30.11.2012 | 22:56
V plús V plús V = V ?
Eins og sést á tengdri frétt er búið að gefa út stormviðvörun fyrir Landeyjahöfn. Nafn byggðarlagsins, sem þetta snertir, byrjar á stafnum V, Vestmannaeyjar.
Þegar ég skrifa þennan pistil inn, hef ég stansað til þess á landleið frá Reykjavík til Ísafjarðar, en þar á ég að vera á 500 manna jólahlaðborði annað kvöld, sem lýkur væntanlega um klukkan ellefu. En af hverju flýg ég ekki þangað á morgun?
Jú, ég þarf að vera mættur á hljóðprófun í Eldborgarsal Hörpu klukkan tvö eftir hádegi á morgun fyrir jóla- og afmælistónleika Stórsveitar Reykjavíkur sem hefjast klukkan fjögur.
Aðeins eitt áætlunarflug er á dagskrá frá Vestfjörðum til Reykjavíkur á sunnudag, í hádeginu, enda ekki orðið bjart fyrr en þá og aftur orðið dimmt um fjögurleytið. Stormspáin gerir það vafasamt að hægt verði að fljúga.
Þess vegna verður að fara strax í það um miðnætti annað kvöld að aka suður og vonast til að komast yfir Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldana áður en leiðin verður hugsanlega ófær.
Ef það tekst ekki verður annað hvort að bíða eftir mokstri í hádeginu, sem er skelfilega seint, eða að aka til baka til Ísafjarðar og veðja á flugið, sem kannski verður ekki.
Það sem hér ræður eru þjú orð með upphafsstafnum V, Vetur, veður og Vestfirðir. Og pistillinn þessi tengdur við frétt um enn eitt orðið, sem byrjar á v, Vestmannaeyjar.
Ég er núna innst í Djúpinu að koma ofan af Steingrímsfjarðarheiði, og enda þótt héðan séu aðeins um 45 kílómetrar í loftlínu til Ísafjarðar, er landleiðin næstum fjórum sinnum lengri. Á stórum kafla leiðarinnar er ekið inn og út úr hverjum firðinum eftir annan og manni finnst maður ekkert þokast áfram, því að allan tímann blasir við sama svæðið á Snæfjallaströnd, handan Djúpsins.
Ég ætla ekki í þessum pistli að endurtaka greininguna á því við hvernig þessi landshluti er enn hálfri öld á eftir öðrum í samgöngum.
Enda þennan pistil í staðinn í hálfkæringi til gamans með því að setja upp reikningsdæmi eða jöfnu, sem er svo oft spurning á ferðum hér:
V plús V plús V = V, þ. e. Vetur plús veður plús Vestfirðir = vandræði?
Já, Jón Ársæll myndi segja: Svona eru Vestfirðir og Vestmannaeyjar í dag.
Slæm ölduspá í Landeyjahöfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flottur pistill Ómar....smagangnaákvarðanirnar hér á Íslandi í gegnum árin...eru gersamlega út úr kú...stór ástæða..er að það er ekkert samráð haft vi' sem flesta...því fleiri hugmyndir..því betri niðurstaða fæst í öll mál.
Ægir Óskar Hallgrímsson, 1.12.2012 kl. 11:00
Flottur pistill Ómar....samgangnaákvarðanirnar hér á Íslandi í gegnum árin...eru gersamlega út úr kú...stór ástæða..er að það er ekkert samráð haft við sem flesta...því fleiri hugmyndir..því betri niðurstaða fæst í öll mál.
Ægir Óskar Hallgrímsson, 1.12.2012 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.