15.11.2012 | 19:38
Uppgjöf fyrir ofurvaldi tískunnar.
Mercedes Benz A-Class var djörf tilraun til skynsemi í gerð bíla, sem að mestu eru notaðir í borgarumferð eins og yfir 90% bílaflota Evrópu. Bíllinn var um 40 sentimetrum styttri en keppinautarnir en bauð þó upp á svipað rými fyrir farþega og farangur, auk þess sem þægilegt var að setjast inn í hann og stíga út úr honum og útsýnið mjög gott, einkum framá við vegna þess hve nefið var stutt.
Þrátt fyrir stuttan framenda var öryggið svipað vegna einstæðrar hönnunar gólfsins, sem var tvöfalt og tók á sig stóran hluta höggs framan frá.
En þetta kostaði fórnir hvað snerti fjöðrunina, því að vegna hækkaðs þyngdarpunkts valt bíllinn í upphafi í svonefndu elgsprófi í Svíþjóð. Til að lagfæra það voru hjólin færð utar og fjöðrunin gerð stinnari og grynnri.
En annað vegur þó þyngra þegar nú er ákveðið að söðla algerlega um og gerbreyta bílnum.
Nýr A-Class verður að vísu með betri aksturseiginleika og fjöðrun en fyrirrennarinn og stefnt er að því að hann velgt keppinautum sínum undir uggum á því sviði, og vegna þess að setið er lægra en í þeim gamla, hreyfast þeir minna, sem í bílnum eru, á ójöfnum vegi en í þeim gamla og njóta svipaðra þæginda að þessu leyti og í stærri gerðum Benz.
Gamli A-Class var gerólíkur öðrum Benz-bílum og segja má að hinn nýi sverji sig hinsvegar mjög í ættina með öðrum Benzum, 16 sentimetrum lægri og líkari BMW 1 en Golf.
En það kostar líka næstum hálfs metra lengingu sem skilar engu umtalsverðu í rými.
En svo er að sjá að útlitið sé aðalatriðið af hendi hönnuðanna. Það er að hluta til skiljanlegt því að lengst af var A-Class frekar ljótur bíll þótt hann skánaði mikið þegar honum var breytt og hann lengdur um 23 sentimera síðustu árin.
En ég tel að hönnuðirnir hefðu getað hannað fallegan og smekklegan bíl án þess að gefast gersamlega upp fyrir þeim tískustraumum síðustu ára sem byggjast á því að hækka vélarhúsið og minnka gluggana svo að þeir verða á stundum eins og mjóar og langar rifur og útsýnið því lélegt.
Þetta getur ekki flokkast undir neitt annað en tískuþjónkun því að sú var tíðin, nánar tiltekið árið 1952, sem mikið kapphlaup hófst meðal bílaframleiðenda um að bjóða bílstjórum uppá sem best útsýni.
Spánnýr og nýtískulegur Ford ´52 bauð upp á "útsýni allan hringinn" og næstu ár á eftir sýndu tölurnar, sem áttu að lokka kaupendur, hve mörg prósent sjóndeildarhringsins sæust úr bílstjórasætinu, um hve mörg prósent flatarmál glugganna hefði verið aukið, og síðan var reynt að útbúa bílana þannig að bílstjórinn sæi helst öll fjögur ystu horn hans.
Þetta var tískustraumur sem byggðist á praktiskum atriðum, sem voru og eru enn í fullu gildi.
Sem betur fer finnast nýir bílar á markaðnum, sem seljast vel án þess að elta þessa tísku. En greinilegt er að A-Class og flestir aðrir nýjustu bílarnir eru í þessum tilgangslausa eltingarleik, vegna þess að það hlýtur að koma að því að ekki sé hægt að gera gluggana minni og útsýnið lélegra.
Og þá hefst líklega svipaður eltingarleikur og upp úr 1950 þar sem tískan verður látin endurspegla bætt útsýni.
Ég hitt sölumann eins nýs bíls sem mér finnst hreinlega ljótur, Nissan Juke, og útmálaði skoðun mína á honum og spurði hann hvað honum fyndist um þetta.
Hann svaraði því til að það væri erfitt að draga nokkra ályktun af því sem ég héldi fram aðra en þá að við værum báðir orðnir gamlir.
Sem er rétt, því að það er eftir ferði í gegnum bílasöguna, sem hægt er að sjá, hvernig tískan hefur hlaupið aftur og aftur með menn í gönur, þannig að bílar, sem þóttu t. d. rosalega "in" fyrir 35 árum og aðrir sem þóttu hræðilega úreltir og púkalegir þá, hafa skipt algerlega um hlutverk núna.
Nýr Mercedes Benz A-Class frumsýndur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Satt er það að fyrsti A-Bensinn var "ljótur", allavega einfaldur og kjánalegur. En flestir ef ekki allir nýjir Bensar í dag eru hreinasta hörmung á að líta. Segi þetta reyndar án þess að hafa lagst í einhverja ýtarlega rannsóknarvinnu í þeim málum, miklu frekar það sem maður sér á götunni og í sjónvarpinu.
Hafandi sagt það þá eru þeir fallegustu bílarnir frá Þýskalandi í dag vafalaust frá Audi. Ég er kannski ekki alveg hlutlaus enda vinn ég hjá umboðinu, en smekkvísi og frágangur þeirra Audi-manna er eftirtektarverður. En um leið eru þeir eins einfaldir í notkun og þeir geta verið þrátt fyrir hina og þessa möguleika á stillingum og tökkum til að fikta í. Sem sagt flóknir en um leið einfaldir á sinn hátt.
En lifi Bens sem lengs, verandi fyrsti "nútíma"bíllinn hehe.
Hafþór (IP-tala skráð) 16.11.2012 kl. 11:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.