Einstaklega vel heppnuð hönnun.

Það mun hafa verið kona framkvæmdastjóra Fiat verksmiðjanna sem setti fram hugmyndina um að endurreisa Fiat 500, en sem dæmi um það álit sem menn hafa á þessum smávaxna fjögurra sæta bíl, má nefna að hann fór fremstur í skrúðgöngu vetrarólympíuleikanna í Torino og Top Gear útnefndi hann kynþokkafyllsta bíl allra tíma.

Ekki voru allir sannfærðir um ágæti hugmyndarinnar. Ný gerð af Mini hafði að vísu verið ágætlega tekið, en varð enginn metsölubíll og sama var að segja um nýju Bjölluna. Nú er kominn enn ný Bjalla þar sem mun betur hefur tekist til við að ná gamla Bjöllusvipnum og auk þess lagfært stórlega rýmið afturí.

En vegna þess að Bjallan er á sama grunni og Golf finnst mér hún full stór, 26 sm breiðari og rúmlega 20 sm lengri en elsta Bjallan og næstum tvöfalt þyngri; - gluggarnir litlir og útsýnið þar með.

Kannski voru fleiri svipaðrar skoðunar og ég varðandi nýja Mini, að bíllinn væri fullstór, tvöfalt þyngri en fyrirrennarinn og eftirlíkingin á útlitinu ekki nógu vel heppnað og að þess vegna hefði hann ekki orðið metsölubíll.  

Það má hinn nýi Mini hins vegar eiga að hann er afbragðs skemmtilegur akstursbíll eins og fyrirennarinn; - enda í raun minnsta gerð BMW.

Hafi einhverjum þótt hugmynd frúarinnar djörf að endurvekja Fiat 500 batnaði það ekki þegar ráðinn var sami hönnuður og hannaði Mini til að hanna hinn nýja Fiat 500.

En ef það var gert í trausti þess að hann hefði lært af Mini-verkefninu, þá gekk það fullkomlega eftir, svo miklu betur hefur tekist til um Fiat 500. Hann er ótrúlega líkur þeim gamla án þess að rými hafi verið fórnað. 

Þar að auki er hann hátt í 200 kílóum léttari en nýi Mini og með því að nota botn nýju Pöndunnar, sem er smábíll, voru aksturseiginleikar og góð útfærsla á grunni bílsins tryggð. Bíllinn varð metsölubíll í heimalandinu og víðar, þótt verðið væri frekar hátt.

Svo vel heppnaður er Fiat 500 að Ford Ka sem er í grunninn sami bíll, þótt útlitið sé annað, selst miklu verr.

Markhópur Fiat 500, Mini og Bjöllunnar í gamla daga voru þeir, sem minnst fé höfðu á milli handanna. En um þá gilti svipað og um "bakpokalýðinn" sem kom til Íslands á þessum árum og bandarísku stúdentana sem keyptu minnstu og ódýrustu japönsku bílana að þeir höfðu ekki efni á dýrari bilum.  

Þetta fólk varð hins vegar betur fjáð með aldinum og myndaði stóran markhóp vel stæðs fólks, sem var tilbúið til að upplifa gömlu dagana þótt það kostaði miklu meira í nútímanum.

Ég er ekki í þessum hópi og læt mér nægja að vera á "ekta" Fiat 500 árgerð 1972 með minnstu bílvél landsins og fæ svo mikið út úr þessari algerlega upprunalegu upplifun að á betra finnst mér ekki kosið.

Það er gott að heyra að hinn nýi Fiat 500 verði á boðstólum hér. Hægt er að fá alls kyns útgáfur af honum, til dæmis með opnanlegu þaki eins og var á forföðurnum og í Abarth-útfærslu, þar sem aflið er tvöfaldað líkt og gert var í gamla daga á gamla Fiat 500.

Nú er hægt að fá Fiat 500 með svonefndri "Twin-air" vél, sem er tveggja strokka, en vél gamla 500 var með raunverulegri 500 vél, aðeins 499cc í tveimur strokkum.

Hún var 18 hestöfl, en nýja vélin er 85 hestöfl og tímamótavél fyrir sparnað og afl miðað við stærð, en rúmtakið er aðeins 875cc.

Nýja vélin er með sama fyrirkomulagi og vélin í NSU-Prinz var, þ. e. að strokkarnir ganga alveg samhliða, og myndu margir halda að það skapaði meiri titring. En svo er ekki og þannig var það raunar í NSU-Prinz bílnum. Ég hef alltaf jafn gaman af því að setja gömlu Nusuna mína í gang og undrast þennan þýða gang þessarar framúrstefnulegu vélar sem var með yfirliggjandi kambás og hæsta snúningshraða síns tima.  

Þá var þetta gert til einföldunar, að hægt væri að senda neista samtímis á báða strokka og geta haft netta magnettukveikju/startara á öðrum enda sveifarássins og fastboltaða kæliviftu á hinum endanum.

Engar reimar, einfalt og létt.  

En nú er tveggja strokka vélin í Fiat 500 vatnskæld og engin magnettuævintýri á ferð en þess magnaðri tækni varðandi innsprautun á eldsneyti og úrvinnslu úr því.

 

 

 


mbl.is Fiat 500 loks fáanlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband