Ekki mér heldur.

Mér líður ekki eins og glæpamanni, frekar en Svavari Halldórssyni, vegna umfjöllunar minnar, pistlaskrifa og myndbirtinga, sem hafa upplýst um mikilsverð atriði varðandi háhitavirkjanir, sem áttu að liggja í þagnargildi.

Í mynd Helga Felixsonar um Hrunið spyr hann Björgólf Thor Björgólfsson um það hvað hafði orðið um alla þá tugi og hundruð milljarða sem voru á ferli í aðdraganda Hrunsins. Og Björgólfur svarar: "Peningarnir hurfu". Einfalt og sjálfsagt. Málið dautt.

Síðan gerist það að í frétt af viðskiptafléttu Pálma Haraldssonar í Fons orðar fjölmiðlamaðurinn svipað fyrirbæri þannig að í viðskiptafléttu Pálma hafi peningar "gufað upp", og ekki bara það, - í stað almennrar lýsingar Björgólfs Thors hefur Svavar heimildir fyrir sínu máli sem og í svipuðu máli öðru.

Í Héraðsdómi er hann sýknaður af ákærum um tilhæfulausar ærumeiðingar en sakfelldur í Hæstarétti.

Við lifum á merkilegum tímum. Ef þeir, sem voru gerandur í Hruninu lýsa því sem gerðist er það í góðu lagi. Ef hins vegar fjölmiðlamenn segja frá því skulu þeir sæta því að teljast glæpamenn og borga gerendunum peninga.

Vilmundur Gylfason sagði hin fleygu orð á sínum tíma: "Löglegt en siðlaust". Hugsanlega hefði hann verið dæmdur sem afbrotamaður fyrir þessi ummæli á okkar dögum.

Í fyrravetur sýndi ég myndir af stækkandi tjörnum affallsvatns hjá Svartsengisvirkjun, Hellisheiðarvirkjun, Kröfluvirkjun, Reykjanesvirkjun og Bjarnarflagsvirkjun og hafði fyrir því heimildir að fyrr eða síðar yrði að grafa skurð frá Svartsengisvirkjun til sjávar með tilheyrandi umhverfisspjöllum til þess að koma affallsvatninu í burtur, og að enn væru affallsvandamálin við aðrar virkjanir óleyst, þrátt fyrir loforð og fullyrðingar um hið gagnstæða.

Mér líður ekki eins og glæpamanni fyrir þennan fréttaflutning og myndbirtingar, þótt ég gæti ekki nafngreint heimildarmenn mína, því að í orkugeiranum ríkir ákveðin þöggun og ef menn passa sig ekki geta þeir lent úti í kuldanum um verkefni á sínu sviði.

Það varð nefnilega uppi fótur og fit. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur "harmaði" þann fréttaflutning í Sjónvarpinu sem kom í kjölfar pistla minna og myndbirtinga af Hellisheiðarvirkjun. Fullyrt var að affallstjörnin væri að mestu til komin vegna vorleysinga og að þar með væri ég sekur um tilhæfulausan róg.

Ég fékk líka orð í eyra hjá ýmsum fyrir frásagnir mínar af hinum virkjununum. Ég hefði farið með staðlausa stafi og róg varðandi skurðinn sem grafa þyrfti til sjávar frá Svartsengisvirkjun. Ekkert slíkt stæði til. Gamall fréttahaukur, mikill stóriðju- og virkjanasinni, húðskammaði mig fyrir að flagga nafnlausum heimildarmönnum í þessu máli en hafði þó sjálfur í gamla daga birt fréttir, sem byggðust á heimildum frá heimildarmönnum, sem ekki vildu láta nafns síns getið. IMG_3438

Sett var ofan í við mig á opnum íbúafundi í Mývatnssveit þar sem ég spurði hvernig stæði á stækkandi tjörn affallsvatns í 10 kílómetra fjarlægð frá Kröfluvirkjun þegar talsmaður virkjunarinnar afgreiddi málið í einni setningu: "Niðurdæling við Kröflu hefur gengið mjög vel."

Ef viðkomandi aðilar hefðu farið með þessi mál mín fyrir dómstóla í fyrravetur og fengið úrskurð Hæstaréttar hið snarasta, væri ég sennilega dæmdur afbrotamaður.

En nú er það of seint fyrir þá.

Nú á dögunum neyddust nefnilega talsmenn HS orku til að viðurkenna að það þyrfti að grafa 4,5 kílómetra langan skurð frá Svartsengi til sjávar til að losna við affallsvatnið og að fullyrðingar um lausn með niðurdælingu hefðu ekki staðist.

Og síðsumars blasti við að tjörnin vestan við Hellisheiðarvirkjun, sem vorleysingar áttu að hafa valdið að mestu, hafði stækkað á sama tíma og hér ríkstu mestu sumarþurrkar í áraraðir!

Bændur höfðu verið lokkaðir til fylgis við virkjunina með því að OR hjálpaði til við að lagfæra fyrir þá gamla fjárrétt fyrir vestan virkjunina  en síðan kom affallsvatnið og spillti fyrir afnotum þeirra að svæðinu! Set hér inn mynd af tjarnasvæðinu eins og það er nú. IMG_6007

Fullyrðingar frá því fyrir tíu árum um að búið væri að leysa þessi vandamál sem og vandamál vegna eitraðra lofttegunda og lélegrar nýtingar hafa reynst svikin loforð.

Enn fara 85% orkunnar óbeisluð út í loftið.

En við Bjarnarflagsvirkjun eru nú gefin sömu loforð í sex sinnum meiri nálægð við byggð og gefin voru við Hellisheiðarvirkjun fyrir tíu árum.

Loforðunum vegna Heillisheiðarvirkjunar var trúað fyrir tíu árum og enn er ætlast til þess að því sé trúað að þrítugföld stækkun Bjarnarflagsvirkjunar muni engin áhrif hafa á lífríki Mývatns eða loftgæði í 2,8 kílómetra fjarlægð.  

Nú er beðið um átta ára frest til að athuga, hvort hægt verði að leysa þessi mál við Hellisheiðarvirkjun!

Gígaraðir og móbergshryggir finnast hvergi í heiminum eins og hér. Ég tel það glæp gagnvart framtíðinni að eyðileggja gígaröðina Eldvörp við Svartsengi til þess eins að klára alla orku sameiginlegs jarðhitahólfs þessara staða á innan við 30 árum í stað 50 ára. IMG_1005

Heimildir fyrir þessu eru til hjá HS orku og raunar er siðlaust að klára orku virkjaðra háhitasvæða hér á landi á 40-50 árum þegar hægt er með hófsamari nýtingu að dreifa ábatanum af henni til komandi kynslóða. 

Í dag myndi okkur þykja það hafa verið skítt ef Ólafur Thors, Bjarni Ben, Emil Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason hefðu staðið fyrir stórvirkjun fyrir hálfri öld á þann hátt að hún væri ónýt nú, en hefði með minni ágengni getað verið enn og áfram í notkun. 

Við þessi ummæli mín er ég reiðubúinn að standa og sæta því að verða dæmdur glæpamaður fyrir þau.   


mbl.is Líður ekki eins og glæpamanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Samþykkt!

Árni Gunnarsson, 16.11.2012 kl. 14:19

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ekki sama merking í orðum Björgólfs, "peningarnir hurfu" og í fréttaflutningi Svavars, "peningarnir gufuðu upp".  Skrítið að þú skulir ekki átta þig á því.

Peningar geta horfið án þess að neitt saknæmt sé í gangi. Meining Svavars var sú að peningunum hefði verið stungið undan á ólögmætan hátt. Fyrir aðdróttanir af því tagi og án þess að færa fyrir þeim sönnur, er hann dæmdur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.11.2012 kl. 15:08

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Svo klifarðu stöðugt á 40-50 ára nýtingartíma. Allir vita að þú ert ekki á móti jarðvarmavirkjunum þess vegna. Komdu hreint fram og segðu bara eins og er, þú vilt ekki jarðvarmavirkjanir vegna náttúruverndarsjónarmiða. Flestir virða það þó fæstir séu sammála þér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.11.2012 kl. 15:24

4 identicon

Kanski allt gott og blessað en "Bændur höfðu verið lokkaðir til fylgis við virkjunina með því að reisa fyrir þá fjárrétt"?

Ég held að þú áttir þig ekki alveg á því Ómar í hvaða stöðu bændur eru gagnvart virkjanaáformum. Ef bóndi á land sem verður fyrir áhrifum af virkjun þá er reynt að semja við hann. Frá fyrsta degi er honum þó gert ljóst að engu máli skiftir hver hans afstaða er, það verði samt virkjað. Ef hann er á móti þá verður farið í eignarnám þar sem hann verður að sæta þeim bótum sem bjóðast. Hinn kosturinn sé að semja og þá á bóndinn engan annn kost en að reyna að herja fram sem mestar sporslur og yfirleitt skal þar allt heita öðrum nöfnum en bætur fyri hitt og þetta til að skapa ekki fordæmisgildi svo að virkjunaraðilinn hafi frítt spil þegar hann snýr sér að næsta bónda.

       Þetta ferli misskilur þú, Ómar á þann hátt að bændurnir séu að reyna að græða á virkjuninni og séu "lokkaðir" út í vitleysuna. Það er eitt vera á móti umhverfisspjöllum af virkjunum og jafnvel hafa atvinnu af því en annað að vera settur í þá stöðu að búa við   umhverfisspjöllin og verða fyrir tjóni af þeim hvort sem maður er með eða á móti. Verða svo kanski kennt um allt heila klabbið af hinum sem standa fyrir utan. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 16.11.2012 kl. 15:36

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það má ekki misskilja mig varðandi bændurna, að þeir eru í engri  samnningsaðstöðu gagnvart valdinu. Þarna var gömul frjárrétt á landi í eigu Reykjavíkurborgar. Ég er ekki að deila á þá í þessu tilfelli þar sem þeir áttu engra annarra kosta völ og hafa nú að vísu fengið loforð um að OR hjálpi til við að lagfæra þetta svæði eins og þarf.  

Ómar Ragnarsson, 16.11.2012 kl. 16:07

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var ekki á móti Nesjavallavirkjun á sínum tíma enda er nýting orkunnar þar mun betri en á Hellisheiði. Einkennileg þessi árátta að stimpla mann sem andstæðing rafmagns.

Ég var heldur ekki á móti Svartsengisvirkjun.

En þegar um það er að ræða að af 19 virkjanakostum á Reykjanesskaganum á aðeins að þyrma þremur svæðum bara vegna þess að okkur Íslendingum nægi ekki að framleiða fimm sinnum meiri orku en við þurfum sjálf (nýjasta orðalag forstjóra LV) heldur þurfi endilega að framleiða tíu sinnum meiri orku en við þurfum og selja á spottprís erlendum fyrirtækjum, - og þegar komið er í ljós að loforðin um hreina, endurnýjanlega orku og góða orkunýtingu voru gefin án innistæðna og menn hafa vaknað upp við vondan draum, þá er kominn tími til að segja það sem ég sagði strax fyrir sex árum: Hingað og ekki lengra!    

Ómar Ragnarsson, 16.11.2012 kl. 16:23

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Viltu ekki að tekið sé mark á þeim "sérfræðingum" sem setja tiltekna virkjunarkosti í nýtingarflokk? Rammaáætlun átti að skapa frið um þessi mál. Raunin er önnur, því miður.... en á svo sem ekki að koma þeim á óvart sem fylgst hafa með baráttu þinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.11.2012 kl. 18:19

8 Smámynd: Landfari

Þú átt mikið hrós skilið Ómar fyrir baráttu þína fyrri náttúrurvernd og að sýna okkur á þinn hátt hvað við eigum falegt land og minna okkur á að okkur ber að vernda það.

En eitt skildi ég ekki alveg í textanum hjá þér  hér að ofan:

"En við Bjarnarflagsvirkjun eru nú gefin sömu loforð í sex sinnum meiri nálægð við byggð og gefin voru við Hellisheiðarvirkjun fyrir tíu árum."

Hvað er sex sinnum meiri nálægð við byggð?  Ertu þá kominn í fimmfalda fjarlægð frá byggð í gangstæða átt? Eða ertu að meina að fjarlægð Bjarnarflagsvirkjunar sé 1/6 af fjarlægð Hellisheiðavirkjunar frá byggð? Ef svo er þá er Hellisheiðarvirkjun í sexfaldri fjarægð frá byggð miðað við Bjarnarflagsvirkjun.

Landfari, 16.11.2012 kl. 23:49

9 identicon

Gunnar Th. Þú ert í liði með þeim sem vilja virkja allt sem hægt er að virkja. Hvernig verður það þegar búið er að virkja það litla sem eftir er að virkja? Verður þá allt gott og blessað? Eru allir fossar og öll hitasvæði allt sem við þurfum og ekki meir það sem þjóðin þarf? Hvar eru léttu, umhverfisvænu álbílarnir sem þið áltrúarmenn lofuðu okkur að verði allsráðandi við næsta álver? Hvernig getið þið stóriðjutruarmenn sannað að kínverjar hafi dregið úr kolabrennslu við að auka stóriðju á Íslandi, eins og þið sögðuð í ykkar áróðri?

Húnbogi (IP-tala skráð) 17.11.2012 kl. 00:36

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Húnbogi, (sem ekki þorir að koma fram undir fullu nafni) þetta er allt rangt sem þú segir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.11.2012 kl. 11:39

11 identicon

Þegar engin ráð finnast til að losna við loftmengun og affallsvatni ber okkur að stöðva framkvæmdir, ekki heimta ný umhverfismöt. Stöðvum nýframkvæmdir og sérstaklega Bjarnarflag. ÞÞ

ÞÞ (IP-tala skráð) 17.11.2012 kl. 12:21

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fjarlægðin milli byggðar í Reykjahlíðarhverfinu og Bjarnarflagsvirkjunn er sex sinnum minni en fjarlægðin milli Hellisheiðarvirkjunar og byggðar í Hveragerði.

Ómar Ragnarsson, 17.11.2012 kl. 18:10

13 identicon

Um fjarlægðir:

Fjarlægð frá fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun til Reykjahlíðar er rúmir 3Km.

Fjarlægðin frá Hellisheiðarvirkjun til Hveragerðis er 11Km en til austurhluta Reykjavíkur er 21Km.

Það sexfalda er hinsvegar að væntanleg H2S mengun frá 90MW Bjarnarflagsvirkjun verður uþb. 6X meiri í Reykjahlíð en mengunin sem nú mælist í Hveragerði.

Síðan að þetta komst í hámæli hefur LV passað sig á að tala einungis um fyrsta áfanga Bjarnarflagsvirkjunar eða 45MW, -því þar með helmingast mengunartölurnar!

Fjarlægðirnar má mæla á þessu ágæta korti

http://atlas.lmi.is/ornefnasja/

En þar ma´einnig sjá raskið við núverandi virkjanir og umfangsmikil lón með ómeðhöndluðu afrennsli þeirra.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 17.11.2012 kl. 20:00

14 Smámynd: Landfari

Ómar, sex sinnum minna en eitthvað er er minna en ekki neitt.

Þú sem ert þessi snillingur í að gera óborganlega texta, eins óg á disknum "Ómar lands og þjóðar" og fleiri mætti reyndar nefna, getur ekki leift þér segja svona vitleysu.

Ef þú átt hundrað kall og ég sex sinnum minna en þú skulda ég fimm hundruð.

100 - 6x100 = -500

Landfari, 21.11.2012 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband