Endanleg uppröðun inn í kjörklefana!

Síðan prófkjör eða forvöl voru tekin upp hér á landi hafa álitamál og deilumál vegna þeirra verið fleiri en tölu verður á komið. Deilt hefur verið um nánast allt, hverjir megi taka þátt, hvort prófkjörin eigi að vera opin eða lokuð, hvaða reglur eigi að gilda um nýskráningar í flokkana og jafnvel um það hvaða mat eigi að leggja á úrslitin.

Þar að auki hafa aðferðir frambjóðenda og stuðninga við að ná í atkvæði verið afar umdeildar.

Ef fólk vill á annað borð að kjósendur hvers framboðs hafi eitthvað um það að segja, hverjir komast á þing, eru prófkjörin slæm aðferð, því að aðeins hluti stuðningsmanna viðkomandi framboðs tekur þátt í prófkjörunum og þar að auki getur "smölun" inn á kjörskrár í þeim verið þess eðlis að þeir, sem hlutast til um röðunina á listann, kjósa síðan ekki flokkinn einu sinni í þingkosningunum sjálfum.

Eina leiðin, sem lagfærir þessa galla eins og hægt er, er sú að viðhafa persónukjör í sjálfum kosningunum þannig að þeir kjósendur, sem vilja hafa áhrif á hverjir komast á þing, geri það beint í kjörklefanum sjálfum.

Þeir, sem aðeins setja kross við listann, láta hina, sem vilja raða, um það að raða þingmönnunum.

Ég tel eðlilegt að vilji framboðin gefa kjósendum sínum leiðbeiningar um þá röð, sem þau vilja að verði, megi þau stilla þeirri röð upp á kjörseðilinn. Engu að síður sé kjósendum það ljóst, að þessi röð sé aðeins til leiðbeiningar, en að það séu alfarið þeir kjósendur, sem raða, sem ráði úrslitnum.

Þetta fyrirkomulag þarf auðvitað ekki að koma í veg fyrir að framboðin noti einhverjar aðferðir innan sinna raða til þess að velja frambjóðendur á lista sína, en aðalatriðið verði, að endanleg örlög þeirra verði ráðin af kjósendum í kjörklefanaum.

Þar með yrði hrundið því ástandi, sem ríkt hefur hér á landi síðan í síðari kosningunum 1959, að meirihluti þingmanna hverju sinni er í svonefndum "öruggum sætum" og geta þessir þingmenn setið rólegir með sinn bjór fyrir framan sjónvarpið á kosninganótt.

Ein versta hlið prófkjöranna hefur verið sú að fyrir löngu hefur sú spilling breiðst út til allra flokka að utanflokksfólki, jafnvel úr röðum annarra flokka, hefur verið blygðunarlaust smalað inn á kjörskrár.

Af þvi hefur skapast úlfúð og deilur, og með því kastað rýrð á úrslitin. Þetta mun hverfa ef persónukjör verður lögleitt í kjörklefunum og þá munu allir þingmenn sitja við sama borð á kosningar og enginn þeirra í "öruggu sæti".


mbl.is Sigríður opin fyrir formennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Kosturinn við prófkjör á undan kosningum er sá að þá veit kjósandinn hvaða fólk hann kýs þegar hann velur ákveðinn lista.

Röðun á lista samhliða kosningum leiðir til þess að þú veist í rauninni ekkert hvaða fólk þú ert að kjósa þegar þú merkir við lista á kjörseðlinum. Svo kemur kannski í ljós að þú hefðir kosið annan lista þegar þú sérð hvaða fólk lendir efst.  

Mótsögnin er sem sagt sú að persónukjör með þessum hætti myndi leiða til þess að kjósendur vissu minna um hvaða fólk þeir væru að kjósa en í kerfinu sem er notað í dag.

Þorsteinn Sverrisson, 18.11.2012 kl. 20:11

2 identicon

Kosturinn við opin prófkjör er einmitt sá að menn geta flykkst til að velja frambjóðendur á marga lista.  Það gefur auga leið að flestir listar koma manni að og þeir menn eru ekki bara fulltrúar sinna kjósenda heldur allra kjósenda.  Því kemur mér það við hverjir eru í framboði hjá öllum flokkum, ekki bara „mínum“ flokki.  Sá sem ekki vill að einhverjir miður hæfir komist á þing ætti því að reyna að hafa áhrif á mannval allra flokka sé á annað borð gefinn kostur á því.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 18.11.2012 kl. 21:46

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar persónukjör var innleitt í Danmörku fengu flokkarnir að ráða því hvort þeir vildu bjóða fram lista með röðun að eigin vilja eða óraðaða list. Með árunum hafa óröðuðu listarnir orðið einráðir, af því að kjósendum hefur líkað það vel og þeir grætt á því.

Á maður að trúa því að reynslan yrði önnur hér?

Ómar Ragnarsson, 18.11.2012 kl. 23:33

4 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Það er mjög góð aðferð að láta flokkana ráða þessu. 

Þorsteinn Sverrisson, 19.11.2012 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband