26.10.2012 | 20:45
Brautryðjendurnir: Rúgbrauðið og Multiplan.
Myndin af Volkswagen Rúgbrauðinu, sem birtist með frétt mbl.is og gefið er í skyn að sé af upprunalegri gerð bílsins, er ekki rétt mynd, því að upprunalega gerðin, sem myndin er af hér fyrir neðan, var í boði frá 1950 til 1967, þegar henni var breytt.
Rúgbrauðið var snilldarhugmynd, naumhyggja á hástigi, því að vél, drifbúnaður og meginatriði undirvagnsins voru hin sömu og í Bjöllunni og hjólhafið meira að segja hið sama, svo og vélin, fyrst 1132cc, 26 hestafla, síðar 1192cc, 30 hestafla og 34 hestafla um 1960, og loks 1285cc, 40 hestafla.
Á þessum grunni var gerður bíll sem ótrúlega miklu rými, sæti fyrir 9 manns, og myndin hér er af svonefndum Microbus með öllum sínum gluggum og glæsileika.
Að aftan var sett niðurgírun í hjólin þannig að veghæðin var eins og á jeppa, enda komust þessir bílar ótrúlegar ófærur, mest vegna þess að vélin var fyrir aftan drifhjólin að aftan og bíllinn því sérlega duglegur við að klifra upp brekkur.
Þessi bíll varð eitt af táknum bandarísku hippabyltingarinnar og entist sérlega vel.
Renault verksmiðjurnar settu sitt "Estafaette", sem strax hlaut nafnið "Franskbrauð" í framleiðslu um 1960, með vélina að framan og framhjóladrif, en með því vannst það að gólf bílsins var flatt alla leið afturúr og því miklu fjölbreyttari möguleikar til að útfæra hleðslu og innréttingu.
Síðar neyddust Volkswagen verksmiðjurnar til þess að taka upp bíl með svona hönnun í stað Rúgbrauðsins, svo að segja má að Frakkarnir hafi gert þetta rétt í upphafi.
Ítalir telja þó flestir hafa byrjað á því að setja fjöldaframleiddan fjölnotabíl, þ. e. Fiat Multipla, sex manna bíl á grunni Fiat 600, aðeins 3,54 metra langur, eða aðeins 10 sentimetrum lengri en Toyota Aygo er í dag, með 747 cc vél, sem var aðeins 26 hestöfl.
Hann var framleiddur frá 1956 til 1967.
Margir þeirra voru notaðir sem leigubílar á Ítalíu og víðar, enda varla hægt að hugsa sér bíl, sem var ódýrari í rekstri og bílstjórinn gat samt troðið fimm farþegum inn í.
Rúgbrauðin hafa verið vinsæl sem húsbílar, því að það hentar vel að hafa tvöfalt rúm ofan á vélinni, sem er aftast í bílnum.
Rúgbrauðið á endastöð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.