Ekki hægt að hafa alla að fífli um allt endalaust.

Það hefur verið sagt að enda þótt hægt sé að að hafa suma að fífli um sumt í takmarkaðan tíma sé ekki hægt að hafa alla að fífli um allt endalaust.

Þetta kemur upp í hugann þegar litið er yfir það hvernig gumað er þessa dagana af stórkostlegum og endanlegum lausnum um gernýtingu jarðvarmans og að búið sé að gulltryggja þær allar.

Allt fram á þennan dag hefur hver étið það upp eftir öðrum sem staðreynd, allt frá forsetanum og niður úr, og haft það fyrir öðrum, allt frá erlendum þjóðhöfðingjum og niður úr, að háhitavirkjanir feli í sér endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun. Þó er það vísindalega viðurkennd staðreynd, að því fer fjarri eins og nú háttar um orkuvinnsluna.

Við virkjanirnar eru miðað við að þær endist í 50 ár og nýlega var talan 40 ár nefnd um endingu Hellisheiðarvirkjunar. Jarðvarmahólfið Svartsengi-Eldvörp lækkar með hraða sem bendir til slíks skammlífis, en samt er sótt fast að því að umturna Eldvörpum og minnka þar með endingu hólfsins niður í minna en 30 ár! IMG_3438

Allt þangað til í haust var þrætt fyrir það að nokkurt vandamál væri með affallsvatn frá Svartsengisvirkjun. Nú er ætlunin að grafa 4,5 km langan skurð alla leið til sjávar til að tappa af.

Fyrir áratug var því lofað að með niðurdælingu myndi ráðast vandræðalaust við IMG_3610affallsvatn Heillisheiðarvirkjunar og lofað að ekki yrði mengun af brennisteinsvetni. Engar skemmdir áttu að verða á mosa vegna eitraðs lofts. Hið ömurlega nýtingarhlutfall orkunnar, 13-15%, skyldi stórhækkað.  

Ekkert af þessu hefur staðist og manngerðir jarðskjálftar bæst við. 

Nú biðja forráðamenn virkjunarinnar um átta ár til að leita að lausnar án þess að neitt sé vitað um hvort það nægi!

Affallstjarnirnar fyrir vestan virkjunina voru skrifaðar á vorleysingar í vor, en hafa stækkað í allt sumar og fram á haust, þrátt fyrir þurrasta sumar í manna minnum.  

Manngerðir jarðskjálftar voru ekki nefndir fyrir tíu árum en nú standa menn frammi fyrir þeim.

Nú eru skrifaðar um það miklar skýrslur með loforðum um að öll orkan hjá HS orku verði "gjörnýtt".

Og skilað skýrslum til Alþingis um að allt sé gulltryggt varðandi Bjarnarflagsvirkjun, sem þó er sex sinnum nær byggð en Hellisheiðarvirkjun.

Sagt er að niðurdæling við Kröflu hafi tekist frábærlega þótt affallsvatnið frá virkjuninni valdi nú sístækkandi lóni í tíu kílómetra fjarlægð!

Vaáá!

Menn blogga um það í fúlustu alvöru og trúa því sennilega, að Hellisheiðarvirkjun sé jöfnum höndum venjuleg hitaveita og raforkuver á sama tíma og hið lága nýtingarhlutfall er til komið vegna þess að hún er einmitt ekki blönduð virkjun eins og Nesjavallavirkjun að þessu leyti.

Menn blogga um það að Guðni Axelsson hafi sannað að íslenskar háhitavirkjanir búi til endurnýjanlega orku af því að jafnvægi muni með tímanum komast á milli orkunýringarinnar og orkuinnstreymisins.

Guðna er engum greiði gerður með svona bulli og rangfærslum. Þeir sem kunna að lesa sáu í grein hans og Ólafs Flóvenz í Morgunblaðinu leidd rök að því að hægt væri að leita fyrrnefnds jafnvægis með því að minnka orkuöflunina jafnóðum og í ljós kæmi hve mikið hún þyrfti að minnka til þess að jafnvægi næðist.

Miðað við rannsóknir vísindamanna og nýjustu tölunnar um 40 ára endingartíma Hellisheiðarvirkjunar, þyrfti væntanlega að minnka orkuöflunina þar hið snarasta um allt að 70% til þess að nálgast sjálfbæra þróun.

Það er hins vegar ekki hægt og verður ekki gert, vegna þess að það er búið á siðlausan hátt að ráðstafa hámarksorkunni til 40 ára og þar með búið að gulltryggja þann glæp gagnvart komandi kynslóðum að ræna þessar orku af þeim af tómri græðgi í stað þess að fara rólega af stað í samræmi við kenningar Guðna og ábendingar orkumálastjóra.

Hvernig má það vera að menn hafa komist upp með þetta? Jú, það er hægt að hafa suma að fífli um sumt í takmarkaðan tíma.

En hvenær kemur að því að fólk hætti að láta fara svona með sig og segi í staðinn, þegar nákvæmlega sömu loforðin eru höfð uppi og hingað til: "Það er hægt að hafa suma að fífli um sumt í takmarkaðan tíma en ekki alla að fífli um allt endalaust"?

Kannski aldrei. Vegna þess að það virðist ævinlega henta stundarhagsmunum nógu margra að láta hafa sig að fífli.

  

   


mbl.is Áhrif niðurdælingar talin hverfandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég leyfi mér að vísa á bloggpistil minn frá því morgun sem fjallar um svokallaða fjölnýtingu á jarðhitasvæðum. Sjá hér.

Ágúst H Bjarnason, 3.11.2012 kl. 19:01

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka ágætann pistil Ómar, þó ég geti hvorki samþykkt hann né hafnað. Hef einfaldlega ekki þekkingu á málinu.

Hitt er þó ljóst og ætti ekki að hafa framhjá nokkrum Íslending, að þekking á nýtingu jarðvarma til húshitunar er enn mjög takmörkuð og meðan svo er á ekki að fara fram með því offorsu sem verið hefur. Þá er sú sóun sem viðgengst í þessum orkuverum, þar sem stæðsti hluti vatnsins og í sumum tilfellum allt vatnið, er látið fara til spillis. Þetta er auðvitað þvílík sóun að vart verður við unað.

Við höfum í áratugi nýtt heitt vatn til húsahitunar og sífellt fleiri svæði landsins sem njóta þeirra gæða. Þetta er af hinu góða og hefur veitt okkur mikil lífsgæði. Þar sem slík notkun jarðvarmans fer fram, er sjálfsagt að nýta hann einnig til raffamleiðslu, þar sem því verður við komið.

Að nýting jarðvarma til húshitunar sé meginmarkmið en raforkuframleiðslan sé aukaafurð.

Vel gæti svo farið, einhverntímann í framtíðinn, að hægt verði að fara í sjálfbæra nýtingu á jarðvarma til raforkuframleiðslu. En meðan svo mikil óvissa er um afleiðingar þess fyrir náttúruna, á það að bíða.

Það er eitt að hafa þekkingu og tækni til slíkrar nýingar, annað að þekkja afleiðingar þess. Sú þekking er enn langt undan.

Gunnar Heiðarsson, 3.11.2012 kl. 19:46

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var búinn að lesa þennan fræðandi pistil og einnig athugasemdirnar við hann áður en ég skrifaði minn. Í þessum pistli þínum er meðal annars rætt um djúpboranir eins og þær séu algerlega leyst mál. Fyrir rúmum áratug var ég einn þeirra sem lét fíflast til að trúa svipuðum fullyrðingum um djúpboranir, sem myndu verða komnar á fullt eftir örfá ár.

Enn lifa þær góðu lífi og varpa ljósi á meginatriðið í pistli mínum nú: Í stað þess að ganga að að alls kyns draumsýnum og kenningum um gjörnýtingu jarðvarmans og lausn allra viðfangsefnanna í sambandi við hann sem orðnum hlut á að taka upp ný vinnubrögð og gera þá sjálfsögðu kröfu, að búið sé að sanna það verklega að þessar aðferðir og kenningar standist áður en vaðið er áfram eins og gert hefur verið.  

Ómar Ragnarsson, 3.11.2012 kl. 20:08

4 identicon

Ómar, Þessi frábæra grein Ágústar kemur beint að kjarna málsins sem orða má sem fagurgala og óskhyggu og skautar alfarið framhjá raunverulegum gögnum og mælingum.

Ágúst,

Frábært að heyra um þessa framsýni Suðurnesjamanna.

Þeir eru svo framsýnir HS snillingarnir að þegar Orkustofnum mat langtíma afrakstrargetu háhitasvæðisins á Reykjanesi vera 47MWe þá byggðu þeir af stórhug 100MWe virkjun...

-Ekki nóg með það! -Þeir eiga eina 50MW vél í viðbót og vantar bara lánstraust til að setja hana upp og auka hraða þrýstifalls kerfisins um 50%.

Þess má geta að þrýstingur jarhitakerfisins fellur hratt og línulega með tíma og er það þrýstifall það hratt að sjálfdautt verður á amk. annari vélinni vel fyrir 2030!

Framsýnin við Reykjanesvirkjun innifelur líka hellings sparnað við niðurdælingu sem OS gerði að skiliyrði fyrir virkjunarleyfi og HS lætur þess í stað affallið flakka beint í úthafið! (þarna fólst framsýnin að velja virkjunarstað þar sem vatnshallir er til sjávar)

Ágúst, -viltu ekki birta þrýstigrafið af Reykjanesi?

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 3.11.2012 kl. 21:36

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held að ekkert fari á milli mála, Ómar, að umhverfisáhrif jarðvarmavirkjana eru umtalsverð, en eitt í þessum áhrifum hef ég nákvæmlega engar áhyggjur af frá sjónarhorni náttúrunnar.  Vilji menn nýta orkuna á það miklum hraða að hitahólfin tæmist, þá bara gerist það og það verða eigendur virkjananna sem tapa á því.  Náttúran leiðréttir það á einhverjum áratugum eða árhundruðum, í versta falli árþúsundum.  Alveg eins og náttúran mun líklegast, gefist henni tækifæri til þess, þurrka út ummerki um manninn smátt og smátt.  Hún hefur gert það hingað til, eins og sjá má á því sem kemur upp í fornleyfauppgrefti.  Hólar og hæðir reynast geyma fornar minjar, sem engum datt íhug að væru þar.

Marinó G. Njálsson, 3.11.2012 kl. 22:05

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, menn verða hissa þegar þeir finna Sjálfstæðisflokkinn í einhverjum hólnum.

Og allir löngu búnir að steingleyma honum.

Þorsteinn Briem, 3.11.2012 kl. 23:56

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég kalla það "hvort eð er" stefnuna þar sem menn segja sem svo að vegna þess að náttúran muni "hvort eð er" jafna um allt bröltið okkar um síðir, jafnvel eftir þúsundir ára, getum við hagað okkur eins og okkur sýnist.

Samkvæmt þessu getum við gert hvað sem ér. Til dæmis er vitað að Þingvallasigdældin sígur með tímanum og að vatnið getur þess vegna drekkt Völlunum á nokkrum öldum. Þar með væri bara allt í lagi að gera þar hvað sem er, náttúran mun "hvort eð er" drekkja staðnum.

Við getum líka þess vegna leyft utanvegaakstur og hvers kyns virkjanaframkvæmdir í Friðlandi að Fjallabaki vegna þess að þess kann ekki að vera langt að bíða að þar verði stórfelld eldsumbrot sem muni breyta þar öllu "hvort eð er".

"Hvort eð er" mönnunum gleymist hins vegar að taka með í reikninginn þær kynslóðir á þessari öld og þeim næstu sem græðgisfullar aðgerðir okkar munu bitna af fullum þunga á áður en náttúran fær ráðrúm til að "þurrka út ummerki mannsins smátt og smátt."

Og einkennilegt er að heyra sjálfan Marínó Njálsson hafa engar áhyggjur af því þótt barnabörn okkar fái afleiðingar gerða okkar að fullu í hausinn og segir að "það verði bara eigendur virkjananna sem tapa á því". 

Hverjir eru eigendur virkjananna? Jú OR, Landsvirkjun og HS orka. Það er ekki aðeins það að skammsýni á vegum þessara virkjana muni bitna á núlifandi almenningi heldur að fullu á næstu kynslóðum, sem í formi erfða verða eigendur þeirra.

Í aðdraganda Hrunsins sögðu menn að það þyrfti engar áhyggjur að hafa af einkfyrirtækjunum sem stóðu fyrir því að blása upp bankabóluna miklu.  

Og hvernig fór? Enginn ætti að vita það betur en Marínó Njálsson hvernig almenningur hefur tekið á sig þetta tap á meðan stórfyrirtækin hafa fengið afskrifaða tugi ef ekki hundruð milljarða og þeir, sem stóðu að þessu, haldið lúxus fasteignum og lausamunum sínum.

Í fyrrakvöld var frétt um eitt af mörgum dæmum. Eftir afskrift á 2,5 milljörðum einkafyrirtækis á Hornafirði velta eigendurnir sér í milljörðum í formi gróða, arðgreiðslna og kaupa á kvóta upp á tvo milljarða.

Ómar Ragnarsson, 3.11.2012 kl. 23:56

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Af öfgunum skulum við þekkja þá!! mjög svo marga,hvar værum við stödd,ef þeir væru ekki??? þú ert þvi miður í þessum hóp,Ómar farðu nú meðalvegin einu sinni/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 4.11.2012 kl. 00:15

9 identicon

Það er einmitt afleitt að fyrirtæki fari á hausinn,sérstaklega fyrir óforsjálni og glannaskap.  Fyrirtæki eiga að vera arðbær og í raun sjálfbær,byggja á eðlilegum grunni en ekki óraunhæfum væntingum og illa grunduðum forsendum eins og virðist vera um þessar jarðvarmavirkjanir.  Ég er orðin efins um að auðlindagjald neinskonar sé framtíðin. Miklu frekar að vel rekin og heilbrigð fyrirtæki greiði skatta og skyldur til þjóðarbúsins.Þess vegna er leitt að sjá stofnað til þeirra af svona miklu flaustri og þekkingarskorti. 

Það er orðin lenska hér að græða á því að stofna fyrirtæki miklu frekar en að reka þau, hvort sem um er að ræða jarðvarmafyrirtæki,flugxxxx farmiðasölu,verslunarmiðstöð,hótel eða hvað annað.

Hvenær skyldi það nú breytast,a.m.k. dugði ekki eitt stykki HRUN til þess?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 4.11.2012 kl. 00:32

11 identicon

slepptu því að reyna að svara þessum "halla gamla" , hann er óttalegur kjáni sem sveiflast eins og vindhani í skoðunum, engar skoðanir með rökum heldur bara gífuryrði og sterkar skoðanir sem sveiflast dag frá degi(öfgar í skapsveiflum?), hef séð hann á blogginu bölva þeim sem eru á móti virkjunum í neðri Þjórsá og kalla þá öfgamenn en samt sem áður þegar ég var að gúggla gamlar fréttir þá var hann sjálfur á móti þeim skv. kommenti í þessu bloggi http://sas.blog.is/blog/sas/entry/120772/

Ari (IP-tala skráð) 4.11.2012 kl. 01:36

12 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þaö er margt áhugavert í skrifum Ágústar H Bjarnasonar.

Svona til að eiga svar við þessum áhyggjum af niðurdælingu, -  að þó það þyrfti færa  niðurdælingu hluta affallsvatns eitthvað austur á bóginn t.d. eftir 20 ár, - þá er það allt gerlegt. +Eg er ekki að segja að það þyrfti alla leið í Jökulsá á Fjöllum, - en hún myndi rata með affallsvatnið til sjávar - ef svo bæri við án þess að muna neitt um það.

Þá er sem sag til "öryggislausn" á þessum áhættuflokk Ómar - ef niðurdæling þarna yrði síðar talin óæskileg Ómar.  Þetta er nokkurs konar "bakk upp" lausn við þessari gagnrýni þinni um niðurdælingu í Bjarnarflagi.

En aðalatriði málsins er órætt. Hvaðan á þjóðin að fá auknar gjaldeyristekjur - til að borga til baka gjaldeyrislánin og bæta lífskjör þjóðarinnar aftur.  Það finnst mér vanta í alla umræðuna á Íslandi.

Er ekki mikilvægt að hafa vinnu og eiga fyrir afborgunum?  Við verðum að hefja fjárfestingar aftur, - annars fer allt á hausisnn aftur.

Kristinn Pétursson, 4.11.2012 kl. 08:02

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verðbólgan hér á Íslandi er nú 4,2% og stýrivextir Seðlabanka Íslands 5,75% en í janúar 2009, þegar Davíð Oddsson var ennþá bankastjóri Seðlabankans, var verðbólgan hér 18,6% og stýrivextir Seðlabankans 18%.

Og árið 2006, í miðju "góðærinu", var 2,9% atvinnuleysi hér á Íslandi.

Þorsteinn Briem, 4.11.2012 kl. 09:00

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Starfandi Íslendingum hefur fjölgað um 7.500 á einu ári.

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar nú í september var atvinnuleysi komið niður í 5% (en mældist 6% fyrir ári) og skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun nú í september var 4,9% (en var 6,6% fyrir ári).

Og samkvæmt könnun Hagstofunnar fyrir september síðastliðinn hefur starfandi fólki fjölgað um 7.500 frá september í fyrra."

Þorsteinn Briem, 4.11.2012 kl. 09:02

15 Smámynd: Haraldur Haraldsson

slepptu því að reyna að svara þessum "halla gamla" , hann er óttalegur kjáni sem sveiflast eins og vindhani í skoðunum, engar skoðanir með rökum heldur bara gífuryrði og sterkar skoðanir sem sveiflast dag frá degi(öfgar í skapsveiflum?), hef séð hann á blogginu bölva þeim sem eru á móti virkjunum í neðri Þjórsá og kalla þá öfgamenn en samt sem áður þegar ég var að gúggla gamlar fréttir þá var hann sjálfur á móti þeim skv. kommenti í þessu bloggi http://sas.blog.is/blog/sas/entry/120772/Þetta er ein og annað frá ykkur öfgasinnum,svaraðu ekki Halla gamla,segðirðu Ari ,þu gerir manni upp orð ,það er svo að ég er mikill bændavinur og set þetta þessa vegna,það er hægt að virkja þarna í besta samkomulegi!!!OG talandi um skapsveiflur,þær eru i okkur 0llum!! en ég krsifa bara ein og menni finnst en ekki fyrir Öfgamenn,Við Ómar hefi ég ekkrt nema gott eitt að málum erum við Ómar sammála og þáð gott Trúmálum Bilamálum og Flugmálum og einnig réttlátum umhverfismálum/Annars bara Kveðja á ykkkur báða!!Þó svo Ómar geti bara svarað fyrir sig sjalfur!!!!

Haraldur Haraldsson, 4.11.2012 kl. 10:36

16 identicon

Kristinn, -Niðurdælingin má ekki vera afgangsstærð eins og verið hefur með aðrar jarðhitavirkjanir. Því er nauðsynlegt að setja virkjunaraðilum ströng starfsskilyrði þar sem þeir hafa ekki staðið sig sem skildi hingað til. Það er engin töfralausn að dæla kólnandi borholuvatninu um langan veg á yfirborði (til austurs) vegna gríðarlegra útfellinga í lögnum en borholuvatnið er orðið verulega yfirmettað strax við 100 gráður.

LV er í raun búin að viðurkenna að umhverfismatið frá 2003 er úrelt en þar var ekki gert ráð fyrir niðurdælingu en í dag talar LV fjálglega um að dæla niður djúpvatni til að minka umhverfisskaðann.

Það hefur legið ljóst fyrir frá því 2003 að brennisteinsvetnis mengun í Reykjhalíð verður margfalt meiri en mælst hefur í Hveragerði Í þeim efnum er komið að tómum kofum hjá LV.

Svo þarft þú að skýra Kristinn, með hvaða hætti arðlausar/arðlitlar virkjanir sem reistar eru fyrir erlend lánsfé gagnast við að rétta af gjaldeyrisskipti við útlönd?

Það tekur áratugi að ná inn gjaldeyri á móti þeim sem tekin var að láni til virkjanagerðar og t.a.m í dæmi Reykjanesvirkjunar er óvíst að það náist á líftíma virkjunarinnar.

Skuldir landsvirkjunar eru t.a.m verulega mikið hærri en eigið fé og því má ætla að Landsvirkjun eigi nokkuð í land við að skila inn nettó gjaldeyri til landsins þó svo að laun stóriðjustarfsmanna og óverulegar skattgreiðlur stóriðjunnar kominn inn í hagkerfið í erlendri mynt.

Ég sé því ekki snilldina í því að taka stórfeld erlend lán til þessara arðlitlu framkvæmda.

ORKU-lindir eru ekki AUÐ-lindir nema að arður sé af hagnýtingu þeirra. Arðurinn af raforkusölu til stóriðju hefur hingað til farið til orkukaupenda en ekki til eigenda auðlindarinnar.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 4.11.2012 kl. 11:19

17 identicon

Mikið til í þessu hjá þér ómar. Nðurdælingar hafa hingað til ekki verið að gera sig en það má helst ekki tala um það. Ég er sammála þér með það að það er glapræði að fara í gang með niðurdælingu við hliðina á mývatni. Það að auka skjálftavirkni á svæði sem er nánast eins og ostur með endalausum gjám hingað og þangað getur haft ótrúlegar afleiðingar. Í þessu samhengi langar mig til að varpa fram spurningunni "hver ætlar að tryggja mývatn" Efast um að hvorki tm né sjóvá vilji tryggja að vatnið spillist ekki af menguðu vatni úr borholum né að ef skjálftar verði nægjanlega miklir lendum við kanski í að vatnið hverfi? annað eins hefur nú gerst í veröldinni

Þorsteinn Þorgeirsson (IP-tala skráð) 4.11.2012 kl. 12:42

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þú greinilega misskilur mig, Ómar, er ég virkilega hissa á því, þar sem þú veist alveg upp á hár hvað ég stend fyrir í þessu. Mér finnst þetta raunar ómerkilegur útúrsnúningur á mínum orðum, svo ég noti pen orð.

Varðandi háhitavirkjanir, þá skiptir það engu máli upp á umhverfisáhrif hvort hólfið undir þeim tæmist tímabundið með of mikilli nýtingu eða að það sé nýtanlegt með hóflegri nýtingu. Þetta veist þú.  Heildarorkunýtingin verður sú sama. Í athugasemd hér að ofan nefni ég einmitt að náttúruskemmdir séu óafsakanlegar. Ég hef margoft, tekið fram í athugasemdum hjá þér, Ómar, og fleirum, að mér finnst við ganga illa um landið. Ég er leiðsögumaður og hef m.a. vinnu af því að selja náttúru landsins. Margoft á ferð um það, þarf ég að beina athygli ferðamannanna í hina áttina svo þeir sjái ekki umhverfisskemmdirnar.

Hvernig þér dettur í hug að tengja náttúruskemmdum á Þingvöllum við orð mín, lýsir þér en ekki mér. Mínum orðum í athugasemd hjá þér, var eingöngu beint að því að hitahólfin undir jarðvarmavirkjunum myndu hætta ða gefa af sér.

Þessi útúrsnúningur fær mig til að velta því fyrir mér hvort menn megi ekki vera ósammála þér um sum efni, þá fái þeir svona sendingu frá þér.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2012 kl. 13:34

19 identicon

Marinó, -Ég skildi þetta fyrra innlegg þitt með líkum hætti og Ómar og varð satt að segja undrandi við lesturinn. Grunar að svo hafi verið um fleiri.

Held þó að ofnýting sem ekki sést verði samt að flokkast sem skaðleg umhverfisáhrif og er vissulega ekki sjálfbæra á milli kynslóða.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 4.11.2012 kl. 17:47

20 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gott er að heyra, Marínó, að þú sért í meginatriðum á svipuðu róli og ég varðandi umgengni um landið.

En ég fellst ekki á það sjónarmið þitt að allt sé í lagi að tæma hitahólf undir háhitavirkjunum til gagns fyrir aðeins 1-2 kynslóðir og ræna næstu kynslóðir afrakstrinum.

Ég fellst ekki á þetta vegna þess að enda þótt vísindamenn séu ekki á einu máli um það, á hve margar kynslóðir framtíðarinnar sé mögulegt til að dreifa þessum ágóða, telja allmargir þeirra þetta mögulegt.

Langflestir þeirra, sem þetta mál snertir og gætu notið fyrirhyggju okkar, eru ófæddar.

Hvað myndu menn segja í dag ef fyrsta stórvirkjun Íslands fyrir hálfri öld, væri núna að syngja sitt síðasta?  Myndu menn telja þá Ólaf Thors, Bjarna Ben, Emil og Gylfa hafa hagað sér siðlega ef þeir hefðu viljað gefa skít í okkur, sem nú lifum?

Ómar Ragnarsson, 4.11.2012 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband