Fer þetta fram úr Profumo-hneykslinu?

Svonefnt Profumo-hneyksli sem skók bresku ríkisstjórnina og hermálayfirvöld Bretlands árið 1963 kemur í hugann þegar Petraeus-hneykslið blæs út og verður æ reyfarakenndara með hverjum deginum.

Sameiginlegt eiga þessi mál það að yfirmenn í viðkvæmum ábyrgðarstöðum. þar sem gífurleg leynd og trúnaður á að ríkja gagnvart öryggi ríkisins og hersins, voru í óæskilegu sambandi við sér mun yngri konur (Christine Keeler var þá 21. árs) og af því að um framhjáhald var að ræða, var hætta á "leka" á trúnaðarmálum, sem vörðuðu öryggis- og hernaðarhagsmuni og jafnvel hætta á fjárkúgun og hótunum.

John Profumo var hermálaráðherra Bretlands í ríkisstjórn Harolds MacMillans þegar hann komst í partíi fína fólksins í höll í eigu Astors lávarðs í kynni við Christine Keeler, sem var fatafella og meint vændiskona, féll fyrir henni og tók upp náið samband við hana.

En það var ekki það versta. Keeler hafði nefnilega fleiri í takinu, Johnny Edgecomb, þekktan dópmangara og Jevgeni Ivanof, fulltrúa í sovéska sendiráðinu og meintan njósnara KGB.

Um tíma leit út fyrir að hægt yrði að leyna þessu þegar Profumo var aðvaraður og hvattur til að slíta sambandinu við Keeler. En það var of seint því að þegar dópmangarinn skaut úr byssu við hús Keelers komst málið í hámæli, Profumo varð að segja af sér og ríkisstjórn íhaldsflokksins og fína fólkið í kringum hana var sett í slæmt ljós.

Þegar málið var í hámæli tók Lewis Morley heimsfræga "nektar"mynd af Keeler, einhverja þá þekktustu í sögunni. Það átti upphaflega að taka hana sem hreina nektarmynd, en Keeler streittist á móti því.

Samkomulag náðist loks um að hún væri að vísu án fata en að það kæmi þó ekki berlega í ljós, -ljósmyndarinn, Lewis Morley, tók sem sé það sem sé til bragðs, sem gerði myndina enn betri, að láta Keeler sitja klofvega og gleiða öfugt á krossviðsstóli, þannig að stólbakið skyggði á dýrðina og við áttu orð skáldsins:

                        "Fegurð hrífur hugann meira

                        ef hjúpuð er,

                        svo andann gruni ennþá fleira

                        en augað sér."

Af fyrrnefndum persónum varð Keeler langfrægust og enn í dag man ég delluvísur sem ég söng á þessum tíma, þar sem ég læt hana koma óbeint við sögu. Lagið var vinsælt og er því mér í minni þótt nafn þess sæi ég aldrei á prenti en minnir að það héti Doo-run-run-run eða eitthvað í þá áttina.

Rugltextinn sá arna sú er svona og fjallar um vandaræðagang textahetjunnar:

                          Piltur hitti konu og bað hana að kyssa sig.

                          Hún sagði: "Nei, nei, nei, nei, nei, neineinei."

                          Hann sagði: "Aldrei, meyja vil ég missa þig."

                          Hún sagði: "Nei, nei, nei, neinei, svei, svei svei."

                          Bónorð háði hann og því sem þráði hann

                          þar með náði hann,

                          nú er hún ei, ei, ei, ei, ei ei hrein mey.

Hann stamaði mjög mikið og hann stundi í pín:  

"kys-kys-kys-kys-kys-kysstu mig!

Og kötturinn tók auðvitað allt til sín

og kis-kis hrissti sig og hrissti sig.

Hjónabandið varð valt, -

vó yfir hyldýpi salt

og iss, iss, það vildi oft verða hryssingskalt,

hann mis-misskildi, hann misskildi allt.

                   Hann ætlaði að hæla henni með háum róm

                   og sagði: "Ha! Ha! Hahaha! - Hafðu mitt hrós."  

                  Hann var að lesa um Christine Keeler

                  og hann kvað upp sinn dóm:

                  Hún ma-mamm-makalaus er götudrós.

                  Mamma hans tók það til sín

                  tárfelldi, það var ei grín.

                  Hann sagði: "Amma-amalegt þetta er

                 og amma hans, hún ætlaði alveg að sleppa sér!

Bið annars velvirðingar á þessu dellurugli, en hef það mér til málsbóta, að það er þó varla meiri della og rugl en þessi mál eru sjálf.

Öfugt við það sem oft vill verða í málum af þessu tagi, svo sem máli Clintons og Lewinskys, sitja karlmennirnir uppi með skömmina en konurnar með frægðina, að minnsta kosti Christine Keeler.


mbl.is „Engar tilviljanir í njósnasögum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Huckabee

Hún sagði senna Just got lucy 

 vitnað i Hermann heppna

Huckabee, 14.11.2012 kl. 03:21

2 Smámynd: Huckabee

Lucky átti það að vera

Huckabee, 14.11.2012 kl. 03:22

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Margur karlinn verst í vök,
vinsæl kvenna hreðjatök,
í Ameríku er nú pus,
hjá offisérnum Petreus.

Þorsteinn Briem, 14.11.2012 kl. 04:42

4 Smámynd: Hörður Halldórsson

Stelpan sat á Arne Jacobsen stól . Sögufræg ljósmynd Stóllinn varð  líka frægur !!

Hörður Halldórsson, 14.11.2012 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband