Bíll aldarinnar var framleiddur með tapi.

Það eru áhöld um hvort telja eigi Ford T eða Mini bíl 20. aldarinnar. Enginn bíll ruddi brautina fyrir almennri notkun í viðlíka mæli og Ford T, það verður ekki af honum tekið.

En ef um er að ræða hönnun tel ég Mini merkastan og bíl aldarinnar að því leyti, því að áður en hann kom fram, var enginn bíll framleiddur með eftirfarandi: Fjögurra strokka, þverstæða vatnskælda fjórgengisvél og framhjóladrif. Nú lætur nærri nálægt 90% fólksbíla heimsins séu með þverstæðar, vatnskældar fjórgengisvélar og framhjóladrif og því nokkurs konar afkomendur hins frábæra bíls Alec Issigonis.

Mini og síðar aðrir stærri bílar sem BMC framleiddi gáfu þessu fyrirtæki að mörgu leyti byr undir báða vængi. Alls voru framleiddir 5,5 milljónir Mini og á tímabili var næsti bíll sem kom frá fyrirtækinu þar á á eftir, Morris/Austin 1100 og 1300, mest seldi bíll Bretlands.

En því miður kom áherslan á að bjóða sem lægst verð í bakið á framleiðandanum, því að í ljós kom að útreikningarnir voru skakkir, Mini var lengi vel framleiddur með tapi.IMG_0932

Á meðfylgjandi mynd er Mini í góðum félagsskap. Þessi Mini er minnsti Mini í heimi og minnsti bíll á Íslandi, en hjá honum eru minnsti fjögurra manna bíll á landinu og minnsti jöklajeppi landsins.   

Á þessum tíma voru skæðustu keppinautarnir með vélina aftur í og afturhjóladrif, en það er talsvert einfaldara og ódýrara fyrirkomulag en framdrif, færri hjöruliðir, miklu minna pústkerfi og ekkert drifskaft.

Ford Cortina var frábært svar við Mini og Austin/Morris 1100 - 1300, léttbyggður og einfaldur bíll en þó stærri, rúmgóður og með stærra farangursrými og svo fór að bílar BMC fóru hallloka.

Mikil framleiðsla á ódýrum bílum getur orðið framleiðandanum fjötur um fót. Henry Ford lagði of lengi of mikla áherslu á framleiðslu Ford T, sem kostaði aðeins 260 dollara 1926, en þá var salan dvínandi og Ford missti fyrsta sætið í hendurna á GM og Chevrolet. Ford var illa statt í stríðslok og þó bjargaði stríðsframleiðslan fyrirtækinu frá enn meiri hremmingum.

Sama henti Volkswagen með Bjölluna þegar komið var fram að 1970 og mátti fyrirtækið þakka fyrir að Golf var svo vel heppnaður bíll að hann kom VW á beinu brautina aftur.


mbl.is Minni gróði af minni bílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Austin Mini var lélegur bíll. Átti einn slíkan um 1979 og hann var bara drasl. Reyndar eins og flest sem kom frá UK á þessum tíma. Ford Cortina 1971 model er eitthvert mesta hneyksli sem ekið hefur eftir hvaða þjóðvegi sem er, er kemur að gæðaafglöpum og skelfileguu efnisvali. Þeir í UK gátu ekki einu sinni fylgt eftir frumhönnun sinni í þotusmíði, hvað þá bílum, þó þeir álpuðuat til að verða fyrstir með allar mestu tækninýjungarnar.

Volvo 140, sem síðar var' 240 var framleiddur nær óbreyttur í þrjá áratugi!

Ef þú ættir bílaframleiðsluverksmiðju, Ómar, hvað myndir þú framleiða?

Góðar stundir.

Halldór Egill Guðnason, 20.11.2012 kl. 05:15

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég tek undir með Halldóri. Bílasaga Breta var nánast ein heil sorgarsaga.

Enginn efast að Ford T er bíll 20. aldarinnar. Á eftir honum kemur að mínu mat Bjallan. Einaldleikinn var þar í fyrirrúmi og sá bíll framleiddur með nánast sama tæknibúnaði í rúma hálfa öld. Þó Þjóðverjar hafi hætt framleiðslu þeirra seint á áttunda áratug síðustu aldar, var framleiðsu haldið áfram mun lengur annarsstaðar.

Víst er það rétt að söluvandamál Bjöllunnar byrjuðu upp úr 1970 og viðbrögð verksmiðjana voru kannski til þess að framleiðslunni var hætt i Þýskalandi u.þ.b. áratug síðar. Stæðstu mistökn voru kannski þegar fjaðrabúnaði að framan var breytt og settir gormar í stað flexitora. Þetta átti að gera bílinn mýkri, eitthvað sem kaupendur Bjöllunnar voru kannski ekkert sérstaklega að spá í. Gallinn sem fylgdi var að boddýið bar ekki slíkann fjaðrabúnað og bílarnir bókstaflega gengi saman að ofan. Þetta varð sérstaklega mikið vandamál hér á íslensku malarvegunum.

Það var margt annað sem mátti bæta í þessum bílum, t.d. miðstöð, endingu mótors og eyðslu. Ef eittthvað af þessum atriðum hefði verið lagað, í stað þess að ráðast á og eyðileggja fjöðrunina, er eins víst að þessi bíll hefði átt enn lengri lífdaga, væri kannski enn í framleiðslu.

Gunnar Heiðarsson, 20.11.2012 kl. 07:17

3 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Mini hafði byltingarkennda aksturseiginleika. Aldrei fyrr hafði verið framleiddur bíll fyrir almenning með aksturseiginleika sem tóku bestu rallýbílum fram. Hann var líka "stærri að innan en utan" en þá eru líka kostirnir upp taldir. Einn hættulegasti bíll síns tíma að sitja í, ef ekki einfaldlega sá allra hættulegasti. T.d. hafði hann innbyggða fallöxi: Mörg dæmi voru um að þegar Mini keyrði á, til dæmis á tré sem var mjög algengt í Bretlandi, að farþegi í framsæti rynni niður úr sætinu, höfuðið skylli á hvalbaknum og lokið á hanskahólfinu hefði opnast og höggvið á hálsinn.

Sætin voru hræðileg, svo ekki sé meira sagt. Fjöðrunin, svo góða aksturseiginleika sem hún veitti, entist illa, byggðist á gúmmípúðum sem slitna hratt.

Ef eitthvað bilaði var illmögulegt og hreint ótrúlega erfitt að komast að því til að gera við. Og - Mini bilaði oft!

En - það er gríðarlega skemmtilegt að keyra Mini:-)

Já - framdrifið. Lee Iacocca framkvæmdastjóri hjá Ford og seinna forstjóri Chrysler, sagði í ævisögu sinni að mjög einföld ástæða væri fyrir því að framdrif væri að vinna á í bílaframleiðslu: Það væri einfaldlega ódýrara en afturdrifið!

Þórhallur Birgir Jósepsson, 20.11.2012 kl. 08:50

4 identicon

Ég má til með að nefna að framreiknað verð á Ford-T er aðeins $3,397,- ($260) að teknu tilliti til verðbókgu. Þetta finnst mér mjög svo athyglisvert. Engin furða að hann náði mikilli útbreiðslu. 

Einar (IP-tala skráð) 20.11.2012 kl. 09:10

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vissulega var Ford T ódýr, Einar og það gerði hann að bíl aldarinnar. Engin sérstök tækni eða þægindi voru við þann bíl, en ódýr var hann.

Á þessum tíma var mikil gerjun í þróun bíla og margar frábærar hugmyndir sem komu fram. Sumar þeirra hafa lifað til dagsins í dag og aðrar lágu í láginni marga áratugi en voru síðar dregnar fram. Jafnel enn í dag eru sumar gamlar hugmyndir að koma aftur í dagsljósð.

Fátt hefur þó lifað af þeirri tækni sem Ford T var byggður á. 

Gunnar Heiðarsson, 20.11.2012 kl. 10:50

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vélin í Ford T var ein sú fyrsta, ef ekki sú fyrsta, sem var með heilu "heddi". Að öðru leyti byggðist snilldin í hönnun bílsins á því að hafa allt sem einfaldast og helst einfaldara og þar með ódýrara, endingarbetra og öruggara en í nokkrum öðrum bíl.

Bíllinn myndi flokkast sem smábíll nú, var aðeins um 500 kíló í upphafi og um 3,4 metra langur, álíka langur og Toyota Aygo, en samt gerður úr góðu hráefni og var notadrjúgur á hinum gríðarlöngu malarvegum Ameríku, sem þá lágu um víðáttur þess lands.

En úrslitum réði að bíllinn var hinn fyrsti sem var framleiddur á færibandi.

1938 var Bjallan tæknilega hlutfallslega fremri miðað við aðra bíla en Ford T hafði verið á sínum tíma, botnplata og yfirbygging boltuð saman þannig að skilgreina mátti bílinn sem sjálfberandi, sem var afar sjaldgæft þá, loftmótstaðan fyrir neðan cx 50, ýmist sögð hafa verið 0,41, sem hefði verið frábært, eða 0,48 sem ég sá einhvers staðar.

Bjallan var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn með vél og drif að aftan og reynt að hafa hann eins einfaldan og unnt var og settan saman úr mun færri hlutum en aðrir bílar.

Vélin var afar einföld og léttbyggð, loftkæld, en gagnstætt því sem margir héldu, snerist hún ekki hratt, náði hámarksafli við 3400 snúninga.  

Til dæmis var enginn bensínmælir í bílnum fyrstu árin heldur krani, sem hægt var að skrúfa frá til að opna varageyminn ef aðalgeymirinn tæmdist. Svipaður útbúnaður er á NSU Prinz bílnum sem ég á.

Nordhoff, fyrsti framkvæmdastjórinn, heimtaði að aðeins úrvals hráefni væru notuð í bílinn, og það, ásamt því að sérstakur olíukælir var í vélinni, gerðu það að verkum að ending vélarinnar og Bjöllunnar í heild setti ný viðmið. Hún gekk og gekk og gekk og gekk.

En það dróst um tíu ár að farið væri að flytja bílinn á heimsmarkað og tíu árum þar á eftir voru keppinautarnir þægilegri, bjartari og nýtískulegri í útliti.

Annað var uppi á teningnum í Mini. Ég hef árlega keypt ritið "Auto motor und sport, Gebrauchtwagen", og mátti þar sjá á lituðum súluritum síðustu árin sem Mini var framleiddur, hvort einstakir hlutar bílsins biluðu meira eða minna en að meðaltali hjá öllum bílunum, sem teknir voru til skoðunar.

Og niðurstaðan var sláandi: Síðustu árin, sem gamli Mini var framleiddur skar hann sig úr: Hann var eini bíllinn í bókinni þar sem allar súlurnar voru rauðar og háar!

Samt var Mini framleiddur til ársins 2000 og Bjallan til ársins 2003 í Mexíkó.

Hafi Mini verið léleg smíð en einstæð og frábær hönnun, versnaði það bara áratugina á eftir. Arftakar Morris 1100 eru nú viðurkenndir í fræðibókum sem einhverjir lélegustu bílar allra tíma ásamt fleiri breskum bílum á árunum 1970-1990, Austin 1800, Allegro og Maxi og Metro.

Mjög rúmgóðir miðað við stærð en með hörmulegar gírskiptingar og hræðilegan frágang.  

Kannski var Land Rover eini breski bíllinn sem var ekki í ruslflokki hvað snerti endingu.

Mér fannst Nýja Bjallan ekki góð hugmynd, nær því ósitjandi í aftursætinu og vélin frammi í. Bjallan, sem nú er komin, er skárri hvað útlit og rými snertir, en af því að hann er byggður á grunni Golf finnst mér hann vera of stór.

Porsche 911 hefur verið trúr því að hafa vélina aftur í og afsannað hrakspár þess efnis að það væri ekki hægt.

Ég hefði viljað sjá svipaða þróun varðandi Bjölluna, sem þrátt fyrir allt var komin með svo stóra glugga í lokin að útsýnið var betra en á flestum nútímabílum.

Ómar Ragnarsson, 20.11.2012 kl. 13:40

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að útsýnið úr nýju Bjöllunni er lélegra en úr þeirr gömlu! Allt til þess að þjóna tískunni sem leikur fleiri nýja bíla ansi grátt í þessu efni. En þetta er "in" og selur.  

Ómar Ragnarsson, 20.11.2012 kl. 13:44

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrsta kynslóð Cortina var ekki svo slæmur bíll, hárrétt stærð og verð fyrir markaðinn. En næsta kynslóð 1970 var mikil afturför, stærri og þyngri og þar að auki eftiröpun á útliti hins bandaríska Ford Maverick sem var ekki til að hrópa húrra fyrir.

Ef ég ætti bílaverksmiðju nú myndi ég hrinda í framkvæmd allt upp í meira en 50 ára gömlum hönnunarhugmyndum mínum, sem þá voru miðaðar við orkuskort og nýjar kröfur komandi tíma.  

Ómar Ragnarsson, 20.11.2012 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband