5.11.2012 | 13:15
Of nálægt Esjunni fyrir flugvöll.
Margir hafa leitað logandi ljósi að flugvallarstæðum á Reykjavíkursvæðinu, og má nefna eftirtalda staði:
Geldinganes, Engey, Hólmsheiði, Löngusker, Álftanes, Bessastaðanes á Álftanesi og Kapelluhraun.
Ef núverandi flugvallarstæði er talið með eru þetta átta staðir.
Þrír fyrsttöldu staðirnir, Geldinganes, Engey og Hólmsheiði hafa allir lakari flugveðurskilyrði en núverandi flugvöllur, ýmist vegna meira misvindis eins og tölur frá Geldinganesi sýna, eða vegna meira misvindis og hæðar yfir sjó eins og er á Hólmsheiði.
Kapelluhraun er líka með mikið misvindi þegar vindur stendur af Reykjanesfjallgarðinum og þar rignir mun meira en í Reykjavík.
Löngusker liggja afar lágt og vegna hækkandi sjávarstöðu og lækkandi lands verður það stæði varla talið raunhæft fyrir mannvirki vegna ágangs sjávar og sjóroks, og raunar nær, ef menn vilja endilega reisa þar mannvirki, að gera þar íbúðabyggð og láta þann eina gerning nægja í stað þess að fara út í þrjá gerninga: Rífa núverandi flugvöll, byggja þar nýtt íbúðahverfi og byggja flugvöll á Lönguskerjum.
Tvö flugvallarstæði eru með bestu flugveðurskilyrðin: Álftanes og Bessastaðanes á Álftanesi, rétt eins og skaparinn hafi ætlað þeim að verða flugvallarstæði.
Þetta var umrætt sem raunhæfur möguleiki um 1960 en þáverandi borgarstjórnarmeirihluti með Geir Hallgrímsson í broddi fylkingar ákvað að halda sig við núverandi stæði og í ráðherratíð sinni áratug síðar, sló Hannibal Valdimarsson þetta út af borðinu.
Skásti kosturinn nú væri að halda samkeppni um framtíðarflugvöll á núverandi stað þar sem skoða mætti möguleika á að bæta flugvöllinn og umhverfi hans og losa talsvert rými fyrir íbúðabyggð í leiðinni.
Á sínum tíma var haldin samkeppni um svæðið án flugvallar og þess vegna ríkir ójafnræði og skortur á upplýsingum meðan ekki er líka haldin samkeppni um flugvöll á þessu svæði og umhverfi hans.
Esjan virkjaði vindana í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hætta er nú á að veðrið verði algjörlega óútreiknanlegt í framtíðinni og þetta veður sem kom sé bara forsmekkurinn af því sem bíður okkar !
http://www.dn.no/forsiden/politikkSamfunn/article1666270.ece
Jon Pall Garðarsson (IP-tala skráð) 5.11.2012 kl. 14:24
Það þarf ekkert að leita eftir flugvallarstæði, það er þarna í mýrinni og hefur það gott. Og endurnar eru líka alveg sammála. En gróðafíklarnir geta farið útfyrir bæ og byggt fangelsi yfir alla þessa nýju glæpona og sjálfasig á eftir. Háskólinn gæti verið í sama húsi og getur hann þá fengið ókeypis kennara í því hvernig á ekki að reikna og framkvæma hluti.
50 cal.
Eyjólfur Jónsson, 5.11.2012 kl. 14:30
Á Hólmsheiðinni var að meðaltali 79,8% loftraki árin 2006 og 2007 en 75,3% í Vatnsmýrinni.
Meðalvindhraði á Hólmsheiðinni á þessu tímabili var 6,6 m/s en í Vatnsmýrinni 5,4 m/s og tíðni vindátta var áþekk.
Og á Hólmsheiðinni var meðalhitinn 4,5 gráður, eða 1,1 gráðu lægri en á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli, sá sami og á Reykjavíkurflugvelli árið 1975.
Hæð flugvallarins á Hólmsheiðinni yfir sjó yrði 135 metrar en Keflavíkurflugvöllur er í 52ja metra hæð.
Blindaðflug yrði mögulegt úr austri og vestri og Hólmsheiði fær góða eða þokkalega einkunn fyrir alla flugstarfsemi, þar með talið sjúkraflug.
Veðurmælingar á Hólmsheiði, Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli
Þorsteinn Briem, 5.11.2012 kl. 14:59
11.7.2012:
"Reykjavíkurborg fer með skipulagsvald á flugvallarsvæðinu og það verður innanríkisráðherra að virða eins og aðrir.
Þetta segir formaður borgarráðs sem telur að áætlanir um íbúðabyggð í Vatnsmýrinni standist og flugvöllurinn verði farinn þaðan árið 2024."
Segir innanríkisráðherra þurfa að virða skipulagsvald Reykjavíkur
Þorsteinn Briem, 5.11.2012 kl. 15:05
Í einni af mínum allra fyrstu bloggfærslum skrifaði ég um Álftanesflugvöll (á Bessastaðanesi) og lét kort fylgja.
http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/326921/
Emil Hannes Valgeirsson, 5.11.2012 kl. 16:00
Hafa flugvöllinn þar sem hann er og byggja nýja flug og umferðastöð við hann, fyrir bæði strætó og rútur. Það er náttúrulega fáránlegt að það skuli ekki vera almenningssamgöngur til og frá flugvellinum.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.11.2012 kl. 17:52
"Aðalskipulag hefur nánast stöðu lagasetningar og vegur mjög þungt.
Til að mynda er aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 undirritað af borgarstjóranum í Reykjavík, skipulagsstjóra ríkisins og umhverfisráðherra, ásamt vottum."
Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur 18. apríl 2002, afgreitt af Skipulagsstofnun til staðfestingar umhverfisráðherra 19. desember 2002 og staðfest af umhverfisráðherra 20. desember 2002.
Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024
Þorsteinn Briem, 5.11.2012 kl. 17:57
Í frumvarpi stjórnlagaráðs eru ný ákvæði um vald sveitarstjórna og sett nálægðarregla til að snúa því við að hér á landi fer 30% opinbers fjár í gegnum sveitarfélögin en 70% í gegnum ríkið. Þetta er öfugt í nágrannalöndunum.
En síðan skipulagsvald einstakra sveitarfélaga var komið í núverandi horf fyrir áratug er það augljós galli þegar það ýmist veitir jafnvel fámennum sveitarfélögum vald til að standa fyrir stórfelldum náttúruspjöllum á heimsvísu eða kemur til dæmis í veg fyrir hagkvæmustu samgönguframkvæmd á Íslandi sem er að leggja hringveginn 14 km styttri leið um sveitarfélagið. Læt þetta nægja í bili.
Ómar Ragnarsson, 5.11.2012 kl. 19:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.