársins til þess að knýja mjölþurkara í e-h mánuði. Svartolían nýtist að fullu til varmaframleiðslu en olía nýtist hinsvegar mun verr en raforka til að knýja mótóra.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 24.10.2012 kl. 16:29

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held nú reyndar að framleiðslugetan sé ekki teljandi minni á veturna. Uppistöðulónin sjá til þess.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2012 kl. 16:44

10 identicon

Hvar ég bý, liggur lína ein á trjám. Er sú nóg til að knýja iðnaðarbyggð nokkra sem gengur undir nafninu Vestmannaeyjar.
Aldrei var gengið frá löglegum samningum með línuna, enda átti sú að heita bráðabirgðalína, og ártalið var 1986.
Enn stendur hún í bráðabirgðaformi, og er óvinsæl af því að hún þverar ljómandi góða flugbraut. Alveg hundleiðinlegt að svífa undir hana......

Jón Logi (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband