1.11.2012 | 14:24
Með fágætan eiginleika: Engum var sama um hann.
Ef ferill Michaels Schumachers er nú loks á enda er hann einn af þeim íþróttastjörnum sögunnar sem náði ekki aðeins frægð vegna mikilla tilþrifa og árangurs, heldur ekki síður fyrir þann mikilvæga eiginleika að vera þeirrar gerðar að annað hvort var hann elskaður eða hataður eða jafnvel hvort tveggja, - það var einfaldlega engum sama um hann.
Allir þekktu Schumacher og höfðu skoðun á honum. Svona var þetta hjá Ali á sínum tíma og fleiri skærustu stjörnunum.
Einhvers staðar sá ég það að í bílasafni Schumachers væri einn bíll honum kærastur, og ef það er rétt, er það eini bíllinn, sem ég öfunda hann af að eiga.
Það ku vera örsmár og eldrauður Fiat 500 Abarth, fyrsti bíllinn sem Schumacher keppti á í upphafi akstursferils síns og er líklega í talsvert betra standi en "Litli-Gulur", Fiat 500 sem ég á.
Þetta skil ég vel því að ég ber svipaðar tilfinningar til fyrsta bíls míns, örbílsins NSU Prinz 30.
Stærðin eða dýrleikinn skiptir ekki alltaf öllu máli og þessir örbílar mínir hafa farið um allt land og jafnvel um hálendisvegi. Hér er Fiat 500 uppi í Siglufjarðarskarði.
Svipaðan sess skipar líka Subaru´81 sem Helga kona mín og Ninna dóttir mín kepptu á í alþjóðlega rallinu.
Strax á eftir keppti ég á honum með Jóni bróður mínum í eina stóra, alþjóðlega jepparallinu, sem haldið hefur verið hér á landi, þar sem allir útlendingarnir voru á öflugum og breyttum jeppum á stórum dekkjum, enda ekið um leiðir, sem sumar hverjar hafa aldrei verið eknar nema á alvöru jeppum. Engu að síður rúllaði Súbbinn þessu upp, stóðst einstæða áraun í tveimur lengstu og erfiðustu röllum ársins, hvoru á eftir öðru, enda tel ég þessa gerð af Subaru vera sterkbyggðustu bíla, sem komið hafa til landsins, miðað við þau not sem þeim voru ætluð.
Þorsteinn Ingason keppti líka á Lada Sport og gaf mun stærri og öflugum jeppum langt nef. Þetta uppátæki var eitthvað það skemmtilegasta og eftirminnilegasta sem ég minnist af þessum vettvangi.
Ég hef notað þennan Subaru við kvikmyndagerð mína fyrir norðan og einnig hér syðra fyrir myndina "Akstur í óbyggðum" og hyggst koma á honum annað kvöld til fagnaðar með gömlu rallfólki, sem ætlar að hittast loks á ný.
Schumacher kvaddur með keppnisbíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar. Flottir bílar, en hvað með alla ókeypis orkuna sem fer út úr þessu landi? Ég bíð enn eftir svari við þeirri hugleiðingu minni?
Það er eins og sumir séu á flótta undan hnitmiðuðum spurningum? Hvað veldur slíkum flótta?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.11.2012 kl. 02:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.