15.11.2012 | 21:12
Forsætisráðherra Svía bjó í blokk.
Forseti Úrúgvæ er ekki sá eini af merkum mönnum eða forystumönnum ríkja, sem hefur lítt umleikis.
Á sínum tíma bjó Tage Erlander, forsætisráðherra Svía, í venjulegri íbúðablokk. Ekki barst Mahatma Gandhi, leiðtogi Indverji, mikið á, hvorki í hýbýlum né klæðaburði.
Ekki fara miklar sögur af íburðarmiklum lífsstíl Jesú Krists, heldur þvert á móti. Átti hann þó ríkan vin, Nikódemus, og hafði samneyti við hina illa þokkuðu tollheimtumenn.
Jim Braddock, sem varð heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum 1935, hafði ári áður lifað á bónbjörgum hjá fátækraþjónustunnni.
Frankie Laine, sem var einn vinsælasti dægurlagasöngvari sjötta áratugsins, svaf um tíma árið 1949 á bekk í Central Park í New York og átti ekki bót fyrir rassinn á sér. Hafði hann þá verið að streða við sönginn í sautján ár án peningalegs árangurs.
Edit Piaf var á barmi þess að bjarga sér í kröggum með því að fara út í vændi.Steini og Olli, Stan Laurel og Oliver Hardy, einhverjir vinsælustu leikarar gamanmyndanna, lifðu síðustu árin bláfátækir og þannig var um margar af frægustu stjörnunum.
Davíð Stefánsson orti að vísu um sælusambandið við Dísu í dalakofanum: "...er sælt að vera fátækur, elsku Dísa mín.." en fátækt og örbirgð eru samt mesta böl mannkynsins og langt í land að uppfylla eitt af fjórfrelsum Roosevelts, "frelsi frá skorti."
Systkinin fjögur, sem áttu heima í eyjunni Knarrarnesi út af Mýrum lengst af síðustu öld, fóru aðeins í land tvisvar á ári, á vorin og á haustin, til að versla í Borgarnesi. Ég spurði Stellu, sem hafði jafna orð fyrir þeim, hvort þau vantaði ekki oft eitthvað.
Hún svaraði: "Nei, okkur vantar aldrei neitt nema einhvern óþarfa."
Fátækasti forseti heims | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Forseti Úrúgvæ er að reyna að sína lit, í fátæku landi með því að búa ekki í höllinni
og gefa laun sín. Þessi grein þín er misheppnuð.
Snorri Hansson, 16.11.2012 kl. 05:33
hvaða bull er þetta ,þessi grein er ágætis hugleiðing mætti nefnna marga til sögunar í viðbót.
bubbi (IP-tala skráð) 16.11.2012 kl. 06:46
Stífur er hér stjörnugrís,
stingur á sig hverri flís,
eitt sinn lá hann undir SÍS,
en ekkert lengur þar nú rís.
Þorsteinn Briem, 16.11.2012 kl. 06:59
Það er mikill munur á Ómar hvort menn búa í örbirgð fyrir eða eftir ríkidæmi þegar ekki var öðrum kostum til að dreifa, eða meðan á ríkidæminu stendur. Svo eru aðrir sem ekki berast mikið á þótt þeir hefðu efni á því en eiga sína fjármuni á "öruggum" stað.
Ekki dettur mér íhug að líkja þessum manni við Jesú krist en kannski er Gandhi samanburðarhæf í þessu dæmi en hin eru út úr korti.
Án þess ég vit það þá er mér stórlega til efs að Tage Erlander hafi gefið 90% af sínum launum til góðgerðarmál meðan hann var forsætisráðherra. Fæ svolítið á tilfinninguna að þetta hafi að hluta verði "show" hjá honum.
Landfari, 16.11.2012 kl. 11:30
Það er gaman að svona vangaveltum og fróðleiksmolum, eins og Ómar er oft með. Það finnst örugglega fleirum.
Hrúturinn (IP-tala skráð) 16.11.2012 kl. 12:25
Takk, skemtileg grein
örn (IP-tala skráð) 16.11.2012 kl. 12:38
Undarlegt hversu margir sýna andúð gegn svona ályktunum.
Árni Gunnarsson, 16.11.2012 kl. 14:22
Ég er eiginlega sammála landfara, sé það ætlun Ómars að líkja þessu öllu saman. Það á ekki við, því að hann tekur til menn sem höfðu ekki möguleika á að bæta hag sinn, en það hefur forseti Úrúgvæ. Hins vegar er þetta ágætis fróðleikur og örugglega ekki ætlaður til að setja alla upptalda undir sama hatt.
Anna Dóra Gunnarsdóttir, 16.11.2012 kl. 18:56
Furðuleg upptalning Ómar skil ekki upp né niður í því sem hér er verið að segja, eftir situr forseti Úrúgvæ er að gera góða hluti núna.
Sigurður Haraldsson, 16.11.2012 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.